Bæjarins besta


Bæjarins besta - 31.01.2008, Blaðsíða 12

Bæjarins besta - 31.01.2008, Blaðsíða 12
FIMMTUDAGUR 31. JANÚAR 200812 „... sem stendur næ ég að skrapa saman nógu miklu til að þrauka. En það er bölvað puð. Gríðar- lega mikil vinna, en svo snýst þetta líka að miklu leyti um heppni - ég veit auðvitað sjaldan hvaðan ég fæ næst pening, og nánast aldrei hvenær ég fæ greitt fyrir verk. Ekki fyrir víst, í öllu falli. En ég hef átt góða að, sem hafa ráðið mig í stærri verk, svo sem bókaþýðingar, og svo hef ég verið að dunda mér í ýmsu öðru. Stundum fæ ég greitt fyrir að lesa upp, eða skrifa eitthvað um ljóðlist.“ Ljóðlistin er ekki til þess að gera lífið léttara - segir Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur frá Ísafirði, sem búsettur er í Finnlandi Eiríkur Örn Norðdahl rithöfundur frá Ísafirði er tæplega þrítugur að aldri og hefur verið áberandi í ís- lensku menningarlífi í allmörg ár. Nú um stundir er hann búsettur í Finn- landi ásamt þarlendri eiginkonu sinni. Hún heitir Nadja Sophie Teresa Wid- ell og þau gengu í hjónaband á liðnu sumri. Við spjölluðum saman um heima og geima í fyrstu viku hins nýja árs, Eiríkur Örn í Helsinki, undir- ritaður við Breiðafjörðinn. – Það er langt síðan þú komst til Finnlands í fyrsta sinn ... Ég kom hingað fyrst haustið 2001 og þá til þess að heim- sækja vin minn Dóra - Halldór Arnar Úlfarsson, myndlistar- mann og m.a. fyrrverandi starfsmann á Bræðratungu á Ísafirði - og vinkonu mína Nödju. Ég kynntist henni á vinabæjamóti á Túnsbergi í Noregi árið 1993 en þar var hún fulltrúi Linköping í Sví- þjóð. Hún fluttist síðar til Finnlands, enda af alfinnskum ættum. Þá vann ég hér í nokkra mánuði, þreif fylleríisferjur og eldaði hádegismat ofan í leik- skólabörn og burðaðist með timbur og ýmislegt annað til- fallandi, og kunni vel við mig og ætlaði að staldra við. Jahve peninganna Foreldrar mínir buðu mér heim í jólafríinu, en þar biðu mín slíkir reikningar og hótan- ir að ég varð að takast á við það. Sjálfur er ég lítill trú- maður á peninga yfir höfuð, en virði það þó við aðra - og þegar skuldir mínar eru við það að lenda á öðru fólki er ég reiðubúinn að gera nokkurn veginn hvað sem er til að valda ekki því trúfólki ama í sam- skiptum sínum við sinn Jahve. Ég sem sagt fékk gamla herbergið mitt í Sundstrætinu á Ísafirði og þrælaði mér út í nokkra mánuði og ætlaði alltaf að koma til baka hingað til Finnlands. Á næstu árum kom ég í nokkrar heimsóknir hingað út. Meðal annars var mér boðið á ljóðahátíðina Runokuu (Ljóða- mánuðurinn / Ljóðamáninn) sumarið 2006. Þá fórum við gamla vinkona mín að draga okkur saman, þó það yrði ekki alvarlegt fyrr en um jól þegar hún kom í heimsókn heim. Ég bað hennar í febrúar í fyrra, ég flutti hingað í apríl og við giftum okkur í ágúst. Reyndar ætlum við líklega að vera á Íslandi næsta sumar, ef Nadja fær vinnu, og svo förum við líklega héðan eitt- hvert annað eftir eitt ár eða svo. Þá verður frúin búin í námi og spurning um ýmislegt - meðal annars Svíþjóð, Holland, Moskvu, Berlín og fleiri spenn- andi staði til að eiga heima. Pappírsörkin ... – Ertu í fullu starfi sem skáld og rithöfundur og þýð- andi eða fæstu við eitthvað annað óskylt? Geturðu lifað af ritstörfunum? Já, sem stendur næ ég að skrapa saman nógu miklu til að þrauka. En það er bölvað puð. Gríðarlega mikil vinna, en svo snýst þetta líka að miklu leyti um heppni - ég veit auð- vitað sjaldan hvaðan ég fæ næst pening, og nánast aldrei hvenær ég fæ greitt fyrir verk. Ekki fyrir víst, í öllu falli. En ég hef átt góða að, sem hafa ráðið mig í stærri verk, svo sem bókaþýðingar, og svo hef ég verið að dunda mér í ýmsu öðru. Stundum fæ ég greitt fyrir að lesa upp, eða skrifa eitthvað um ljóðlist. Á dögun- um gerði ég útvarpsþátt um hljóðaljóðlist fyrir RÚV. Það fer óttalega mikill tími í að leita sér að verkefnum sem maður fær greitt fyrir. Því eilífðin borgar ekki neitt. Ein- hver benti á að auð pappírsörk hefði garanterað gildi, hana er alltaf hægt að selja fyrir pening. En strax og maður prentar ljóð á örkina er hún orðin verðlaus, ef hún rænir mann ekki beinlínis pening- um. Tilraunastarf – Hver er að þínum eigin dómi sérstaða þín á sviði bókmennta? Jahérna hér. Það er ekki létt að segja. Ætli ég leggi ekki meiri áherslu á tilraunamenn- sku en flest núlifandi íslensk skáld - ég hef mikinn áhuga á að taka tungumálið í sundur. Er eiginlega hrifnari af kakó- fónískum setningum en óm- þýðum - og skil satt að segja ekki allar þessar lofræður um „unaðslegan prósa“ og hvað það heitir. Það er bara annar Da-Vinci handleggur, önnur trixbók. Íslenskar bókmenntir - og þar með talin ljóðin - eru smám saman að breytast í riddarasögur, eða einhvers konar rauðar ástarsögur. Allt þetta paþos tour-de-force til- finningaklám er svo sem nógu vel gert, stundum svo að manni svimar af afrekinu. En það situr ekki lengi í manni. Það breytir engu um veröld- ina. Hefur ekki teygt á merk- ingarvefnaði samfélagsins. Og er þannig ekki beinlínis „list“ í þeim allra þrengsta skilningi - heldur einmitt af- þreying. Jónas þá og nú – Þú ert sumsé lítið fyrir að feta troðnar slóðir ... Ég er kannski lítið fyrir samferðamenn - finnst ágætt að vera einn. En í raun er ég mjög hrifinn af hefðinni, og vil heldur gera „eins og“ hefð- armennirnir en að herma eftir þeim. Það er - ég vil vera eins og Jónas, en ég vil ekki skrifa sonnettur. Ég vil vera í kontakt við það sem er að gerast í heims- bókmenntunum, það sem er að gerast í framúrstefnunni. En ég vil ekki herma upp það sem var róttækt fyrir 150 ár- um. Enda er það auðvitað merkilegt - að sá skilningur er annar. Það er ekki sams konar manneskja sem les Baudelaire árið 2007 og gerði á meðan hann lifði. Baudelaire var á sínum tíma íkonaklastur, hann breytti veruleikanum sem hann bjó í og var fyrirlitinn fyrir vikið - líkt og Jónas fyrir að níða Breiðfjörð - en þeir sem lofa Jónas og Baudelaire í dag eru meira og minna íhaldslúðar sem halda að þeir kumpánar hafi líka verið íhaldslúðar en ekki krefjandi byltingarmenn. Að skilja ljóðlist – Hvernig er með þitt föður- land, Ísafjörð - ertu spámaður í þínu föðurlandi? Skilur ein- hver á Ísafirði kakófóníu og allt það? Mér skilst nú að bókin mín hafi selst ágætlega í Bókhlöð- unni, það þurfti í það minnsta að panta hana inn tvisvar. En ágæt sala á ljóðabók eru ekki mörg eintök, svo það er kann- ski ekkert stórmál. Ljóðlistin er ekki allra, og ekkert við því að gera. Ljóð- listin er þeirra sem eru tilbúnir til að gefa henni tíma sinn og orku, og hún er krefjandi og erfið - og auðvitað algerlega þess virði. En hún er ekki þarna til þess að gera lífið léttara, heldur einmitt til að gera það erfiðara. En með heimafólkið - ég held að fólk skilji almennt ekki ljóðlist almennilega, því það leggur sig ekki fram um það. Hún er erfið. Það á jafnt við um fólkið í Króknum og í 101. Ég held hins vegar að Ís- firðingar haldi kannski frekar að ég sé skrítinn maður en skrítið ljóðskáld, enda er tveggja metra maður með hatt frekar skrítilegur ásýndar, og áberandi í litlum bæ. Fólk horfir á mig úti á götu hér í Helsinki - en ekki sama mann- eskjan fimmtán sinnum á dag eins og heima. Ég held það hafi verið Leevi Lehto sem sagði að ekkert sem hefði upphaflega vakið áhuga fleiri en sjö manns hefði nokk- ru sinni breytt vitund alþýð- unnar.

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.