Morgunblaðið - 26.04.2014, Side 26
26 UMRÆÐAN
MORGUNBLAÐIÐ LAUGARDAGUR 26. APRÍL 2014
Í upphafi var orð, og það orð var hjá Guði, og Guð var þaðorð. Það sama var í upphafi hjá Guði. Og allir hlutir erufyrir það gjörðir, og án þess er ekkert gjört hvað gjört er.Svo þýddi Oddur Gottskálksson upphaf Jóhannesarguð-
spjalls um logos í fjósinu í Skálholti og fékk síðan Danakonung til
að rita formála fyrir Nýja testamentinu sem kom út 12. apríl
1540. Þann dag öðlaðist miðaldatungutakið á Íslandi sitt fram-
haldslíf, þökk sé rökum Odds um að hér „skilji menn ekki almennt
né noti aðrar tungur en þá
góðu gömlu norrænu og
geti því ekki haft sálarnot
af Guðs orði nema þeir
eignist það á móðurmáli“,
eins og Sigurbjörn Ein-
arsson segir í útgáfunni
frá 1988.
Píslarsagan í guðspjöllunum hefur verið til umþenkingar und-
anfarnar föstuvikur og náði hámarki í dymbilvikunni á föstudag-
inn langa þegar fólk kepptist við að flytja þá 50 sálma sem Hall-
grímur Pétursson orti og sendi Ragnheiði Brynjólfsdóttur að gjöf;
hver og einn hefst á stuttri frásögn, þá tekur við útlegging Hall-
gríms um hvað megi læra af sögunni, og loks bæn eða lofgjörð:
„Dýrð, vald, virðing…“
Orðin eru bindiefnið í þeim tilfinningum sem trúarbrögðin tjá;
umhugsun mannsins um guð og lífið frá vöggu til grafar, gleðina
og sorgina sem mannkynið hefur ekki fundið betri aðferðir til að
glíma við en með orðfæri trúarbragðanna. Sagan hefur hlaðist
upp með orðum og fólk hefur tengst henni og nýtt hana til upp-
lyftingar og sáluhjálpar öldum saman, frá kyni til kyns.
Mikilsverðar frásagnir umlykja páskahátíðina allt frá forneskju.
Þegar Kjartan Ólafsson í Laxdælu kemur frá Noregi, þar sem
hann hafði þreytt sund við Ólaf Tryggvason og tekið af honum
skírn, ríður hann um í tólf manna flokki og verður fyrstur hér á
landi til að fasta þurrt langaföstu. Ári síðar fer Kjartan hinn
þriðja dag páska í Saurbæ og snýr aftur heim fimmtadag í páska-
viku, þann örlagadag sem Laugamenn sátu á svikráðum við hann í
Svínadal – og mega lesendur skilja að óvinir Kjartans hafi gert
sér vonir um að máttleysi nýliðinnar föstu yki líkurnar á að þeir
gætu unnið á honum.
Enn meiri atburðir spurðust á föstudaginn langa fyrir þúsund
árum. Í Njálu segir að á Katanesi hafi maður sá er Dörruður hét
gengið út og orðið vitni að því að konur undu með orðum örlaga-
vef þeirra sem tókust á síðar um daginn í Brjánsorustu hjá Dyfl-
inni. Í því blóðregni féll Brjánn konungur og hélt velli – eins og
Herfinnur draummaður orti samdægurs fyrir Gilla jarl í Suður-
eyjum áður en Hrafn hinn rauði kom viku síðar og flutti þeim
Flosa tíðindin öll.
Uppsöfnuð orð, kraftur og hugmyndir sem þau hafa geymt í
þúsund ár gefa næg tilefni um bænadagana til að íhuga gjafir
guðdómsins, hlutskipti, þjáningu og upprisu mannsins og eilíft líf.
Og verður þá heldur fátæklegt að kjósa fremur að hokra við
bingóspil þegar slík auðlegð stendur til boða.
„Gefðu að móður-
málið mitt …“
Tungutak
Gísli Sigurðsson
gislisi@hi.is
Nýjar fréttir frá Bretlandi benda til þess, aðdregið hafi úr sölu áfengra drykkja vegnaþess að verð á áfengi hafi hækkað veru-lega umfram kaupmátt launa fólks. Jafn-
framt eru vísbendingar um að dregið hafi úr ofbeldi
gagnvart öðru fólki með minnkandi sölu á áfengi. Það
er óneitanlega eftirtektarvert ef hægt er að sýna
fram á að draga megi úr neyzlu áfengis með því að
hækka verð á þessum drykkjum. Og enn athygl-
isverðara ef hægt er að sýna fram á að beint sam-
hengi sé á milli áfengisdrykkju og ofbeldisverka.
Fátt sýnir betur tvískinnung í samfélögum sem
telja sig þróuð og þroskuð en að sum vímuefni eru
bönnuð en önnur gerð að tekjulind fyrir samfélagið í
heild og jafnvel hampað sem menningarlegu fyr-
irbæri.
Áfengi er böl, þótt það sé meira böl fyrir suma en
aðra.
Einn þeirra þjóðfélagshópa sem verða illa fyrir
barðinu á því böli, sem fylgir áfengi eru börn alkóhól-
ista. Og þau eru mörg, bæði á barns- og unglingsaldri
en líka á fullorðinsaldri. Sá sem
hefur alizt upp í umhverfi sem
þrúgað var af ofneyzlu áfengis
ber þess merki alla ævi og skil-
ar þeim áhrifum frá sér til
næstu kynslóðar.
Fyrir rúmum tveimur vikum
gengu börn alkóhólista á fund
tveggja ráðherra, Eyglóar
Harðardóttur og Kristjáns Þórs
Júlíussonar og sögðu:
„Við erum ekki vandamálið en við glímum við það.“
Þetta eru orð að sönnu. Þau glíma við það alla ævi.
Hópurinn sem gekk á fund ráðherranna tveggja var
sérfræðihópur umboðsmanns barna, Margrétar Maríu
Sigurðardóttur. Um hópinn segir á heimasíðu um-
boðsmanns barna: „Ofneyzla áfengis og vímuefna er
vandamál, sem snertir líf margra barna. Áætlað er að
það séu yfir 20.000 börn á Íslandi, sem alast upp við
alkóhólisma, þ.e. búa með eða eiga að minnsta kosti
einn náinn fjölskyldumeðlim sem er alkóhólisti. Oft
ríkir mikil þöggun um neyzlu innan veggja heimilisins
og eru börn alkóhólista því oft falinn hópur. Þessi
börn upplifa gjarnan mikla skömm og halda að þau
ein búi við slíkt vandamál.
Umboðsmaður barna taldi mikilvægt að ná fram
röddum barna sem búa við áfengis- og vímuefnavanda
og leitaði því eftir samstarfi við SÁÁ. Komið var á fót
sérfræðihópi barna, sem öll eiga það sameiginlegt að
eiga foreldri sem glímir við alkóhólisma. Vinna hóps-
ins hefur staðið yfir í nokkra mánuði og höfðu börnin
margt að segja sem þau vildu koma á framfæri. Því
var ákveðið að gefa út skilaboð barna alkóhólista ann-
ars vegar til fjölskyldu og hins vegar til fagfólks.“
Þetta framtak er til mikillar fyrirmyndar hjá um-
boðsmanni barna og SÁÁ en þau samtök hafa unnið
algert þrekvirki í áfengismálum þjóðarinnar og með
þeim hætti að þau verðskulda viðurkenningu í því
formi að rekstrargrundvöllur þeirra verði tryggður til
langrar framtíðar svo að þau þurfi ekki að berjast
fyrir fjárhagslegu lífi sínu á nokkurra ára fresti.
En hvernig á að ná til barna, sem standa frammi
fyrir þessum vandamálum? Það er ekki auðvelt. Þau
tjá sig ekki um alkóhólisma föður eða móður – og sú
þögn stendur kannski alla ævi. Gunnar Helgason, rit-
höfundur og leikari, hefur farið athyglisverða leið til
þess. Fyrir skömmu sagði Fréttablaðið frá samstarfi
hans og Guðmundar Ragnars Einarssonar, sem er
barn alkóhólista. Gunnar Helgason hefur skrifað
barnabækur, þar sem þetta vandamál kemur við sögu
og byggir á lífsreynslu Guðmundar Ragnars. Þessi
aðferð þeirra félaga til þess að ná til barna alkóhól-
ista er líkleg til að skila árangri og spurning hvort
hægt er að beita henni gagnvart öðrum hópum barna
svo sem börnum, sem eiga geð-
sjúkt foreldri, foreldri í fangelsi
eða foreldri með krabbamein.
Önnur hugsanleg leið til þess
að ná til barna, sem þjást vegna
vandamála af þessu tagi heima
fyrir er með milligöngu brúðu-
leikhússins. Hér hefur fjöl-
skrúðug brúðuleikhússtarfsemi
náð að festa rætur. Er hugs-
anlegt að brúðuleikhús sé vettvangur sem hægt sé að
nota til þess að útskýra þessi vandamál fyrir börnum?
Í frétt sem birtist á netútgáfu Morgunblaðsins,
mbl.is, um fyrrnefnt framtak umboðsmanns barna
segir m.a.: „Þá ber að hafa í huga að börn alkóhólista
eru sérfræðingar í eigin aðstæðum og geta ein deilt
upplifun sinni á aðstæðum sínum.“ Þetta er rétt.
Áfengi er böl. Kannski var það enn þá meira böl fyrir
hundrað árum en það er nú. Þegar saga aldamótakyn-
slóðarinnar á þeim tíma er lesin verður ljóst að sumir
af helztu forystumönnum þjóðarinnar þá áttu við mik-
inn áfengisvanda að stríða. Áfengisneyzla hefur þá
verið stórfellt þjóðfélagslegt vandamál. Það er skýr-
ingin á því hvað Góðtemplarareglan var öflug á þeim
tíma og var mikill þáttakandi í samfélagsstarfi. Það
voru t.d. ófáir meðlimir þeirrar reglu sem komu að
stofnun Leikfélags Reykjavíkur.
Það er mikil vinna lögð í að hjálpa fólki sem á um
sárt að binda vegna ofneyzlu áfengis og aðstand-
endum þeirra. En kannski er kominn tími á að efla
starf gegn áfengisneyslunni sjálfri, þeirri neyzlu, sem
liggur eins og þungt farg á miklum fjölda fjölskyldna
í þessu landi eins og víða annars staðar.
Það hefur mikill árangur náðst í að draga úr tób-
aksneyzlu. Við þurfum að ná sambærilegum árangri
við að draga úr áfengisneyzlu. Á mínum mennta-
skólaárum var gert grín að starfsemi bindindisfélaga
og kannski er það gert enn.
En ofneyzla áfengis er ekkert grín eins og alltof
margir hafa orðið að reyna.
Þau glíma við vandamálið alla ævi
Framtak Gunnars Helgason-
ar og Guðmundar Ragnars
Einarssonar vekur athygli.
En hvað um brúðuleikhús?
Af innlendum
vettvangi …
Styrmir Gunnarsson
styrmir@styrmir.is
Ég vék fyrir nokkru af sérstökutilefni að frægri boðsferð sjö
íslenskra menntamanna til Ráð-
stjórnarríkjanna 1956, þar á meðal
Steins Steinars og Agnars Þórð-
arsonar. Nú hefur Una Margrét
Jónsdóttir, dóttir Jóns Óskars
skálds, sem einnig var í ferðinni,
skrifað mér smápistil, sem ég fékk
að birta úr. Hún rifjar upp, að
hinir fimm boðsgestirnir voru auk
föður hennar Leifur Þórarinsson
tónskáld, Jón Bjarnason blaða-
maður, Ísleifur Högnason fram-
kvæmdastjóri og Hallgrímur Jón-
asson kennari. Síðan vitnar hún í
ummæli mín: „En einnig er það
umhugsunarefni að flestir hinna
boðsgestanna fimm í sendinefnd-
inni þögðu ýmist þunnu hljóði eða
héldu áfram að lofsyngja ráð-
stjórnina.“
Una Margrét segir síðan í bréfi
sínu: „Mér finnst undarlegt, að þú
skulir ekki nefna það einu orði, að
þriðji rithöfundurinn í nefndinni,
Jón Óskar, faðir minn, gagnrýndi
Sovétríkin einnig. Meðal annars
kemur fram gagnrýni á sovéskt
menningarlíf í greininni „Í heim-
sókn hjá Ilja Erenbúrg“ í 3. hefti
Birtings 1956. Hann fer þó sér-
staklega hörðum orðum um Sov-
étríkin í 4. hefti Birtings sama ár,
en þar skrifar hann ritstjórn-
argrein um uppreisnina í Ung-
verjalandi og segir meðal annars:
„Nú hefur komið í ljós, að í ríki
því sem kallað hefur verið ríki
sósíalismans, hefur þróast við-
bjóðsleg spilling meðal ráða-
manna, þeir hafa tekið að keppa
við auðvaldssinna og fasista í rétt-
armorðum, hneppt list og menn-
ingu í fjötra, blekkt og logið, en
einblínt á það að nota hagkerfi
sósíalismans til að gera Sovétríkin
að einu af mestu iðnveldum heims.
Enginn heiðarlegur maður getur
aðhyllst þess konar sósíalisma.“
Loks gagnrýndi hann Sovétríkin
harðlega í bók sinni Páfinn situr
enn í Róm, sem hann lauk við
1963, en kom út 1964. Þessi gagn-
rýni hans á Sovétríkin hafði mikil
áhrif á líf hans og feril, og því
þykir mér slæmt ef látið er að því
liggja að hann hafi verið einn af
þeim sem þögðu um ástandið í
Sovétríkjunum. Sérstaklega þætti
mér miður vegna yngri kynslóða,
ef slíkur misskilningur kæmist á
loft.“
Una Margrét hefur rétt fyrir
sér, en ástæðan var ekki sú, að ég
hefði gleymt Jóni Óskari, heldur
ætlaði að geyma mér að ræða um
viðskilnað skáldsins við sósíal-
ismann, sem varð allsögulegur.
Það skal ég gera í næsta pistli.
Athugasemdir og leiðréttingar vel þegnar
Hannes H. Gissurarson
hannesgi@hi.is
Fróðleiksmolar úr sögu og samtíð
Athugasemd frá
dóttur Jóns Óskars
Vagnhöfða 11, 110 Reykjavík | S. 577-5177 | linuborun@linuborun.is | www.linuborun.is
Af hverju grafa þegar hægt er að bora?
Reynsla - þekking - við komum og metum
Við notum stýranlegan jarðbor
sem borar undir götur, hús, ár
og vötn.
Umhverfisvænt - ekkert jarðrask•
Meira öryggi á svæðinu•
Sparar bæði tíma og peninga.•
Borum fyrir nýjum síma-, vatns-, rafmagns-
og ljósleiðaralögnum.