Skessuhorn - 12.06.2013, Page 22
22 MIÐVIKUDAGUR 12. JÚNÍ 2013
Vitinn á Breið er nýlegur vettvang-
ur menningarviðburða á Akranesi.
Vitavörðurinn Hilmar Sigvaldason
er duglegur að fá til sín tónlistar-
fólk og aðra listamenn til að standa
fyrir viðburðum í vitanum. Um síð-
ustu helgi var opnuð myndlistarsýn-
ing í Akranesvita, en reyndar skiptir
listamaðurinn Hrönn Eggertsdóttir
sýningunni í tvo hluta. Annar hlut-
inn heitir Landið mitt og hinn Eft-
irvænting. Í tilefni þessarar sýning-
ar heimsótti blaðamaður Skessu-
horns Hrönn í vinnustofu henn-
ar í bílskúrinn að Hjarðarholti 10 á
Akranesi, í Gallerí Grund. Hrönn á
að baki fjölda einkasýninga og sam-
sýninga. Þegar blaðamaður hitti
Hrönn að máli var hún ekki farin
að koma myndunum fyrir í vitan-
um. „Ég er með 42 frágengin verk
en verð trúlega ekki með þau öll á
sýningunni. Svo á eftir að koma í
ljós hvernig verkin þola óupphit-
að húsnæði eins og vitinn er,“ seg-
ir Hrönn. Hún skýrir nöfnin á sýn-
ingunum þannig. „Landið mitt eru
myndir af landinu margar draum-
kenndar. Hin sýningin, Eftirvænt-
ing, eru abstrakt myndir og nafn-
ið er tilkomið vegna þess að ég hef
málað af svo mikilli eftirvæntingu
og tilhlökkun í vetur.“
Bernskan einkenndist af
útileikjum
Hrönn er borinn og barnfædd-
ur Akurnesingur. Hún hefur búið
þar alla sína tíð, fyrir utan náms-
ár í Reykjavík og tvö ár sem hún
var við kennslu norður á Húsavík.
„Það má segja að ég hafi mikið til
verið rótgróin hér og uppvöxturinn
hérna á Akranesi mótaði mig mikið.
Ég á bara eitt systkini, Hlyn bróð-
ur minn sem er fimm árum yngri
en ég. Foreldrar mínir eru Unnur
Leifsdóttir sem býr ennþá í æsku-
heimili mínu að Skagabraut 39,
en faðir minn Eggert Sæmunds-
son lést 1990 fyrir aldur fram, að-
eins 61 árs. Hann var húsgagna-
smíðameistari en starfaði lengst af í
Sementsverksmiðjunni. Augastein-
arnir mínir eru dóttir mín Unnur
Alexandra Sigurðardóttir sem býr
í Englandi ásamt manni sínum. Ég
á eitt ömmubarn, Karólínu Hrönn
Hilmarsdóttur sem orðin er 21 árs
gömul. Hlynur bróðir býr á Skaga-
braut 21 þar sem föðuramma mín
Karólína Stefánsdóttir bjó. Hús-
ið okkar á Skagabrautinni var lengi
næstefsta húsið á Skaganum, næst
Fögrugrund sem stóð rétt hjá þar
sem Skaganesti eða Stöðin er núna.
Þarna var víst fjárrétt Skagamanna
áður fyrr en hún var nýhorfin þeg-
ar ég man fyrst eftir mér,“ segir
Hrönn sem fæddist 7. júní 1951.
„Mér fannst bernskan einkennast
af því að við krakkarnir voru allt-
af úti í hinum ýmsu leikjum. Það
var bara þegar veðrið var mjög vont
sem við vorum innandyra og það
fannst okkur agalegt að geta ekki
verið úti. Svona var þetta sumar og
vetur. Ég man meira að segja eft-
ir því að á veturna þegar kom mik-
ill snjór að þá grófum við okkur inn
í skaflana og bjuggum til snjóhús.
Þar kveiktum við kertaljós, fengum
okkur kakó og höfðum það huggu-
legt.“
Snemma bar á
myndlistarmanninum
Aðspurð segir Hrönn að snemma
hafi borið á listaáhuganum. „Ég
held ég hafi verið tveggja ára þeg-
ar ég fór með mömmu í heimsókn
til Guðlaugar ömmu og þar var þá
stödd hjá ömmu systir hennar, fín
frú úr Reykjavík. Ég komst í vesk-
ið hennar og náði þar í varalitinn.
Ég sá að stofuveggurinn var góð-
ur flötur til að mála á og gerði þar
heilmikið myndverk sem ég var
rosalega ánægð með. Ég fór stolt
fram og sagði þeim að koma og sjá.
Þetta vakti ekki mikla hrifningu
og ég var hissa á viðbrögðunum.
Mamma var mjög reið við mig og
úr þessu varð heilmikill grátur. Ég
fékk rassskellingu, enda þurfti víst
að mála stofuna eftir þetta. Foreldr-
ar mínir hafa reyndar stutt mig vel í
minni listsköpun um tíðina. Ég var
sífellt teiknandi sem krakki, teikn-
aði gjarnan á saurblöð og auð blöð
fremst í bókum. Pabbi minn átti
teikningar frá iðnskólaárunum sem
hann hélt upp á og voru geymd-
ar á sparistað. Ég hafði upp á þeim
og teiknaði aftan á þær. Það vakti
ekki mikla hrifningu. Þegar ég var
tíu ára gömlu tilkynnti ég í bekkn-
um mínum að ég ætlað að verða
teiknikennari þegar ég yrði stór. Ég
skil ekki hvað ég var ákveðin í því,
þar sem á þessum tíma voru eng-
ir kennarar í skólanum sem sinntu
myndmennt sérstaklega,“ segir
Hrönn sem eftir grunnskóla innrit-
aðist í Myndlistar- og handíðaskól-
ann. Hún lauk þar námi eftir fjögur
ár með kennarapróf.
Saknar nemendanna
Að loknum námsárunum í
Reykjavík kom Hrönn heim á Akra-
nes og gerðist kennari í Brekkubæj-
arskóla, arftaka Barnaskóla Akra-
ness. „Ég tók að mér bæði mynd-
mennt og almenna kennslu. Síð-
ar þróaðist það þannig að mynd-
menntakennslan varð sífellt yfir-
gripsmeiri í skólanum. Ég hef allt-
af haft óskaplega gaman af börn-
um og unglingum og naut þess að
kenna. Ég lagði mikið upp úr sam-
skiptunum og þótt ég vildi gjarnan
að mínir nemendur næðu árangri í
sínum viðfangsefnum hver sem þau
voru, fannst mér samt númer eitt
að þeim liði vel og þau nytu sín. Ég
sakna krakkanna eftir að ég hætti
kennslu,“ segir Hrönn en hún lét
af kennslu í Brekkubæjarskóla fyr-
ir tæpu einu og hálfu ári.
Eins og fyrr segir hefur Hrönn
haldið fjölda einkasýninga, en hún
starfrækti einnig um tíma Gallerí-
ið Gjugg með Bjarna Þór Bjarna-
syni listmálara. Hrönn hélt sína
fyrstu einkasýningu í Bókhlöðunni
á Akranesi 1975 og flestar hafa sýn-
ingar hennar verið á Akranesi, en
einnig á Húsavík og í Reykjavík.
Reyndar var síðasta einkasýning
hennar í Jónshúsi í Kaupmanna-
höfn 2004. Þá var Hrönn reynd-
ar ekki sjálf á staðnum, en vinkona
hennar sá um sýninguna sem tókst
vel. Samsýningarnar hafa einnig
verið margar, allar á Akranesi eða
í Borgarfirði. Hrönn reiknar með
að sýningin í Vitanum á Breið verði
opin í nokkurn tíma, jafnvel fram
yfir Írsku dagana sem verða fyrstu
helgina í júlí.
þá
Í upphafi ársins ákvað ríkisstjórn
Samfylkingar og VG í samstarfi við
hagsmunasamtök vinnumarkaðar-
ins að hrinda af stað sameiginlegu
átaki til að hækka menntunarstig
á vinnumarkaði. Ráðist er í átak-
ið í kjölfar yfirlýsingar ríkisstjórn-
arinnar í tengslum við kjarasamn-
inga 5. maí 2011 þar sem gefin
voru fyrirheit um aðgerðir í vinnu-
markaðs- og menntamálum. Lið-
ur í átakinu sem kynnt var er til-
raunaverkefni sem miðar að því að
kanna þörf launafólks og atvinnu-
rekenda fyrir menntun og gera til-
lögur að nýjum námsúrræðum ef
þörf er á. Að auki er markmið verk-
efnisins að þróa aðferðir sem auð-
velda mat á fyrra námi og starfs-
reynslu einstaklinga inn í hið hefð-
bundna skólakerfi, gera tillögu um
framtíðarskipan þeirra mála og
hvetja til aukins samstarfs umsjón-
araðila framhaldsfræðslu, fram-
haldsskóla og háskóla um menntun
á vinnumarkaði. Stjórnvöld lögðu
til að tilraunaverkefnið yrði fram-
kvæmt á tveimur svæðum, í Breið-
holti og í Norðvesturkjördæmi.
Norðvesturkjördæmi var valið sem
tilraunasvæði sökum þess að þar er
gott þversnið af íslensku atvinnu-
lífi, stóriðja, sjávarútvegur, ferða-
þjónusta, landbúnaður og ýmis
þjónusta. Alls hefur ríkið til ráð-
stöfunar um 950 milljónir króna í
verkefnið. Tilraunaverkefnin kom-
ust þó ekki af stað í tíð síðustu rík-
isstjórnar þar sem verkefnisstjór-
nir voru fyrst skipaðar 23. apríl sl.,
nokkrum dögum fyrir kosningar.
Það kemur því í hlut hinnar nýju
ríkisstjórnar Framsóknarflokksins
og Sjálfstæðisflokksins að ýta verk-
efnunum úr vör.
Könnun gerð
meðal starfsfólks og
stjórnenda
Vilhjálmur Egilsson, verðandi rekt-
or Háskólans á Bifröst, er formað-
ur verkefnisstjórnar tilraunverk-
efnisins í Norðvesturkjördæmi og
kynnti hann verkefnið á aðalfundi
Símenntunarmiðstöðvar Vestur-
lands sem fór fram á Akranesi á
fimmtudaginn. Vilhjálmur seg-
ir undirbúning vel á veg kominn
og væntir hann þess að það fari af
stað nú í júní. „Fyrsta skrefið í verk-
efninu verður að greina eftirspurn
og þarfir einstaklinga og forsvars-
manna fyrirtækja á menntun í kjör-
dæminu. Bæði verða gerðar hefð-
bundnar kannanir hjá stjórend-
um fyrirtækja og meðal almenn-
ings. Eins verður gerð viðamik-
il viðtalskönnun þar sem fyrirtæki
verða heimsótt og þar kallað eft-
ir skoðunum starfsfólks og stjórn-
enda til þess hvers konar menntun
þarf að bjóða upp á til að hægt sé að
bæta þekkingu þess, starfsemi fyrir-
tækjanna, og um leið hækka mennt-
unarstigið. Fjölbreyttar spurningar
verða bornar undir viðmælendur til
að draga fram sem gleggsta mynd
af viðhorfum fólks á vinnumarkaði
á svæðinu til menntunar. Í fram-
haldinu verður skoðað hvernig
þróa og nýta megi betur það nám
sem nú þegar er í boði og hvaða
nýjum námsúrræðum megi tefla
fram. Grunnurinn að þessu starfi
verða kannanirnar og teljum við að
þeim þætti verkefnisins verði lokið
í nóvember og niðurstöðurnar og
tillögugerð á grunni þeirra kynntar
á sérstakri ráðstefnu sem þá verður
haldin,“ segir Vilhjálmur.
Vinna hefst innan
skamms
Vegna verkefnisins verða tveir
starfshópar skipaðir til að hafa yf-
irumsjón með ákveðnum þáttum
þess. Skipaður verður starfshópur
til að leiða vinnu við könnunina
umræddu og er hann þegar farinn
af stað. Sá hópur mun í framhald-
inu vinna úr niðurstöðum henn-
ar og gera tillögur um hvern-
ig þróa megi ný námsstyrkjakerfi
svo dæmi sé tekið. Þá verður skip-
aður starfshópur sem mun fjalla
um þróun og samræmingu raun-
færnimats á starfsreynslu og fyrra
námi einstaklinga, velta upp hug-
myndum að nýju námsframboði
og gera tillögur að auknu sam-
starfi menntastofnana og fram-
haldsnámsaðila. Vilhjálmur seg-
ir að verkefnisstjórn verði í hönd-
um Háskólans á Bifröst en gert
er ráð fyrir að fastir starfsmenn
sem ráðnir verða í verkefnið verði
fjórir sem dreifast um kjördæm-
ið. Hlutverk starfsmanna verði
að reka og þjónusta starfshópa,
framkvæma viðtöl, skipuleggja
heimsóknir, fundi og ráðstefnur.
Þá segir Vilhjálmur að til standi
að ráða 6-8 sumarstarfsmenn til
að vinna á vegum verkefnisins í
sumar.
hlh
Var stolt yfir fyrsta myndverkinu tveggja ára gömul
Hrönn Eggertsdóttir myndlistarkona sýnir nú í Akranesvita
Hrönn Eggertsdóttir á vinnustofu sinni í bílskúrnum við Hjarðarholt 10 á Akranesi.
Hrönn við hluta verka sinna á sýningunni í Akranesvita við opnuna sl. föstudag.
Vilhjálmur Egilsson er formaður verk-
efnisstjórnar.
Skoðað hvernig efla megi menntunarstig í Norðvesturkjördæmi
Stjórnvöld ráðast nú í átak sem miðar að því að hækka menntunarstig í Norð-
vesturkjördæmi. Myndin er frá kennslustund í Stóriðjuskóla Norðuráls fyrr á þessu
ári. Ljósm. þá