Morgunblaðið - 20.09.2013, Page 48
48 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 20. SEPTEMBER 2013
Bjart er yfir sölum Kjarvals-staða þessa dagana en þarhefur í sumar verið tilsýnis úrval málverka og
höggmynda frá fyrstu áratugum ís-
lenskrar nútímamyndlistar. Yfir-
skrift sýningarinnar er „Íslensk
myndlist 1900-1950: Frá landslagi til
abstraktlistar“.
Hið fyrsta sem grípur athygli sýn-
ingargesta þegar komið er inn í vest-
ursalinn, fyrir utan myndlistar-
verkin, eru bjartir litir á veggjum:
gulir, gulgrænir, bleikir og fölbláir.
Þá eru stöplar höggmynda og vel út-
færðir strimlar (hangandi úr lofti)
með kynningartexta einnig í þessum
litum. „Bakgrunnur“ sýningarinnar
er þannig dreginn fram og látinn
örva skynjun áhorfandans auk þess
sem skipting salarins í mismunandi
„litahluta“ á sér samsvörun í tíma-
bilsskiptingu sýningarstjórans:
mildur bláminn kallast á við „róm-
antík“ og ferskur gulur litur við
„róttækni“ í verkum frá 1900-1930.
Bleikur og gulgrænn gefa tóninn
fyrir „landslag“ á árunum 1930-
1950. Þessi litaumgjörð er ekki eins
áberandi í austursalnum þar sem tvö
helstu tímabilin eru bæjar- og mann-
lífsmyndir frá árunum 1930-1950
undir yfirskriftinni „maðurinn og
umhverfi hans“, og svo „nýróttækni
og upphaf abstraktlistar“ á 5. ára-
tugnum. Þessi kaflaskipting með til-
heyrandi skýringartextum og sjón-
ræn samsvörun hennar í pastellitum
kemur skemmtilega út og gerir sýn-
inguna aðgengilega. Einhverjum
kann að finnast litavalið á veggj-
unum ögrandi en það mætti líka
segja að það sé ein leið til að minna á
óblíðar viðtökur sem mörg verkanna
fengu á sínum tíma, einmitt vegna
djarflegrar litameðferðar (og form-
túlkunar) listamannanna.
Á sýningunni eru mörg þekktustu
verk íslenskrar myndlistar frá þess-
um tíma. Þegar litið er yfir verkin í
vestursal, kemur sýningin þeim sem
flett hafa Íslenskri listasögu e.t.v.
ekki á óvart, þar sem mörg verk-
anna af sýningunni eru einnig birt í
því ritverki (ritstjórinn Ólafur Kvar-
an er jafnframt sýningarstjóri þess-
arar sýningar). Þó er óneitanlega
alltaf ánægjulegt að fá tækifæri til
að rýna í verkin sjálf (þ.e. í stað ljós-
mynda af verkunum). Þarna eru líka
ýmis forvitnileg verk, sum úr einka-
eigu, sem ekki hafa sést mikið áður á
sýningum, til dæmis mynd af konum
við þvottalaugar frá 1928 eftir Krist-
ínu Jónsdóttur og smærri útgáfa af
þekktu Heklumótífi Ásgríms Jóns-
sonar. Landslagsverk Þórarins B.
Þorlákssonar, Ásgríms, Jóns Stef-
ánssonar og Jóhannesar Kjarvals
eru á vísum stað, auk verka annarra
þekktra listamanna. Val verka varp-
ar ljósi á samræðu margra íslenskra
listamanna við evrópska strauma og
stefnur í samtímanum, hvort sem
þeir máluðu fjöll eða önnur viðfangs-
efni. Verk þeirra listamanna sem
mátuðu sig við róttækustu „ismana“
og tilheyrðu um tíma tengslaneti
evrópskrar framúrstefnu á fyrstu
áratugum 20. aldar eru sýnd í
miðjum salnum, þar sem þau gefa
tóninn fyrir róttækar áherslur í
austursalnum. Í elsta hlutanum eru
sýnd verk eftir konur sem nýlega
hafa öðlast fastan sess í hinni op-
inberu listasögu, t.a.m. höggmyndir
eftir Nínu Sæmundsson og málverk
eftir Kristínu Þorvaldsdóttur og
Kristínu Þorláksdóttur Bernhöft.
Því má velta fyrir sér hvers vegna
Karen Agnete Þórarinsson á ekki
verk á sýningunni.
Í austursalnum er einnig fjöldi
áhugaverðra verka (og ekki má
gleyma skúlptúrum í miðrými lista-
safnsins) frá tímabilinu 1930-1950. Í
salnum sést vel hvernig áhrifum frá
alþjóðlegum framúrstefnuhrær-
ingum, ekki síst expressjónisma og
kúbisma, hefur vaxið ásmegin í sam-
anburði við vestursalinn. Þarna eru
til sýnis verk listamanna er stundað
höfðu nám í evrópskum borgum á
millistríðsárunum; manna sem höfn-
uðu kröfunni um raunsæislega eft-
irlíkingu og leituðu róttækari form-
rænna leiða en áður til að túlka
umhverfi sitt. Sérstök áhersla er
lögð á verk Þorvaldar Skúlasonar,
sem vissulega var atkvæðamikill
listamaður á þessum tíma, en í saln-
um er einnig talsvert af verkum eftir
Svavar Guðnason, Sigurjón Ólafs-
son, Ásmund Sveinsson og Jón Eng-
ilberts, auk annarra góðra lista-
manna. Frásögn sýningarinnar
lýkur mitt í listrænum sprengikrafti
áratugarins þegar abstraktlistin
stígur með fullum þunga fram á
sjónarsvið íslenskrar myndlistar.
Sýningin er vel og skipulega unn-
in og framsetningin aðgengileg. Á
sýningunni eru stundum óþarflega
mörg verk eftir suma (karl)-
listamenn – ef til vill af gömlum
vana? En þótt vissulega megi deila
um vægi einstakra listamanna, þá er
úrval myndverka í stórum dráttum
prýðilegt. Í heild er sýningin „Ís-
lensk myndlist 1900-1950: Frá
landslagi til abstraktlistar“ vel til
þess fallin að kynna og vekja áhuga
á íslenskri myndlist, og veita innsýn
í helstu hræringar á þeim vettvangi
á fyrri hluta 20. aldar.
Litrík listasaga
Morgunblaðið/Rósa Björk
Aðgengileg „Sýningin er vel og skipulega unnin og framsetningin aðgengileg,“ segir m.a. í gagnrýni um sýninguna á Kjarvalsstöðum.
Listasafn Reykjavíkur –
Kjarvalsstaðir
Íslensk myndlist 1900-1950: Frá
landslagi til abstraktlistar
bbbbn
Til 22. september. Opið alla daga kl. 10-
17. Aðgangur 1.000 kr. Hópar 10+ 600
kr. Frítt fyrir börn yngri en 18 ára, eldri
borgara og öryrkja. Árskort 3.000 kr.
Sýningarstjóri: Ólafur Kvaran.
ANNA JÓA
MYNDLIST