Húnavaka - 01.05.1969, Qupperneq 17
HÚNAVAKA
15
hinum lasna til baðstofu. Á leiðinni veittu burðarmennirnir því
athygli, að lummur voru að detta úr vasa mannsins. Þegar þeir
höfðu hagrætt honum, forvitnuðust þeir í vasa hans. Segir sagan,
að þeir hafi fundið samtals 20 lummur með sykri og sýrópi! — En
ekki meira um það.
Borðhaldið tók að sjálfsögðu langan tíma. En þegar menn höfðu
matazt, var sunginn borðsálmur, og varð oftast fyrir valinu borð-
sálmurinn: „Guð vor faðir, vér þökkum þér“. Að loknum söngnum
kvaddi frammistöðumaður sér hljóðs og venjulegast var að hann
segði:
„Heiðarleg brúðhjón þakka öllum hingað komnum og biðja alla
að fyrirgefa það, sem áfátt hefur kunnað að vera, og óska öllum
heiðarlegum boðsgestum góðrar heimferðar".
En heimferðin var samt ekki alveg á næstu grösum, því að nú
hófst púnsdrykkjan. Þá var venja, að presturinn héldi ræðu. og var
það kallað „að mæla fyrir brúðhjónabollanum eða hjónaskálinni".
Þessar ræður þóttu yfirleitt nokkuð misjafnar. Stundum var talið,
að þær væru litaðar af því, hversu mikils presturinn mátti vænta
að brúðguminn greiddi sér fyrir hjónavígsluna. Sú greiðsla var
kölluð „púsunartollur", en síðar varð það „pússunartollur“, og er
kallaður það enn í dag, einkum þó af eldra fólki. — í þessu sam-
bandi vil ég geta jress, að áður fyrr var unnusta eða festarmær köll-
uð „púsa“. „Að púsa“ mun þá hafa þýtt að kvænast unnustu sinni
eða festarmey. En svo var farið að tala um „að púsa“ í merkingunni
að gefa saman í hjónaband. — Jæja, en púsunartollurinn var ákveð-
inn með lögum, það er staðreynd, sem ekki verður gengið framhjá,
að flestir, einkum þeir efnaðri, greiddu jafnvel margfalda þá upp-
hæð, sem þeim bar að greiða að lögum. Eru til frásagnir af slíkum
greiðslum, sem eru með ólíkindum. En út í það skal ekki farið hér.
Þegar presturinn hafði lokið skálaræðu sinni, hófst drykkjan fyrir
alvöru hjá þeim, sem mætur höfðu á slíku. Þegar menn fóru að
verða allmikið drukknir, kom það oft fyrir, að einhver veizlugest-
urinn bað um orðið og flutti brúðhjónunum heillaóskir sínar og
sinna. Ósjaldan kom það fyrir, að þessar ræður — ef ræður skyldi
kalla — voru ruglingslegt ölæðisþvaður og jafnvel kom það fyrir,
að einstaka þeirra voru hrein og bein veizluspjöll. Margt var um-
borið af slíku, enda reynt í lengstu lög að halda veizlugleðinni. Þó
eru þekkt dæmi þess, að brúðkaupsveizlu hafi lokið með áflogum,