Milli mála - 01.01.2012, Page 371
371
STEVEN PINKER
sögnin to fly (það sem fuglar gera). Aðra sögnina sjá þeir sem
sagnorð leitt af nafnorði, hina sem upprunalegt sagnorð. Aðeins
upprunalega sagnorðið getur haft óreglulegu þátíðina flew því að
einungis sagnrætur geta haft þátíðarmyndir. Þetta fyrirbrigði sýnir
að þegar menn nota nafnorð sem sagnorð auðga þeir orðasafn
hugans, ekki öfugt – orðin missa ekki eiginleika sína sem sagnorð
annars vegar og nafnorð hins vegar, en til eru sagnorð og til eru
nafnorð og til eru sagnorð leidd af nafnorðum og menn safna þeim
saman í huganum, hverju með sínum merkimiða.
Það sem er merkilegast við sérstöðu sagnorða sem eru leidd af
nafnorðum er að allir virða hana ómeðvitað. Í 5. kafla benti ég á að
ef sagnorð er leitt af nafnorði, til dæmis skírnarnafni einhvers, er
það alltaf reglulegt, jafnvel þó að það sé samhljóma óreglulegri sögn
sem er til í málinu. (Tökum sem dæmi Mae Jemison, fallega svarta
kvengeimfarann, hún out-Sally-Rided Sally Ride, ekki out-Sally-Rode
Sally Ride.) Rannsóknarteymi mitt athugaði þetta með því að leggja
um það bil tuttugu og fimm nýjar sagnir leiddar af nafnorðum fyrir
mörg hundruð manns – háskólanema, sjálfboðaliða sem voru ekki
með háskólapróf og við höfðum auglýst eftir í dagblaði, skólakrakka
og jafnvel fjögurra ára börn. Þau brugðust öll við af innsæi góðra
málfræðinga, þau beygðu nafnorð notuð sem sagnorð á annan hátt
en venjulegar sagnir.
Er einhver einhvers staðar sem skilur ekki þessa grundvallarreglu?
Já – málvendirnir. Ef þið flettið upp þátíðarmyndinni broadcasted í
The Careful Writer eftir Theodore Bernstein finnið þið þetta:
Ef þið haldið að þið hafið sagt fyrir (e. forecasted) um nánustu framtíð
enskunnar og eruð gengin í lið með (e. casted your lot with) þeim undan-
látssömu, gætuð þið verið opin fyrir því að sagt sé broadcasted, að minnsta
kosti þegar átt er við útvarpssendingar, eins og ýmsir höfundar orðabóka.
Við hin tökum aftur á móti þá afstöðu að hversu æskilegt sem það kann
að vera að gera allar óreglulegar sagnir reglulegar verði það hvorki gert
með opinberri tilskipun né á einni nóttu. Við höldum áfram að nota
broadcast sem þátíðarmynd og lýsingarhátt af því að við sjáum enga ástæðu
fyrir sagnmyndinni broadcasted aðra en áhrifsbreytingu eða samræmingu
eða rökvísi sem þeir undanlátssömu sýna sjálfir svo oft fyrirlitningu. Þessi
afstaða okkar stangast ekki á við afstöðu okkar til þátíðarmyndarinnar
Milli_mála_4A_tbl_lagf_13.03.2013.indd 371 6/24/13 1:43 PM