Milli mála - 01.01.2012, Síða 394
394
KRÓNIKUR DAGS OG NÆTUR
*
Ég tek hana, faðma hana að mér en finn ekkert.
Við „elskumst“ en ég finn ekkert.
Ég er hérna, stari á vegginn og ég hugsa um allt sem ég þarf að gera
eins og eldabuska fyrir framan pottana.
Ég sest á rúmið.
Hún horfir á brauðmylsnu á teppinu.
*
Það er ekki höggið sem meiðir heldur að hafa ekki séð það fyrir, vera
ekki undirbúin.
Því slær eins og eldingu niður í hausinn, það kemur í myrkrinu og
fæturnir svíkja þig, þú ert eins og nýfætt folald sem er að reyna að
labba í fyrsta skipti, skilurðu. Þú ert eins og bómull og þú hrynur
niður, án þess að vita hvað er að gerast og hvað hefur gerst, þú
þreifar þig áfram, skríður út í horn, þú leitar að einhverjum, að
einhverju til að grípa í, fæti, ég veit ekki, einhverju og þú bíður
eftir að einhver komi og hjálpi þér, að standa upp, hjálpi þér að
standa upp, taki þig í fangið, elski þig!
Það eru höggin sem þú hefur ekki séð fyrir sem særa mest.
*
Þetta er líka þín sök allt þetta, þú segir alltaf að ég skilji ekki neitt,
að ég taki allt svo bókstaflega. Já, en þegar þú segir mér að fara og
láta einhvern annan ríða mér, er það bókstaflega eða ekki? Að ég sjái
ekki lengra en nefið á mér.
Þú heldur að ég sé yfirborðskennd, já einmitt, að ég sé alltaf á
yfirborðinu, eins og lítið fiðrildi sem flögrar í kringum þig, eða tík,
eins og þú segir alltaf, hvað ert þú að gera þarna eins og tík að þefa
af rassgatinu á mér! Er það bókstaflega eða hvað?
Þessi gaur, ef ég hef snert hann þá var það bara til að gleyma þér í
smástund, til að hrekja þig burt úr hausnum á mér, því að þú settir
allt á hvolf, snerir öllu við. Þú hefur engan rétt á því að vera hérna,
hálfsofandi milli stríða, þú þarft að hverfa, ég vil gleyma þér í
smástund. Farðu, bara á meðan ég er að pissa. Gefðu mér smá tíma.
Ég ætla að eyða þessu, öllum þessum svörtu hugsunum sem krauma
hérna inni. Ég rétt kom við hann, veistu, ég varla horfði á hann, ég
tók hann bara eins og pillu, eins og pillu til að gleyma þér.
Milli_mála_4A_tbl_lagf_13.03.2013.indd 394 6/24/13 1:43 PM