Morgunblaðið - Sunnudagur - 07.09.2014, Blaðsíða 19
ganga 1.800 kílómetra hefur þessi taktík án
efa sparað einhver spor. Af sömu ástæðu þver-
aði hann hringtorg þegar við gengum saman
inn í einn bæinn.“
Spánverjinn hafði fyrir mörgum árum
ákveðið að ganga Jakobsveginn með eiginkonu
sinni en áður en að því kom missti hann hana
úr krabbameini. Það fór því svo að hann gekk
veginn í minningu hennar.
Írinn komst ekki alla leið. Varð að láta í
minni pokann fyrir hitanum sem var á köflum
gríðarlegur. Losaði fjörutíu gráður. Við þau
skilyrði segir Ólafur brýnt að verja sig fyrir
sjóðheitum geislum sólarinnar og drekka lif-
andis býsn af vatni. Sjálfur rakst hann á fólk á
leiðinni sem fengið hafði sólsting.
Ekki hafa margir Íslendingar gengið allan
Jakobsveginn en Thor heitinn Vilhjálmsson
rithöfundur er einn þeirra. „Mér varð margoft
hugsað til Thors á leiðinni,“ segir Ólafur. „Ég
ber djúpa virðingu fyrir þeim manni. Gangan
er nógu erfið fyrir mann á fimmtugsaldri –
Thor var orðinn áttræður þegar hann gerði
þetta.“
Nær ómögulegt að villast
Þjóðerni Ólafs vakti mikla athygli á Jak-
obsveginum og svissnesk sjónvarpsstöð vildi
ólm taka viðtal við hann. „Fólk sem ég rakst á
hafði almennt mikinn áhuga á Íslandi, ekki síst
eftir að ég sagði því að við Íslendingar værum
hálfgerðir pandabirnir í útrýmingarhættu, við
værum svo fámennir. Eftir það var ég lengi
kallaður pandabjörninn á veginum,“ segir
hann hlæjandi.
Að sögn Ólafs er leiðin afskaplega vel merkt
og nær ómögulegt að villast. Þá eru íbúar í
þorpum, bæjum og sveitum mjög meðvitaðir
um þrekraun pílagrímanna og hvetja þá óspart
til dáða. „Ég fékk alls konar upplýsingar á
leiðinni, til dæmis um það hvernig bregðast
ætti við kæmi eitthvað upp á. Þá voru bænd-
urnir duglegir að gefa manni fíkjur. Þvílíkt
lostæti!“
Á leiðinni rakst Ólafur á Þjóðverja með pip-
arúða í farteskinu. Aðspurðir sögðu þeir það
vera til að halda villihundum í skefjum. Sjálf-
um þótti Ólafi ótrúlegt að slíkar skepnur væri
að finna á leiðinni en neyddist þó til að endur-
skoða þá afstöðu. „Ég tók daginn gjarnan
snemma og gekk jafnvel á nóttunni til að
sleppa við mesta hitann, einkum á sléttunni.
Eina nóttina í myrkrinu heyrði ég urr og þeg-
ar betur var að gáð blöstu átta augu við mér í
geislanum frá höfuðljósi mínu. Ég viðurkenni
fúslega að mér stóð ekki á sama. Hundarnir
létu þó ekki til skarar skríða. Sem betur fer.
Ég sagði frá þessu í næsta bæ og menn voru
gerðir út til að leita að hundunum.“
Stéttaskipting á veginum
Ekki ganga allir pílagrímar Jakobsveginn,
brögð eru að því að menn fari hjólandi, ríðandi
eða jafnvel akandi (í trússi). Ólafur segir mikla
„stéttaskiptingu“ milli þessara hópa og göngu-
menn líti heldur niður á hina. „Er á leið stóð
ég sjálfan mig að þessu,“ segir hann sposkur.
Brýnt er að vera sem léttastur á göngunni.
Þegar Ólafur lagði af stað vó bakpokinn hans
13 kg, að vatninu frátöldu, tveimur til þremur
lítrum. Strax í Pamplona fór hann hins vegar
losa sig við búnað og náði farangrinum niður í
7 kg, að vatninu meðtöldu. „Ég ráðlegg fólki
að fara ekki með grammi meira.“
Eðli málsins samkvæmt fékk Ólafur sinn
skerf af blöðrum og sárum á fæturna en það
var þó ekkert sem hægði á honum. Þakkar
hann það fyrst og síðast forláta merino-
ullarsokkum sem hann klæddist á leiðinni. Vel
loftar um þá. „Merino-ullarsokkarnir eru al-
gjörlega ómissandi. Margir sem ég hitti á leið-
inni voru illa farnir á fótunum, jafnvel komnir
með ígerð.“
Fegurðin er mikil á leiðinni, á jörðu sem á
himni. Ólafi þótt mest til vetrarbrautarinnar
koma. „Aðra eins dýrð hef ég aldrei séð. Ég
sat bara á steini og starði upp í loftið í það
sem mér fannst vera heil eilífð.“
Hvað á ég að gera á morgun?
Göngunni lauk klukkan níu að morgni 3. ágúst
við dómkirkjuna í Santiago de Compostela í al-
gjörri kyrrð og næði. Aðeins einn Breti á ferli.
Spennufallið varð að vonum algjört og Ólafur
spurði sjálfan sig í forundran: Hvað á ég eig-
inlega að gera á morgun?
Þó svo að engin syndaaflausn fáist sjálfkrafa
lengur að pílagrímsferð lokinni úthlutar dóm-
kirkjan í Santiago de Compostela viðurkenn-
ingarskjölum að uppfylltum þremur skilyrðum.
Í fyrsta lagi þarf að bera með sér pílagríma-
vegabréf, sem má fá í heimasókn eða í
kirkjum á upphafsstöðum, og safna stimplum á
öllum viðkomustöðum. Í öðru lagi þarf viðkom-
andi að hafa gengið eða riðið á hesti eða asna
minnst 100 km til Santiago eða farið minnst
200 km á hjóli. Í þriðja lagi þarf viðkomandi
að lýsa yfir að förin hafi verið farin í trúar-
legum eða andlegum tilgangi. Ólafur fékk slíka
viðurkenningu og lyftir skjalinu sigri hrósandi.
„Þetta skjal mun ég sýna Lykla-Pétri þegar
þar að kemur.“
Ólafur hafði lofað sér steik við komuna til
Santiago de Compostela en þegar á hólminn
var komið synjaði fimm stjörnu hótel honum
inngöngu. Þótti hann ekki nægilega snyrtilega
til fara. Í staðinn hallaði hann sér bara í sælu-
vímu á torginu við dómkirkjuna og leyfði af-
rekinu að mjatlast inn í sálartetrið. Það er
ekki á hverjum degi sem maður lýkur við 800
kílómetra göngu.
Síðar um daginn sótti forstöðumaður á
skrifstofu Eimskips í Vigo Ólaf og fór með
hann þangað. Þar fékk hann loksins steikina
sína. Frá Vigo flaug Ólafur til Barcelona, þar
sem Kolbrún kom til móts við hann. Stolt af
sínum manni. „Fyrst hann ákvað að gera þetta
vissi ég að hann myndi klára gönguna,“ segir
hún.
Þá er ég tilbúinn í hjónaband
Ólafur hafði nægan tíma með hugsunum sín-
um á leiðinni yfir Norður-Spán og setti sér
alls kyns markmið. Eitt var þó metnaðarfyllra
en önnur. „Ef ég á að vera alveg hreinskilinn
hef ég ekki verið sérlega spenntur fyrir hjóna-
bandi en meðan á göngunni stóð fór ég að
velta fyrir mér hvort ekki væri við hæfi, tæk-
ist mér að ljúka henni, að ég bæði konunnar.
Eftir því sem göngunni vatt fram varð þessi
tilfinning sterkari og rökin voru þessi: Ef ég
get klárað þessa göngu hlýt ég að vera tilbú-
inn í hjónaband!“
Þess vegna fór hann á skeljarnar í Barce-
lona. „Ég vissi ekki hvaðan á mig stóð veðrið,“
staðfestir Kolbrún. „Bjóst ekki við að þetta
myndi nokkurn tíma gerast. Þarna kom hann
mér þægilega á óvart. Óli er æðrulausari eftir
gönguna og hafði greinilega gott af þessu,
bæði andlega og líkamlega.“
Hún brosir til bónda síns.
Ólafur gekk óvenju rösklega, kláraði göng-
una á 23 dögum. Það þýðir að hann lauk að
meðaltali við tæplega 35 kílómetra á dag.
Samkvæmt vegvísi sem hann fékk í Saint--
Jean-Pied-de-Port er mælt með að gengnir
séu 23,5 kílómetrar að meðaltali á dag og
göngunni þannig lokið á 34 dögum.
„Ástæðan fyrir því að ég gekk svona hratt
var afskaplega einföld: Fríið mitt var ekki
lengra. Eimskip var að fá nýtt skip, Lagarfoss,
til landsins og ég hafði verk að vinna. Hefði ég
haft lengri tíma hefði ég farið hægar og mæli
raunar með því að fólk geri það,“ segir Ólafur.
Gæti gert þetta aftur á morgun
Enda þótt hann væri alsæll að göngu lokinni
voru hans fyrstu viðbrögð á þennan veg: „Ég
geng aldrei aftur, ekki einu sinni heima í
Skerjafirðinum!“ Núna þegar hann er búinn
að jafna sig er hins vegar annað hljóð komið í
strokkinn: „Ég gæti gert þetta aftur – strax á
morgun!“
Ólafur segir gönguna skilja mikið eftir sig.
Bæði í eiginlegum og óeiginlegum skilningi.
„Fyrir það fyrsta er ég fimmtán kílóum léttari
en þegar ég lagði af stað,“ segir hann bros-
andi. „Það er árangur út af fyrir sig og mér
líður miklu betur í skrokknum. Gangan hafði
hins vegar ekki minni áhrif á mig andlega en
líkamlega. Þegar á hana leið hætti tíminn að
skipta mig máli, eins fréttir og aðrir hlutir
sem við nærumst á í okkar daglega lífi. Ég af-
stressaðist og fann algjöran frið. Ég gekk ekki
í trúarlegum tilgangi eins og svo margir en
gerði það svo sannarlega í andlegum tilgangi.
Ég mun búa að þessu alla ævi – Jakobsveg-
urinn hefur breytt lífi mínu.“
*Um tíma áttiég alveg einsvon á því að álfar
yrðu á vegi mínum.
Gistiaðstaðan var ekki alltaf upp á
marga fiska. Þröngt mega sáttir sofa.
Ólafur við minnismerkið sem Stefán bróðir hans reisti
afa þeirra, Ólafi Ófeigssyni, útgerðarmanni.
Álagið á fætur er að vonum mikið.
Ólafur fór ekki varhluta af því.
Ólafur kominn á leiðarenda. Dómkirkjan í Santiago de
Compostela í baksýn. Spennufallið varð mikið.
7.9. 2014 MORGUNBLAÐIÐ SUNNUDAGUR 19