Bæjarins besta


Bæjarins besta - 18.12.2008, Blaðsíða 8

Bæjarins besta - 18.12.2008, Blaðsíða 8
FIMMTUDAGUR 18. DESEMBER 20088 Jólin eru hátíð ljóssins, fæðingarhátíð Jesú Krists, sonar Guðs og frels- ara mannkyns. Ljós og boðskapur jólanna hjálpa okkur að bægja myrkr- inu frá einmitt þegar það er svartast og þegar jólahátíðinni er lokið fer daginn smám saman að lengja og líða fer að hinu langþráða vori. Á jólum viljum við gleðjast, styrkja fjölskyldu- og vinabönd með því að fagna þeim undarlega og í raun óskiljanlega atburði að Guð sjálfur skildi fæðast inní okkar heim sem lítið barn í Betlehem. Við gefum gjafir til þess að sýna ást- vinum okkar með áþreifanlegum hætti að okkur þyki vænt um þá. Það sama gerði Guð, hann gaf okkur jólabarnið sem fæddist í Betlehem fyrir löngu síðan. Nú er kominn sá tími að Jesúbarnið fæðist að nýju í hjörtum okkar, guðssonur með eilíft líf handa öllum sem trúa á nafn hans Jesúbarnið litla sem fæddist í jötunni er frelsarinn sem fæðist í hjarta okkar að nýju um hver jól. Sú gjöf gefur okkur þrótt til að takast á við það sem mætir okkur í þessum erfiða heimi. Sú gjöf er bjargið sem byggja má á, gjöf sem færir frið í hrjáða sál. Sú gjöf er svo mögnuð að við getum jafn- vel dáið í þeirri vissu að lífið haldi áfram á bjartari og fegurri stað. Er ein- hver önnur gjöf sem gefur okkur kraft til að takast á við vonbrigði, erfið- leika, veikyndi, sorg og einmannaleika í þeirri vissu að við erum ekki ein heldur höfum við drottinn okkar og frelsara við hlið okkar? Engin gjöf er svo mikilfengleg nema gjöf Guðs. Jólin eru hátíð frelsarans, sem kom til þess að leiða mannkyn frá myrkr- inu til ljóssins, frá dauða til lífs. Boðskapur hans var sá að Guð elskaði hverja manneskju og okkar hlutverk væri aðeins að elska Guð og náungann. Kærleiki Guðs er ekki eitthvað sem við höfum unnið okkur inn fyrir. Guð ákvað einfaldlega að elska okkur og ekkert sem við gerum getur breytt honum. Gjöfin hans til okkar er hans eigin sonur, gjöf lífs og frelsis, minn- umst þess nú á aðventu og jólum þegar við leyfum Jesúbarninu að fæðast að nýju í hjörtum okkar. Jólin minna okkur á þennan einfalda boðskap og einnig á það að Guð hefur ekki sleppt hendi sinni af okkur. Guð vitjar okkar stöðugt á ný því Kristur er eilífur og stöðugt nærri. Boðskapur jólanna fjallar um það hvernig við getum gert heiminn að betri stað þar sem trúin, vonin og kærleikurinn eiga heima. Að fylgja Kristi er að gera það sem hann gerði og reyna að líkjast honum. Að fylgja Kristi er að elska Guð og náungann og þá kemur annað af sjálfu sér. Frelsari okkar sem fæddist á jólum, lifði og dó fyrir kærleika sinn og reis upp í dýrð vill vera með okkur í öllum sem við tökum okkur fyrir hendur. Hann er með okkur í verki og mun leiða allt líf að eilífu markmiði sínu, reisa það upp og gjöra heilt og skapa nýjan himinn og nýja jörð. Guð gefi okkur öllum gleðileg jól. Sr. Fjölnir Ásbjörnsson, sóknarprestur í Holti Jólahugvekja

x

Bæjarins besta

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bæjarins besta
https://timarit.is/publication/1104

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.