Morgunblaðið - 27.06.2014, Síða 21
FRÉTTIR 21Erlent
MORGUNBLAÐIÐ FÖSTUDAGUR 27. JÚNÍ 2014
Skúli Halldórsson
sh@mbl.is
John Kerry, utanríkisráðherra
Bandaríkjanna, hvatti í gær rúss-
nesk stjórnvöld til að sýna fram á að
þau væru í raun að vinna að afvopn-
un uppreisnarmanna í Austur-Úkra-
ínu. „Það er gríðarlega mikilvægt
fyrir Rússa að sýna að þeir séu að af-
vopna skæruliðana og vilji þannig
taka þátt í pólitísku samstarfi,“ sagði
Kerry við blaðamenn.
Yfirvöld í Rússlandi neita að hafa
látið aðskilnaðarsinnum í té vopn yf-
ir landamæri ríkjanna. Bandaríkin
og Evrópusambandið hafa hótað
frekari aðgerðum gegn Rússlandi ef
stjórnvöld þar í landi bregðast ekki
fljótt við ástandinu og hjálpa úkra-
ínskum stjórnvöldum.
Vopnahlé hefur ríkt á svæðinu í
nokkurn tíma en því á að ljúka í dag.
Þrátt fyrir það skutu aðskilnaðar-
sinnar niður þyrlu á þriðjudaginn
var og árásin olli níu dauðsföllum. Þá
hafa þeir ásakað ríkisstjórnina um
að halda ekki vopnahléið í heiðri.
Segja þeir að úkraínskt herlið hafi
gert sprengjuárásir á þorp þeirra
meðan á því stóð. Viðræður um
áframhaldandi vopnahlé munu halda
áfram í dag.
Viðskiptasamningur við ESB
Vladimír Pútín Rússlandsforseti
átti í löngum samræðum við leiðtoga
Úkraínu, Þýskalands og Frakklands
á miðvikudaginn. Þá fundaði hann
með Angelu Merkel, kanslara
Þýskalands, í fyrradag, um bága
stöðu almennings í Austur-Úkraínu
og sagði Pútín eftir fundinn að flótta-
mönnum færi fjölgandi Rússlands-
megin við landamærin. Þau ræddu
einnig um að framlenging á vopna-
hléi væri nauðsynleg.
Í dag er áætlað að forseti Úkraínu,
Petro Porosénkó, muni fara til
Brussel og skrifa þar undir víðtækan
viðskiptasamning við ESB. Atvinnu-
rekendur í Úkraínu binda miklar
vonir við samninginn við ESB og
vonast til að hann muni opna nýja
markaði fyrir þeim. Aðspurður um
ástandið í heimalandinu í gær sagði
Porosénkó: „Pútín þarf að sýna
stuðning við okkur með athöfnum,
ekki eintómum orðum.“ Þá sagði
hann stuðning Rússa hingað til hafa
verið ófullnægjandi.
Þúsundir manna eru taldar hafa
flúið heimili sín í Austur-Úkraínu og
farið yfir landamærin til Rússlands.
Uppreisnin í Úkraínu á rætur að
rekja til þess þegar Viktor Janúkó-
vits ákvað á síðustu stundu, í nóv-
ember síðastliðnum, að skrifa ekki
undir viðskiptasamning við ESB,
þann sama og Porosénkó mun skrifa
undir í dag. Eftir nokkurra mánaða
mótmæli flúði Janúkóvits landið og
var steypt af stóli forseta. Á fimmta
hundrað manns hafa látist í átökum á
svæðinu síðan í apríl.
AFP
Aukinn þrýstingur John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, segir það gríðarlega mikilvægt að Rússar sýni
stuðning við yfirvöld Úkraínu. Rússar hafa verið sakaðir um að hjálpa aðskilnaðarsinnum í nágrannaríkinu.
Kerry þrýstir á Rússa
Þúsundir manna hafa flúið heimili sín í Austur-Úkraínu
Vopnahléi í landinu mun ljúka í dag að öllu óbreyttu
Ástralska ríkisstjórnin kynnti í gær
nýjar áætlanir í leitinni að malasísku
farþegaþotunni, MH 370. Leitinni
verður nú beint suður á bóginn, að
svæði sem er um 1800 kílómetra
vestan við vesturströnd Ástralíu. Í
skýrslu sem ríkisstjórnin gaf út í
gær kemur fram að leitarsvæðið
muni þekja 60 þúsund ferkílómetra.
Tvö skip, eitt kínverskt og eitt
ástralskt, vinna nú að því að kort-
leggja hafsbotninn á hinu nýja leitar-
svæði. Talið er að sú vinna muni ekki
taka lengri tíma en ár. Kafbátar
munu grandskoða hafsbotninn en nú
þegar hefur verið leitað á yfirborði
hafsins að braki. Sérfræðingar segja
þó að ef brak væri til staðar þá væri
það nú sokkið til botns.
Líklega á sjálfstýringu
Margir mismunandi aðilar, sem
vinna hver í sínu lagi, hafa komist að
því að þetta svæði sé líklegasti
staðurinn til að finna farþegaþotuna.
Fremst í flokki fer þó fyrirtækið In-
marsat, sem starfrækir stóra gervi-
hnattaþjónustu.
Miklar líkur eru taldar vera á því
að þotan hafi verið á sjálfstýringu
þegar hún brotlenti, vegna þess hve
bein leið hennar var. Meira en
hundrað dagar eru liðnir síðan far-
þegaþotan hvarf og ættingjar far-
þeganna eru enn fullir óþreyju. Leit-
in að þotunni er nú orðin ein sú
dýrasta í sögunni. Þá hefur leitin
vakið athygli á því hversu lítið er um
góð kort af hafsbotnum heimsins.
Áhöfnin meðvitundarlaus
Við lestur skýrslu ástralskra yfir-
valda, sem er 64 blaðsíður, er ljóst að
rannsakendur gera ráð fyrir að
áhöfn farþegaþotunnar hafi verið
meðvitundarlaus meirihluta flugs-
ins. Hitt er einnig ljóst að enn er að-
eins hægt að geta sér til um orsakir
þessa dularfulla hvarfs.
Ástralía tilkynnir
nýtt leitarsvæði
Farþegaþotan
hvarf fyrir meira
en hundrað dögum
AFP
Skimað Ástralskur hermaður leitar
að ummerkjum eftir farþegaþotuna.
Rauðagerði 25 · 108 Reykjavík · Sími 440 1800 · kaelitaekni.is
Okkar þekking nýtist þéri i
Alvöru blandarar
fyrir veitingastaðinn
kaffihúsið, ísbúðina
& booztbarinn
Ýmsir ánægðir viðskiptavinir
• World Class & flestir líkamsræktarstaðir íslands
• Kaffi Tár & Te & Kaffi
• Heilsuhúsið & Lifandi Markaður
• Ýmsir veitingastaðir s.s. Vox, Perlan, Ruby Tuesday ofl.