Milli mála - 01.01.2012, Síða 387
387
XAVIER DURRINGER
*
Augnaráð hans brennir mig eins og sígaretta. Hann les hugsanir
mínar, þarna inni í hausnum á mér. Hann sér í gegnum mig, hann
les mig, þarna inni í hausnum á mér. Hann klórar mér bak við
augun, hann smeygir sér inn, hann skríður, hann nagar, hann borar.
Hann þarf ekkert að vera hissa yfir því að mér sé illt í höfðinu, í
kinnholunum, ég er heimsmeistari í kinnholukvefi, augnkvefi,
þessi hrúður sem myndast í augnkrókunum, alveg eins og hjá
nýfæddum kettlingum, að ég sé með magann fullan af lofti, að ég
blási út, að ég nagi á mér neglurnar, að ég gráti yfir engu, að ég
gleymi öllu, að ég sé moðhaus eins og hann segir.
En þessi moðhaus er fullur af innkaupalistum, óstraujuðum þvotti,
nærbuxum, fullur af uppþvottasápu, svömpum og klósetthreinsi,
og hávaðinn í ryksugunni er svo mikill að hann svimar.
Við þyrftum að skipta á milli okkar heimilisverkunum, ég skal taka
baðkarið, hann getur þrifið teppið!
*
Þegar ég var lítil hélt ég að ef ég horfði nógu lengi á sólina þá
myndu augun í mér verða blá.
*
Hann var rafvirki, það var þannig sem við hittumst.
Öryggin höfðu sprungið, þetta var svarta tímabilið í lífi mínu, ég
fann hann á gulu síðunum, hann kom með verkfæratöskuna og
hann setti allt á sinn stað: öryggin þar sem þau eiga að vera og það
kviknaði á ljósinu.
Ég horfði á hann og sagði við hann, fíflið ég, mér líkar vel við fólk
sem kemur ljósinu í lag hjá mér.
Það kviknaði á öllu, útvarpinu, sjónvarpinu, vekjaraklukkunni,
ísskápnum, öllu!
Svo fór hann að bjarga fleirum og um kvöldið var hann hér, kominn
aftur til mín, og þvoði sér um hendurnar fyrir matinn. Við fórum
að sofa og elskuðumst fyrir framan síðasta sjónvarpsþáttinn, einhvers
konar fiskveiðiþátt, urðum verulega klístruð.
Þetta var ótrúlegt, húðin til dæmis og lyktin, þetta var alveg full-
komið en jæja …
Svo ákváðum við að eignast barn, þar sem við vorum með laust
herbergi sem við notuðum sem geymslu, en eftir því sem ég horfði
Milli_mála_4A_tbl_lagf_13.03.2013.indd 387 6/24/13 1:43 PM