Morgunblaðið - 26.02.2013, Blaðsíða 23
23
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 26. FEBRÚAR 2013
Kynjamyndir Ýmis furðuleg fyrirbæri eiga það til að birtast og hverfa á glerhjúpnum utan um
Hörpu sem endurspeglar borgarlífið og mismunandi birtu sem breytist eftir sólargangi og veðri.
Ómar
Gríðarlegar framfarir hafa orð-
ið í meðferð hjartasjúkdóma á
undanförnum tveimur áratugum.
Þessar framfarir hafa ekki síst
átt sér stað í inngripum sem unnt
er að gera á kransæðum og svo
leiðslukerfi hjartans með þræð-
ingatækni. Þar ber kannski hæst
möguleika á víkkun krans-
æðaþrengsla og svo ísetningu á
stoðneti á þrengslasvæðinu. Í
fyrstu var aðallega ráðist til at-
lögu við einfaldari þrengsli en
með betri tækni hefur orðið mögulegt að gera
við útbreiddari og flóknari þrengsli með góð-
um árangri. Kransæðavíkkun með ísetningu
stoðnets er nú beitt til jafns hjá innkölluðum
sjúklingum af biðlista og þeim sem koma inn
með bráðan kransæðasjúkdóm. Brennsluað-
gerðir vegna hjartsláttartruflana eru sömu-
leiðis framkvæmdar með hjartaþræð-
ingatækni og hafa gjörbreytt meðferðinni
þegar um er að ræða aukaleiðslubönd í hjarta.
Brennsluaðgerðum er nú beitt í vaxandi mæli
við flóknari takttruflanir.
Hjartaþræðingar hérlendis eru eingöngu
gerðar á Landspítala. Við bráða krans-
æðastíflu er kransæðaþræðingu með víkkun á
lokuðu æðinni nú beitt sem fyrstu meðferð.
Kransæðavíkkun undir þessum kring-
umstæðum skilar betri árangri en meðferð
með segaleysandi lyfjum, sem var áður notuð.
Sú nálgun að beita bráðri kransæðavíkkun
undir þessum kringumstæðum
var fest í sessi seinni hluta árs
2003 þegar sólarhringsvakt var
tekin upp á hjartaþræðingastofu.
Nú er haldið úti vakt á hjarta-
þræðingastofu alla daga, allan
ársins hring. Samhliða þessum
breytingum var ráðist í endur-
skoðun ýmissa annarra þátta í
verklagi við móttöku ein-
staklinga með bráðan krans-
æðasjúkdóm. Þetta hefur meðal
annars leitt til lækkunar á 30
daga dánartíðni eftir krans-
æðastíflu úr rúmlega 11% um
aldamótin í 4-5% á síðustu 2-3 árum. Þessi 30
daga dánartíðni er nú með því lægsta sem
þekkist á heimsvísu.
Starfsemin á hjartaþræðingastofu Land-
spítala er mjög umfangsmikil. Alla jafna er
unnið samtímis á þremur stofum. Hjartaþræð-
ingar á kransæðum fara fram á tveimur stof-
um en aðgerðir vegna hjartsláttartruflana á
þeirri þriðju. Á síðasta ári voru framkvæmdar
1.765 hjartaþræðingar á Landspítala og þar af
voru gerðar 630 kransæðavíkkanir. Þar að
auki eru gerðar rúmlega 300 gangráðsaðgerðir
og rúmlega hundrað brennsluaðgerðir vegna
hjartsláttartruflana árlega á þræðingastof-
unni. Á síðastliðnu ári var tekin upp merkileg
nýjung, sem er ísetning á ósæðarloku með
þræðingatækni. Alls 15 slíkar aðgerðir hafa
verið framkvæmdar til þessa með góðum ár-
angri.
Nú er einnig farið að gera brennsluaðgerðir
vegna flóknari takttruflana en áður, meðal
annars vegna gáttatifs. Slíkar aðgerðir krefj-
ast mjög sérhæfðs tölvubúnaðar til kortlagn-
ingar á upptökum takttruflunarinnar og að-
stoðar við ákvörðun um brennslustaði í vinstri
gáttinni. Það er gríðarlega mikilvægt fyrir
okkur að reyna að fylgja þróuninni í tækni-
framförum hvað þetta varðar en fjöldi tilfella
gáttatifs fer vaxandi og getur verið mjög erfitt
á köflum að meðhöndla það vandamál með
lyfjameðferð eingöngu.
Aðstaðan á hjartaþræðingastofunum er að
mörgu leyti góð en þræðingatækin eru orðin
gömul og mjög brýnt að endurnýja að minnsta
kosti eitt tækjanna. Elsta tækið er orðið 16 ára
gamalt og komið langt fram yfir það sem getur
talist eðlilegur endingartími. Því hefur reynd-
ar verið mjög vel við haldið en það er orðið
gríðarlega aðkallandi að fá nýtt tæki. Annað
tæki er orðið 12 ára gamalt og þarf að end-
urnýja það á allra næstu árum. Nýjasta tækið
var tekið í notkun fyrir fjórum árum og er í
mjög góðu standi en af ofansögðu má þó vera
ljóst að mikið álag er á hjartaþræðingatækj-
unum. Það er nauðsynlegt fyrir starfsemi
hjartalækninga á sjúkrahúsinu að öll tækin
séu hæf til notkunar. Því eldri sem tækin eru
því lakari verða myndgæði og viðhaldsdagar
fleiri. Það er eitt af allra brýnustu verkefnum
Landspítala í tækjakaupamálum að fá nýtt
hjartaþræðingatæki. Slíkt tæki er þó frekar
dýrt og kostar um 150 milljónir króna. Eins og
flestum er kunnugt hefur fé til tækjakaupa á
sjúkrahúsinu verið af mjög skornum skammti
og oftar en ekki höfum við þurft að reiða okkur
á gjafafé þegar kaupa á ný eða endurnýja þarf
mikilvæg tæki. Stuðningur einkasjóða, eins og
sjóðs Jónínu heitinnar Gísladóttur, og sjúk-
lingasamtaka, eins og Hjartaheilla, hefur verið
okkur ómetanlegur í þessu tilliti.
Inngrip með þræðingatækni eru hornsteinn
í meðferð bæði kransæðasjúkdóma og hjart-
sláttartruflana. Undanfarin ár hafa verið mjög
örar tækniframfarir í bæði kransæðaþræð-
ingum og brennsluaðgerðum. Þessar framfarir
auðvelda framkvæmd aðgerðanna, bæta ár-
angur og auka öryggi þeirra. Mikill nið-
urskurður í heilbrigðiskerfinu hérlendis hefur
gert okkur mjög erfitt fyrir með að fylgja
þessum framförum. Það er hins vegar mik-
ilvægt fyrir okkur að dragast ekki aftur úr
hvað þetta varðar. Íslendingar gera kröfur um
að hér sé heilbrigðisþjónusta í fremstu röð. Til
að svo megi vera þarf aðstaðan að vera í sam-
ræmi við þær væntingar.
Meðferð hjartasjúkdóma með þræðingatækni
Eftir Davíð O. Arnar
Davíð O. Arnar
» Aðstaðan á hjartaþræð-
ingastofunum er að
mörgu leyti góð en þræð-
ingatækin eru orðin gömul
og mjög brýnt að end-
urnýja að minnsta kosti
eitt tækjanna.
Höfundur er yfirlæknir hjartaþræðinga á
Landspítala.
Landsfundir Sjálfstæðisflokksins
hafa í áratugi verið í senn magn-
þrungnar og spennandi en umfram
allt hvetjandi samkomur. Þeir hafa
ekki einungis verið hvetjandi fyrir
þátttakendur landsfundanna, heldur
einnig fyrir þá tugi þúsunda lands-
manna sem tilheyra Sjálfstæð-
isflokknum úti um allt land.
Nú um helgina lauk 41. landsfundi
Sjálfstæðisflokksins sem líklega er
einn mikilvægasti landsfundur
flokksins í áraraðir. Nýafstaðinn
landsfundur er ekki bara mikil-
vægur vegna þeirra mikilvægu kosninga sem
framundan eru, heldur vegna þeirra málefna
sem um var fjallað og þeirrar stefnu sem flokk-
urinn mótaði með svo skýrum hætti.
Landsfundurinn samþykkti að ráðast þegar í
stað að vanda íslenskra heimila með skulda- og
skattalækkunum til hagsbóta fyrir heimilin í
landinu. Ekkert er mikilvægara um þessar
mundir. Samhliða þessu liggur fyrir skýr stefna
flokksins um að auka verðmætasköpun í at-
vinnulífinu, sem um leið bætir hag heimilanna
og almennings í landinu. Allt helst þetta í hend-
ur við ábyrgð í ríkisfjármálum og markvisst, og
um leið öflugt, velferðarkerfi fyrir alla þá sem á
því þurfa að halda.
Öflug fjöldahreyfing
Nýleg prófkjör Sjálfstæðisflokksins og nýaf-
staðinn landsfundur bera það með sér að Sjálf-
stæðisflokkurinn er ekki bara stærsti og öfl-
ugasti flokkur landsins, heldur um leið helsti
lýðræðisflokkur landsins. Um 20 þúsund manns
tóku þátt í prófkjörum flokksins um allt land,
hátt í tvö þúsund manns sóttu nýafstaðinn lands-
fund en auk þess koma þúsundir landsmanna að
starfi flokksins vítt og breitt um landið. Lands-
fundur Sjálfstæðisflokksins er ein stærsta og
umfangsmesta ráðstefna sem fram fer hér á
landi en í ár teygði starfsemi landsfundarins
anga sína til 15 ólíkra staða í Reykjavík.
Í þessu liggur styrkur flokksins. Þúsundir
ólíkra einstaklinga, karla og kvenna með ólík
sjónarmið og ólíkar áherslur starfa saman undir
merkjum flokksins og sameinast um gildi sjálf-
stæðisstefnunnar með frelsi einstaklingsins,
lægri skatta, velferð á heilbrigðum forsendum,
takmörkuð ríkisafskipti og öflugt atvinnulíf að
leiðarljósi. Flokkurinn og flokksstarfið er opið
öllum einstaklingum.
Styrkur í umræðunni
Það er ekkert launungarmál að oft er hart
tekist á þegar rætt er um einstök málefni á
landsfundi Sjálfstæðisflokksins, hvort sem er í
málefnanefndum eða í aðalsal fundarins. Hið
sama gildir um málefnastarf
flokksins sem fram fer um allt
land allt árið um kring.
Það er einmitt það sem gerir
flokkinn jafn öflugan sem raun
ber vitni. Öllum er hollt að ræða
ólík sjónarmið á opinn og mál-
efnalegan hátt og ná niðurstöðu.
Það göfgar hugann, styrkir um-
ræðuna, eykur hugmyndaflugið
og skilar að lokum betri árangri
og niðurstöðu en ella. Engin
stjórnmálastefna er sterkari en
sú sem raungerist eftir málefna-
legar og innihaldsríkar umræð-
ur um markmið og áherslur þar
sem ólíkum sjónarmiðum er varpað fram, þau
skilgreind og rædd. Ekkert eflir stjórn-
málaflokk meira en það þegar stór hópur, konur
og karlmenn, sameinast um ákveðna niðurstöðu
í vissu um að sú stefna sé þjóðinni til hagsbóta. Í
því kristallast enn og aftur styrkur Sjálfstæð-
isflokksins umfram aðra flokka þar sem ákvarð-
anir og stefnur eru oftar en ekki mótaðar í
þröngum og lokuðum hópum og allt tal um auk-
ið lýðræði og opnara samfélag felst aðeins í orði
en ekki á borði.
Konur hljóta sterkt umboð
Forysta Sjálfstæðisflokksins, Bjarni Bene-
diktsson, Hanna Birna Kristjánsdóttir og Krist-
ján þór Júlíusson, hlutu öll afgerandi kosningu í
forystusveit flokksins. Landsfundurinn sýndi
ekki síður hversu mikils Sjálfstæðisflokkurinn
metur hlut kvenna í stjórnmálum. Þannig voru
konur kjörnar formenn í sjö af átta mál-
efnanefndum flokksins og í fimm af nefndunum
voru konur í meirihluta. Alls voru 23 konur og
17 karlar kjörin í málefnanefndir flokksins um
helgina. Það verður því ekki annað sagt en að
landsfundargestir hafi haldið konudaginn hátíð-
legan. Staðreyndin er sú að fylgi Sjálfstæðis-
flokksins fer vaxandi á meðal kvenna, enda hef-
ur hlutur þeirra í þátttöku og starfi flokksins
aukist dag frá degi allt þetta kjörtímabil. Það
hefur verið og verður enn til þess að auka styrk-
leika flokksins á öllum sviðum og auka enn á
sigurlíkur hans í komandi kosningum.
Landsfundur – upphaf
nýrra tíma
Eftir Jónmund Guðmarsson
Jónmundur
Guðmarsson
» Landsfundurinn samþykkti
með afgerandi hætti að
ráðast að vanda íslenskra
heimila með skulda- og skatta-
lækkunum til hagsbóta fyrir
heimilin í landinu.
Höfundur er framkvæmdastjóri
Sjálfstæðisflokksins.