Morgunblaðið - 15.01.2015, Side 86
86 MENNING
MORGUNBLAÐIÐ FIMMTUDAGUR 15. JANÚAR 2015
Klettagörðum 5, 104 Reykjavík | stolpi@stolpigamar.is
Gámaleiga
Er gámur lausnin fyrir þig?
Við getum líka geymt gáminn fyrir þig
568 0100
stolpigamar.is
HAFÐU
SAMBAND
Búslóðageymsla ❚ Árstíðabundinn lager ❚ Lager ❚ Sumar-/vetrarvörur
Frystigeymsla ❚ Kæligeymsla ❚ Leiga til skemmri eða lengri tíma
Benedikta Br. Alexandersdóttir
benedikta@mbl.is
ErkiTónlist sf. hlaut nýverið tæpar
níu milljónir íslenskra króna í styrki
frá norrænum sjóðum fyrir sam-
norræna tónlistar- og dansverkefnið
CALMUS Waves. Verkefnið hefur
meðal annars notið stuðnings
Tækniþróunarsjóðs Rannís hér á Ís-
landi á undaförnum árum.
Verkefnið byggist á tónsmíða-
hugbúnaðinum CALMUS en Kjart-
an Ólafsson tónskáld er höfundur og
hönnuður hugbúnaðarins og kemur
til með að stýra verkefninu. Með
hugbúnaðinum er leitast við að
tengja ólík listform saman, líkt og
dans og tónlist, og býður hann upp á
nýja aðferð til þess að semja tónlist.
Geta listamenn úr ólíkum list-
greinum því komið saman og unnið
að heildstæðu listaverki í samein-
ingu. Tónskáld semja grunnefni og
umgjörð tónverksins en dansarar að-
stoða við tónsmíðina og stýra fram-
vindu tónlistarinnar með hreyf-
ingum sínum. Tónsmíðin fer því
fram í rauntíma en dansararnir eru
með sérstaka nema á sér sem senda
frá sér skilaboð til hugbúnaðarins við
ákveðnar hreyfingar. Þannig táknar
ákveðin hreyfing róleg tónbrot en
önnur dramatísk tónbrot. Dans-
ararnir njóta því mikils frelsis og eru
ekki bundnir tímasetningum eða
takti hljómsveitarstjórans og geta
stjórnað þróun tónsmíðaframvind-
unnar sjálfir. Auk þess geta þeir haft
áhrif á sjónræna þætti verksins með
því að stjórna myndefni og lýsingu
með hreyfingum. Þessi aðferð hefur
aldrei verið notuð áður á sambæri-
legan hátt og gefur dönsurum meira
frelsi í listrænum flutningi og sköp-
un en áður hefur þekkst. Mun hópur
tónskálda, danshöfunda, tónlistar-
manna og dansara setja upp sýningu
í Reykjavík árið 2016 þar sem upp-
lifa má afrakstur verkefnisins.
Áratugalöng þróun
Um er að ræða einhvers konar
form spunalistar þar sem tónverkið
tekur sífelldum breytingum á meðan
á tónsmíð og flutningi þess stendur.
Skilaboðin sem hugbúnaðurinn fær
frá dönsurunum eru send þráðlaust
og breytast umsvifalaust í tónefni.
Notast er við iPad til að sjá nóturnar
á grafísku formi og geta hljóðfæra-
leikarar því spilað eftir þeim um leið
og þær berast.
Kjartan, höfundur og hönnuður
CALMUS, hefur unnið að og þróað
hugbúnaðinn frá því á tíunda áratug
síðustu aldar.
„Hugmyndina fékk ég þegar ég
var í námi en ég hafði mikinn áhuga
á að nota tölvur og stærðfræði til
þess að semja tónlist, líkt og hefur
verið gert í gegnum aldirnar. Í lok
síðustu aldar urðu svo miklar fram-
farir að það hleypti lífi í verkefnið
sem hefur verið að þróast síðan,“
segir Kjartan.
Flókið undirbúningsferli
Mikill áhugi er fyrir hugbún-
aðinum, að sögn Kjartans. Forritið
gengur út á gervigreind sem gerir
því kleift að taka þátt í því sem er að
gerast og taka þátt í framvindunni.
„Þetta þykir mjög spennandi í flest-
um samfélögum og þess vegna
fannst okkur passa að ráðast í verk-
efnið af fullum krafti núna,“ segir
hann.
Í vikunni kom út smáforrit fyrir
snjallsíma sem nefnist CALMUS
Play en um er að ræða leikútgáfu af
forritinu þar sem áhugasamir geta
samið tónlist fyrir hin ýmsu hljóð-
færi en forritið gætir að hljómblæ og
framvindu tónverksins. Í bígerð er
svo hugbúnaður fyrir tölvu-
leikjamarkaðinn, CALMUS Gaming,
og fyrir kvikmyndir, CALMUS Mo-
vies.
Undirbúningstímabilið fyrir sýn-
inguna á næsta ári er nú þegar hafið
og er langt og flókið að sögn Kjart-
ans. „Nú förum við að funda og
ákveða hvernig hljóðin verða til í
samvinnu við dansarana. Við þurfum
að láta sérsmíða nema fyrir þá svo
það sé auðveldara að taka við hreyf-
ingunum og forrita mjög mikið til
þess að læra á hreyfingar dans-
aranna. Kúnstin er að kortleggja
hreyfingarnar og búa til skiljanlegar
skipanir fyrir kerfið. Þetta er mjög
tímafrek vinna en hún kemur einnig
til með að nýtast á mörgum sviðum.“
Dansarar færir í tónsköpun
Kjartan segir þá sem koma að
verkefninu mjög spennta fyrir fram-
haldinu enda sé verkefnið öðruvísi
og skemmtilegt.
„Dansararnir eru sérstaklega
ánægðir með þetta. Þeir eru svo van-
ir að vinna með takt og tímasetn-
ingar þannig að þeir eru ótrúlega
næmir fyrir því hvernig og hvenær
það hentar að skipta um tónbrot.
Þjálfun þeirra fellur mjög vel að tón-
sköpun. Við höfum verið að vinna
með Listaháskóla Íslands við að
prófa og þróa kerfið en við verðum
með óvæntar uppákomur hér og þar
svo það verði allt tilbúið fyrir sýn-
inguna á næsta ári,“ segir Kjartan. Á
þriðja tug manna kemur að sýning-
unni og má þar nefna Huga Guð-
mundsson tónskáld, Tinnu Þor-
steinsdóttur píanóleikara, Védísi
Kjartansdóttur dansara og dans-
húsið MuteComp undir stjórn Ka-
sper Ravnhöj. Má ætla að sýningin
verði einkar glæsileg og upplifunin
fyrir marga einstök.
Dansarar semja tónverk í rauntíma
Hugbúnaður
gerir kleift að
semja tónlist með
hreyfingum
Morgunblaðið/Ómar
Skapari Kjartan Ólafsson tónskáld er höfundur og hönnuður Calmus. Hann byrjaði að þróa hugbúnaðinn á 10. áratug síðustu aldar þegar hann var í námi.
Dans Sérstakir nemar eru festir á dansarana sem gerir þeim kleift að semja
og stjórna framvindu tónlistarinnar á rauntíma með hreyfingum sínum.
Spuni Aðferð sem þessi hefur aldrei áður verið notuð á sambærilegan hátt
og gefur dönsurum nýtt og aukið frelsi í listrænum flutningi og sköpun.