Húnavaka - 01.05.1969, Side 15
HÚNAVAKA
13
skyldu svara játandi. Brúðguminn var spurður á undan. Spurn-
ingarnar voru þessar:
1. spurning: N. N. ég spyr yður: Hvort þér hafið ráðfært yður við
Guð á himnum og við yðar eigið hjartalag, og þar eftir við frændur
yðar og vini um að taka þessa mey (konu), sem hjá yður stendur,
yður til eiginkonu?
2. spurning: Hvort þér viljið breyta svo við hana, bæði í meðlæti
og mótlæti og hverjum þeim kjörum, sem Guð almáttugur lætur
yður að höndum bera, eins og sérhverjum dánumanni ber að breyta
við eiginkonu sína?
3. spurning: Hvort þér vitið yður lausan við að hafa heitið nokkr-
um kvenmanni, sem nú lifir, eiginorði, sem geti verið þessu til fyr-
irstöðu?
Þessu næst spurði presturinn brúðina sömu spurninga, en auðvit-
að með viðeigandi breytingum, þegar hann beindi þeim til konu.
Vanalega tókst brúðhjónunum vel að svara þessum spurningum,
þótt sú síðasta kæmi ekki sem bezt við alla.
A eftir var sunginn sálmur, sem ekki var alltaf sá sami.
Þá var gengið út úr kirkjunni. Brúðhjónin gengu fyrst og leidd-
ust. Síðan komu vandamenn þeirra og svo hver af öðrum. Nú var
brúðargangurinn ekki lengur til hindrunar og var gengið talsvert
greitt frá kirkjunni.
Þá var næst fyrir að leggja á hestana og síðan þeysa til veizlustað-
arins. Svipurnar voru reiddar hátt og ekki sparað að berja fótastokk-
inn. Allir vildu hraða sér að komast þangað, sem þeir vissu gnægð
matar, því að margir voru farnir að finna ónotalega til svengdar.
Það er þó ekki hér með sagt, að allir hafi tekið ofsareið til veizlu-
staðarins. Flestir fóru hóflega og ræddust jafnvel rólega við á leið-
inni.
VII.
Þegar komið var á veizlustaðinn, tóku frammistöðumenn á móti
gestunum og skipuðu þeim niður í sæti. Þetta starf þeirra var vanda-
samt og heldur óvinsælt, þó að heiður þætti að því. Þess varð vand-
lega að gæta, að enginn móðgaðist og þætti sér skipað til sætis, sem
var óæðra því, er hver og einn taldi sig eiga tilkall til. Ef boðið var
fjölmennt, gat oft farið langur tími í það að raða niður til borðs.