Fréttablaðið - 02.10.2014, Blaðsíða 66
2. október 2014 FIMMTUDAGUR| LÍFIÐ | 54
NÝ VERSLUN
LAUGAVEGI 77!
OPIÐ TIL
22:00
ÖLL KVÖLD
Ábendingahnappinn má finna á
www.barnaheill.is
„Bókin fjallar um mína reynslu
af átröskun. Þetta er í raun mín
þroskasaga þar sem ég lýsi baráttu
minni,“ segir Birna Varðardóttir
sem sendir frá sér sína fyrstu bók
á laugardaginn. Bókin heitir Mol-
inn minn og lýsir baráttu hennar
við átröskun. Nafnið á bókinni
segir hún komið frá því að í kon-
fektkassa lífsins sé ómögulegt að
vita hvaða mola maður fái.
Þrátt fyrir að Birna sé aðeins
tvítug þá á hún að baki mikla
reynslu. Í um þrjú ár var hún
alvarlega veik af átröskun en
veikindin byrjuðu þegar hún var
um þrettán ára gömul.
„Ég var að æfa mjög mikið. Ég
var í frjálsum íþróttum og mest í
langhlaupi. Ég var mjög metnað-
arfull og vildi ná langt í hlaupun-
um. Ég fann út að því léttari sem
ég var því hraðar gat ég hlaupið,“
segir Birna og segir átröskunina
hafa þróast hægt og rólega án
þess að hún gerði sér grein fyrir
því til að byrja með.
„Í rauninni var þetta dæmi-
gerð íþróttaátröskun og ég stýrð-
ist af vigtinni. Ef ég var að halda
vigt og léttast þá fannst mér það
merki um að ég gæti borðað meira
og öfugt, ef ég var að þyngjast þá
borðaði ég ekki,“ segir hún. Eðli-
lega tók það sinn toll af henni og
á endanum var átröskunin farin
að hafa áhrif á hlaupagetu hennar.
Hún segist hafa leitað sér hjálp-
ar en hafi þó farið óhefðbundn-
ar leiðir í því. „Ég fann út að það
hentaði mér ekki að vera inni á
geðdeildum eða í hefðbundnum
átröskunarmeðferðum. Ég nýtti
mér hjálp Boot Camp. Þar var
þjálfari sem tók mig að sér og var
mín stoð og stytta. Hann hjálpaði
mér með ákveðna andlega þætti
og þetta gerði gæfumuninn fyrir
mig.“
Birna segir að eftir að hún hafi
farið að tjá sig um átröskunina
hafi hún komist að því að íþrótta-
átröskun væri algengari en hún
hafði haldið. „Ég hélt að ég væri
sú eina sem glímdi við þetta en
eftir að ég fór að opna mig meira
hef ég komist að því að þetta er
töluvert algengt. En það er ekki
mikið talað um þetta og það er
algengt að fólk skammist sín fyrir
að glíma við þetta. Með bókinni
langar mig að opna á umræðuna,“
segir Birna.
Hún segist hafa viljað skrifa
bókina og segja sína sögu til þess
að geta mögulega hjálpað öðrum
í sömu stöðu. „Með því að gefa út
bókina vildi ég sýna fólki að það
er allt hægt. Það er hægt að kom-
ast upp úr þessu.“ Hún segist í
dag vera í góðu formi líkamlega
og ekki lengur veik. „Þetta háir
mér ekki í dag en auðvitað hefur
átröskunin haft sín áhrif á líkam-
ann.“
Bókin kemur sem fyrr segir út
á laugardaginn og í tilefni þess
ætlar Birna að halda útgáfuboð
í Dalskóla í Úlfarsárdal milli
klukkan 2 og 4. Hægt er að fá nán-
ari upplýsingar á Facebook.
- vh
„Hélt ég væri sú eina“
Birna lýsir baráttu sinni við íþróttaátröskun sem hún veiktist af þrettán ára gömul.
MIKIL REYNSLA Birna veiktist fyrst af átröskun þegar hún var aðeins þrettán ára gömul. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR
Ég fann út að því
léttari sem ég var því
hraðar gat ég hlaupið.
Átröskun er alvarlegt sálrænt vandamál sem getur valdið heilsutjóni
eða jafnvel dauða. Átröskun er skipt í tvo meginflokka: lystarstol og
lotugræðgi. Átröskun er algengari meðal kvenna heldur en karla og kemur
venjulega fram á unglingsaldri. Hún er algengari meðal íþróttafólks en
annarra þjóðfélagshópa og þá sérstaklega í íþróttum þar sem líkamsvöxtur
skiptir máli. Sérstakir félagslegir áhættuþættir eru miklar kröfur um að
vera grannur og eins miklar kröfur um að standa sig vel. Í íþróttum eru
þessir áhættuþættir gjarnan báðir til staðar á sama tíma. Í öllum íþróttum
eru gerðar kröfur um árangur og þar að auki í sumum íþróttum lögð
sérstök áhersla á grannan líkamsvöxt. Tíðni átröskunar er mest í þeim
íþróttum sem gera kröfur um grannan líkamsvöxt; svo sem ballett, fim-
leikum og skautadansi.
GÓÐ RÁÐ TIL ÍÞRÓTTAIÐKENDA
● Hlustið á eigin þarfir og tilfinningar– þið eigið rétt á að vera eins og þið
eruð.
● Takið sjálfstæðar ákvarðanir varðandi eigið líf.
● Ef ykkur líður illa og haldið að þið séuð haldin átröskun, talið þá um
líðan ykkar við einhvern sem þið treystið, foreldra, vini, þjálfara, kenn-
ara, námsráðgjafa eða skólahjúkrunarfræðing.
heimild: doktor.is
ÁTRÖSKUN ALGENGARI MEÐAL ÍÞRÓTTAFÓLKS
MIKLAR KRÖFUR Sérstakir áhættuþættir eru kröfur um að vera grannur og standa
sig vel. NORDICPHOTOS/GETTY