Morgunblaðið - 26.02.2013, Blaðsíða 27
MINNINGAR 27
MORGUNBLAÐIÐ ÞRIÐJUDAGUR 26. FEBRÚAR 2013
gaman af boltaleikjunum, hvort
sem það var vatnssápuboltinn,
eða nýju risastóru grasboltarnir
sem börnin gátu farið inn í og
keppt í boltahlaupi á grasvell-
inum í Stykkishólmi. Hann var
góður liðsmaður og hafði góða
nærveru. Hann hafði sérstaka
og skemmtilega kímnigáfu og
það var aldrei logn í kringum
hann. Hjálpsemin og orkan,
meðan hún var enn til staðar,
gerði allt samstarf svo frábært.
Hópurinn okkar sér nú á eftir
góðum vini og við biðjum góðan
Guð að styrkja og blessa Jónu
og börnin þeirra.
Hafliði Kristinsson og
samfélagshópurinn.
Kæri vinur, það er erfitt að
skilja þann kalda veruleika að
komið sé að kveðjustund. Ég
var svo heppinn að leiðir okkar
lágu saman í Knattspyrnudeild
Fjölnis. Það var þegar þú tókst
að þér þjálfun 3. flokks karla
árið 2001. Þar sameinuðust í
þjálfun og getu leikmanna slíkir
eiginleikar, kraftur og sigurvilji
að seint verður náð að jafna.
Þér tókst sem þjálfara drengj-
anna í árgangi 1985 og 1986 að
stýra þeim til sigurs í öllum
mótum sem flokkurinn tók þátt
í á því ári. Í kjölfar þess leiddir
þú meistaraflokk félagsins úr
þriðju deild upp í fyrstu deild,
með þínum mikla sannfæring-
arkrafti og sigurvilja. Þú varst
miðdepillinn í öllu því starfi sem
þurfti að vinna á þessum árum
og var með ólíkindum atorkan
og árangurinn sem þú náðir
fram. Þú varst einnig alltaf
fyrstur til að rétta hjálparhönd
ef svo bar undir.
Alltaf var stutt í glensið og
skemmtilegheitin og þegar
maður hugsar til baka til þess-
ara ára í upphafi aldarinnar
hlýnar manni um hjartarætur.
Sú minning á eftir að fylgja
mér og gleðja um ókomin ár.
Ég veit ég tala fyrir hönd allra
strákanna sem þú kenndir svo
mikið, um mikilvægi markmiðs-
setningar, mataræðis og þess að
vinna ötullega að því að ná ár-
angri. Takk Steinar fyrir það
sem þú gaftst okkur.
Kæra Jóna og fjölskylda,
Guð gefi ykkur styrk á þessum
erfiðu tímum.
Hvíl í friði kæri vinur.
Guðmundur Stefán.
Það voru þungbærar fréttir
sem bárust okkur Fjölnismönn-
um fyrir viku þess efnis að kær
vinur okkar og Fjölnismaður
ársins 2012 Steinar Ingimund-
arson væri fallinn frá langt um
aldur fram eftir baráttu við erf-
ið veikindi. Steinar hóf knatt-
spyrnuferil sinn hjá Leikni í
Reykjavík og lék síðan með KR,
Leiftri, Fjölni, Þrótti og Víði
alls staðar var orðspor hans frá-
bært. Steinar átti mörg frábær
ár bæði sem leikmaður og þjálf-
ari hjá okkur í Fjölni. Steinar
lék með meistaraflokki á ár-
unum 1999-2002 ásamt því að
þjálfa þriðja og annan flokk
karla.
Sem þjálfari átti Steinar
stóran þátt í að byggja upp
yngri fokka starfið og gerði
meðal annars þriðja flokk
Fjölnis að Íslands- og bikar-
meisturum árið 2001. Steinar
steig mikilvæg skref í að inn-
leiða þá stefnu sem unnið hefur
verið eftir hjá knattspyrnu-
deildinni að byggja lið meist-
araflokks að mestu leyti upp á
uppöldum Fjölnismönnum.
Steinar lauk þjálfarastörfum
sínum hjá Fjölni þegar hann
þjálfaði meistaraflokk karla á
árunum 2002-2005 þar vann
hann virkilega gott starf og
kom liðinu úr þriðju deild í þá
fyrstu á aðeins þremur árum.
Þó að Steinar hafi formlega
hætt störfum hjá Fjölni 2005
hafði hann alltaf miklar taugar
til okkar Fjölnismanna og kom
að starfinu hjá félaginu með
margvíslegum hætti allt fram á
síðustu stundu. Þrátt fyrir að
standa í harðri baráttu við ill-
vígan sjúkdóm hélt Steinar
áfram að gefa sér tíma til að
leggja okkur lið bæði með að-
stoð í fjáröflunarverkefnum og
koma fram með góðar hug-
myndir um hvernig halda mætti
áfram að bæta starfið. Æðru-
leysi Steinars í þessari baráttu
var með ólíkindum og ég mun
seint gleyma fundinum sem ég
átti með honum í desember þar
sem við ræddum að hans frum-
kvæði ýmislegt varðandi Fjölni
yfir kaffibolla. Þar fór maður
sem þótti vænt um félagið og
ætlaði sér að leggja sitt af
mörkum svo lengi sem hann
gæti. Þrátt fyrir allan baráttu-
viljann og jákvæðnina reyndist
sá tími svo miklu miklu
skemmri en maður vonaði að
Guð gæfi.
Það er með miklum söknuði
sem við kveðjum góðan dreng
og frábæran félaga.
Fjölskyldu og vinum Steinars
sendum við okkar innilegustu
samúðarkveðjur. Megi Guð gefa
ykkur styrk til að takast á við
sorgina og söknuðinn.
F.h. allra hjá knattspyrnu-
deild
Fjölnis,
Kristján Einarsson
formaður.
Ég held að ég sé að verða
Keflvíkingur, sagði Steinar
stundum við mig á þeim tíma
sem hann var að þjálfa hjá okk-
ur Keflvíkingum. Hann hafði
tekið að sér þjálfun meistara-
flokks kvenna og það var mikill
hugur í honum. Hann small inn
í umgjörð okkar eins og inn-
fæddur og ég veit það að honum
líkaði vel í Keflavík. Ég átti
mjög gott samstarf við hann og
þekkti hann frá gamalli tíð eða
þegar hann var í bílasölubrans-
anum og við vorum alla tíð mikl-
ir mátar. Það er mér minnis-
stætt þegar hann kom í
heimsókn til mín sumarið 2011
og tilkynnti mér það að hann
væri kominn með illvígan sjúk-
dóm, hann bar sig vel eins og
alltaf og var staðráðinn í að
sigra hann.
Þó Steinar hafi hætt þjálfun í
Keflavík vorum við alltaf í sam-
bandi og þótti mér vænt um það
og þá sérstaklega hve vel hann
talaði um okkur hér suður með
sjó, hann talaði af einlægni og
þar fór maður sem mikill missir
er að.
Ég vil fyrir hönd knatt-
spyrnudeildar Keflavíkur votta
öllum aðstandendum og vinum
okkar dýpstu samúð.
Minningin um góðan dreng
lifir með okkur.
Þorsteinn Magnússon,
formaður knattspyrnu-
deildar Keflavíkur.
Elsku frændi, það er svo
rosalega sárt að þurfa að kveðja
þig svona snemma, svo ungan
og í blóma lífsins. Þegar við
hugsum um minninguna um þig
er hún alltaf svo björt, það var
alltaf gleði í kringum því og
maður komst ekki hjá því að
brosa þegar þú varst nálægt því
alltaf sástu til þess að öllum
væri skemmt. Þú varst alltaf
svo glaður og kátur og vildir öll-
um vel. Minnist þess líka þegar
við heimsóttum þig um jólin
þegar þú varst orðinn mikið
veikur en samt var húmorinn til
staðar og þú gast brosað og
fengið okkur öll til að brosa því
alltaf varstu svo jákvæður og
sterkur. Þú sýndir svo mikinn
styrk í öllum veikindum þínum
og þessum erfiðu lyfjagjöfum,
það var ekki þér líkt að gefast
upp.
Elsku frændi það líður ekki
dagur án þess að við hugsum til
þín. Minning þín er ljós í lífi
okkar.
Hvíldu í friði.
Halldóra og Hákon.
Andlátsfregn barst í gær, lát-
inn flugumferðarstjóri Kristinn
Sigurðsson og minningar hrann-
ast upp. Strákurinn úr Keflavík
sem ég hitti fyrir langalöngu
þegar fjölskylda mín dvaldi í
Keflavík tvö sumur, ég þá 10 og
11 ára. Þannig var að Guðrún,
mamma Kidda eins og hann var
kallaður, var hörkudugleg kona,
ekkja, sem vann hjá pabba mín-
um við fiskverkun og söltunar-
störf. Hún var duglegasta konan
í þeim hópi. Synir Guðrúnar
Kristinn og Jóhann menntuðust
báðir. Kristinn varð stúdent frá
Menntaskólanum á Akureyri áð-
ur en hann hóf nám í flugum-
ferðarstjórn sem varð hans ævi-
starf.
En kynni okkar Kristins voru
algjör tilviljun. Þannig var mál
með vexti að ég hafði innritað
mig í nám í dönsku við Háskóla
Íslands og átti að hefja námið í
Árnagarði. Ég fór þangað en
fann bara alls ekki rétt stofu-
númer. Skrifstofa Háskólans var
lokuð og engan hægt að spyrja
svo ég var bara að guggna á
þessu og á leið út en mætti þá al-
veg óvænt Kristni sem kvaðst
líka vera að fara í nám í dönsku
og þar með var það tryggt. Stof-
an sem um var að ræða var inn
af kaffistofu á jarðhæð svo ekki
var von að ég fyndi hana. Við átt-
um að mæta í tíma hjá Grethe
Benediktsson og þar hófust
kynni okkar Kristins. Í hópnum
voru líka Guðbjörg, Halla, Þór-
gunnur og strákarnir Valdemar,
Einar og Karl auk Kristins.
Þarna hófst alveg frábær tími.
Kennslan fór mest fram í skrif-
stofu lektors í dönsku í Norræna
húsinu og þar varð samastaður
okkar dönskunema næstu þrjú
árin. Pétur Rasmussen og Pia
Andreasen voru frábærir kenn-
arar hvort á sinn hátt. Ég held
að Kristinn og persónuleiki hans
hafi átt drjúgan þátt í hvað sam-
kenndin var sterk hjá okkur.
Það var töluvert átak að hefja
háskólanám eftir alllangt hlé eft-
ir stúdentspróf. En þessir ágætu
kennarar sáu vel um námið og
auk þess stuðluðu þau bæði að
félagslega þættinum. Sannar-
lega minnisstæð eru fyrstu jólin.
Þá skipulagði Pia mikla jóla-
veislu og skipti niður verkefn-
um. Strákarnir voru sendir nið-
ur að höfn til að ná í
grenigreinar því jólatrén voru
að koma til landsins. Svo var
sest við að teikna og klippa jóla-
poka og músastiga, allt á góðan
danskan máta og skreyta kaffi-
stofu Norræna hússins sem
best. Kristinn fékk alveg sér-
stakt verkefni. Kona hans var af
dönskum ættum og átti rétta
pönnu og hann kunni sko að
baka æbleskiver. Það tókst ald-
eilis vel og var lengi í minnum
haft.
En allir góðir dagar taka
enda. Eftir BA-próf í dönsku
dreifðumst við í námi en sérstak-
lega Guðbjörg, Halla og ég höf-
um haldið tryggu sambandi til
þessa dags.
Mínar bestu þakkir fyrir sam-
verustundir í dönskunáminu. Ég
sendi sonum Kristins og fjöl-
skyldunni allri innilegustu sam-
úðarkveðjur.
Sigrún
Magnúsdóttir.
Kristinn
Sigurðsson
✝ Kristinn Jó-hann Sigurðs-
son fæddist í
Keflavík 22. júlí
1928. Hann and-
aðist 9. febrúar
2013 á Hrafnistu,
Boðaþingi.
Kristinn var
jarðsunginn frá
Hafnarfjarð-
arkirkju 25. febr-
úar 2013.
Bláir eru dalir þínir
byggð mín í norðrinu
heiður er þinn
vorhiminn
hljóðar eru nætur
þínar
létt falla öldurnar
að innskerjum
– hvít eru tröf þeirra.
(Hannes Pétursson.)
Þessar fallegu
ljóðlínur komu ein-
hvern veginn upp í hugann þeg-
ar fregnin um að enn einn úr
kærleikshópnum okkar „Sprot-
anum“, hann Kiddi hefði kvatt
jarðlífið eftir langvarandi veik-
indi. Langri ævi er lokið, og
hljóðlega ævisólin hnigin til við-
ar.
Við kynntumst fyrir hálfum
öðrum áratug, hjónahópur sem, í
kjölfar samveru á lúterskri
hjónahelgi til þess að efla okkur
og styrkja í dagsins önn, mynd-
aði kærleikshópinn okkar
„Sprotann“. Hópurinn okkar
hefur gefið okkur svo óendan-
lega mikið og skapað innilega
vináttu en jafnframt verið mjög
krefjandi og tekið ríkulega sinn
toll. Strax í upphafi mynduðust
sterk vinabönd og við áttum
ótalmargar gleði- og samveru-
stundir sem auðgað hafa lífið og
gefið því nýjan blæ. Það varð þó
fljótt ljóst að okkar beið annað
hlutverk. Áföllin dundu yfir og
mikilvægi sannrar vináttu og
kærleika varð okkar vörn. Á
þeim stundum komu eiginleikar
Kidda í mannlegum samskiptum
vel í ljós. Tryggur, einlægur og
glaðvær, alltaf tilbúinn að leggja
gott til og miðla af sinni miklu
reynslu og alltaf gefandi með
fasi sínu og framgöngu.
Sem barn að aldri varð hann
fyrir þungbærri lífsreynslu sem
mótaði hug hans og lífsskoðun
alla tíð og margt þurfti að reyna
og yfirstíga erfiðleika sem flest-
um hefðu reynst þungbærir.
Hann var alla tíð virkur þátttak-
andi í samfélagi sínu bæði á fag-
legum og félagslegum vettvangi
og mætti verkefnum sínum af
raunsæi og æðruleysi í hvívetna.
Hann var og gæfumaður og við
hlið hans stóð lífsförunautur í
blíðu og stríðu. Í hópnum okkar
var það einnig raunin og þau
Kiddi og Edda gátu af eigin
hamingju glætt samveru okkar
lífi og gleði þó að stundum væru
þungbærar stundir. Þó að aldur
færðist yfir var ekkert sem benti
til breytinga en á því varð
skyndileg breyting. Í fagnaði
með vinum og samferðamönnum
fyrir um þrem árum kom ný
áskorun, áfall sem síðar reyndist
þungt að lifa með. Skyndilega er
allt með öðrum hætti og löng og
erfið ganga tók við. Nú er lífsljós
hans slokknað og bjarmar af
nýjum degi hins eilífa lífs. Merl-
ar í huga og sinni minningin um
yndislegan félaga og traustan
vin.
Á kveðjustund minnumst við
gengins vinar og biðjum algóðan
Guð að veita fjölskyldu hans og
sérstaklega henni Eddu styrk og
huggun á sorgarstund. Blessuð
sé minning Kristins Sigurðsson-
ar.
Magnús og Steinunn,
Jóhann og Ragnhildur,
Eyjólfur og Ingveldur.
Merki Hafnarfjarðarkirkju
sýnir hring í rauðbrúnum lit sem
keltneskur göngukross er innan
í. Hringurinn minnir á oblátu,
helgað brauð, sem neytt er við
kærleiksmáltíð þegar því hefur
verið dýft í blóðrautt messuvín.
Merkiskrossinn er eftirmynd af
göngukrossi kirkjunnar er smíð-
aður var áður en bygging
Strandbergs, safnaðarheimilis
hennar, hófst. Kristinn Sigurðs-
son var lengi aðalsafnaðar-
fulltrúi og ritari Hafnarfjarðar-
kirkju og líka kross- og
merkisberi hennar frá því að
heimilið var að fullu tekið í notk-
un með blessun Hásala þess
haustið 1998. Hann tók þátt í
byggingaráformum og fylgdist
vel með framvindunni og hafði
áhrif á hana. Er biskup Íslands
vísiteraði söfnuð kirkjunnar var
ánægjulegt að sýna honum upp-
slátt og útlínur heimilisins.
Kristinn var í móttökunefnd
kirkjunnar, hafði auga með því
sem fram fór og tók ljósmyndir.
Hann gerði það líka á stefnumóti
trúar og listar er haldið var á
héraðsfundi í sókninni og fagn-
aði skömmu síðar vígslu Stafns,
kapellu heimilisins, og fyrri
áfanga þess.
Þau Kristinn og Edda, eigin-
kona hans góða, sóttu kirkjuna
sína og nærðust af helgu orði og
sakramentum. Samstiga og
glæst að sjá voru þau í farar-
broddi í safnaðarferðum, út í
Viðey, á Suðurnes, Akranes og
til Reykholts og líka í Svíþjóð.
Þau létu sig einnig varða Krýsu-
víkurkirkju og sóttu þar vor- og
haustmessur er helgihald hófst
þar á ný fyrir árþúsundamótin.
Þau hryggðust er hún varð eldi
að bráð en fögnuðu því að unnið
var að endurreist hennar.
Kristinn var lífsreyndur og
víðsýnn og hafði miklu að miðla.
Hann lét ekki missi og raunir yf-
irbuga sig en horfði fram í von
og trú. Barnungur komst hann
úr mannskæðum bruna á jóla-
trésskemmtun í samkunduhús-
inu Skildi í Keflavík. Guðstrú
hans hefur þá glæðst og varð
leiðarljós hans í blíðu og stríðu.
Hildarleikur heimsstríðs setti
mark sitt á Keflavík með flug-
vellinum á Miðnesheiði. Kristinn
hefur fylgst með orrustu- og far-
þegavélum sem lentu þar og
tóku á loft og vísuðu til þess að
Ísland var tengdara heimsvið-
burðum og umheimi en verið
hafði. Það kann að hafa vakið
áhuga hans fyrir flugi og leitt til
þess að hann varð farsæll og
mikilsvirtur flugumferðarstjóri.
Kristinn var framsýnn, árvökull
og umhyggjusamur. Þess naut
Hafnarfjarðarkirkja er hann
gerðist einn máttarstólpa henn-
ar.
Við Þórhildur þökkum vináttu
hans og stuðning og dýrmætt
framlag til kirkjunnar. Þótt
Kristinn missti heilsu og mál síð-
ustu æviárin var svipur hans
fagur sem fyrr og lýsti trú hans
og innri styrk. Hann gladdist
mjög yfir heimsóknum og það
uppörvaði hann að heyra góð tíð-
indi af kirkjunum sínum. „Jafn-
vel þótt vor ytri maður hrörni,
þá endurnýjast dag frá degi vor
innri maður“ (2 Kor. 4.16) játar
trúin í nafni hins krossfesta og
upprisna frelsara. Kross hans er
sigurmerki lífsins, sem dýrmætt
er að halda á lofti því að hann op-
inberar þá fórnandi elsku er
endurskapar líf og heim. Guð
blessi minningu Kristins og full-
komni líf hans í upprisu- og
páskaljóma og lýsi eiginkonu,
börnum og ástvinum hans veg-
inn fram í Jesú nafni.
Gunnþór Ingason.
…
En handan við fjöllin
og handan við áttirnar og nóttina
rís turn ljóssins
þar sem tíminn sefur
Inn í frið hans og draum
er ferðinni heitið.
(Snorri Hjartarson)
Fallinn er frá Kristinn Jó-
hann Sigurðsson flugumferðar-
stjóri, bekkjarbróðir okkar úr
Menntaskólanum á Akureyri.
Lífshlaupi hans er lokið, land
tekið handan við áttirnar og
nóttina. Hann hafði átt við erfið
veikindi að stríða í nokkur ár.
Þótt við vitum að lífsganga okk-
ar tekur alltaf enda verður sú
stund högg sem snertir okkur og
vekur söknuð og eftirsjá. Eftir
standa minningarnar sem ylja
okkur áfram og þær sem tengj-
ast Kidda, eins og hann var allt-
af kallaður, eru einstaklega ljúf-
ar. Hann var prúður,
drenglyndur og traustur, glett-
inn og glaðvær og sá hið skop-
lega við tilveruna.
Við bekkjarsystkinin kynnt-
umst Kidda fyrir rúmum 60 ár-
um er leiðir okkar lágu saman í
MA þar sem við áttum góðar
stundir í námi og leik og útskrif-
uðumst 1951. Gleði og eftirvænt-
ing æskunnar bundu okkur
sterkum vináttuböndum sem
hafa varað öll þessi ár og þar í
átti Kiddi ríkan þátt. Hann varð
strax sterkur hlekkur í bekkj-
arkeðjunni og hefur hlúð að
samkenndinni meðal okkar.
Við minnumst Kidda sem
glæsilegs ungs manns sem vakti
athygli. Bar merki lífsreynslu og
einnig umhverfisins á Suður-
nesjum. Dökkur á brún og brá
og bar sig vel, með áberandi ör á
höndum og höfði. Hann var einn
þeirra sem barn að aldri lentu í
eldsvoðanum í samkomuhúsinu í
Keflavík árið 1934 og bar þess
merki alla tíð. Þrátt fyrir þessar
takmarkanir reyndist hann
mjög liðtækur í markinu í hand-
knattleik. Hann auðgaði sönglíf-
ið, söng m.a. í kvartett með
þremur bekkjarfélögum okkar.
Hann tók talsvert af ljósmynd-
um og stuðlaði þannig að varð-
veislu heimilda og minninga um
skólalífið. Enskumaður var hann
ágætur.
Þegar góður vinur kveður
verður manni ætíð þungt fyrir
brjósti en hvað Kidda varðar
kom dauðinn nánast í réttu sam-
hengi við lasleika hans síðastlið-
in þrjú ár. Í veikindum hans var
Edda, konan hans, vakin og sof-
in yfir honum, gerði allt sem í
hennar valdi stóð til að létta hon-
um lífið. Við minnumst góðs fé-
laga og sendum Eddu og fjöl-
skyldunni samúðarkveðjur.
F.h. MA-stúdenta 1951,
Hólmfríður,
Ingólfur og Ólöf.
Kveðja frá
flugleiðsögusviði Isavia
Kristinn hóf grunnnám í flug-
umferðarstjórn árið 1954. Á ferli
sínum öðlaðist hann réttindi til
starfa í flugturni og aðflugs-
stjórn á Keflavíkurflugvelli, þar
sem hann starfaði fyrst sem
flugumferðarstjóri til ársins
1958 og síðan sem vaktstjóri til
ársins 1991 er hann lét af störf-
um af heilsufarsástæðum.
Að leiðarlokum vil ég fyrir
hönd starfsmanna flugleiðsögu-
sviðs Isavia þakka Kristni sam-
fylgdina. Fjölskyldu og vinum
vottum við okkar dýpstu samúð.
Ásgeir Pálsson
framkvæmdastjóri.
Önnumst alla þætti útfararinnar
ÚTFARARSTOFA
KIRKJUGARÐANNA
Vesturhlíð 2 • Fossvogi • Sími 551 1266 • www.utfor.is
Þegar andlát ber að höndum
REYNSLA • UMHYGGJA • TRAUST