Húnavaka - 01.05.1969, Page 71
HÚNAVAKA
69
En frá því er hún, yngsta dóttir ástríkra foreldra, fór að heiman,
höfðu hamslausar holskeflur á miskunnarlausu hafi lífsins gengið
yfir hana svo ótt, að hinar fíngerðu taúgar hennar voru lamaðar
og slitnar. Fyrst og fremst var ferðin frá íslandi með þrjú lítil börn,
sjóveiki, vosbúð og alls konar erfiðleikar; þá dó elzta barnið, svo
tók við taugalamandi tímabil í Norður-Dakóta, þá er Einar var
fjarverandi í vinnu og hún ein með börnin. Fyrsta sumarið dundu
yfir aftaka þrumuveður svo að ætla mátti að heimsendir væri í nánd,
því slíkt þekkti hún ekki á íslandi; útlendir förumenn ruddust inn
í húsið, óboðnir, og heimtuðu mat og föt á máli sem hún ekki
skildi; hún skildi aðeins að þeir vildu henni og börnunum hennar
eitthvað illt! Þar næst var hrakningurinn til Nýja-íslands. Ókunnug
máli landsins ferðaðist hún með fjögur börn í lest til Winnipeg, svo
á bát eftir Winnipegvatni til Hnausa og seinasta áfangann, tíu míl-
ur vestur að Ardal, á sleða í kuldaveðri. Einar fór fótgangandi alla
leið frá Norður-Dakóta og rak nautgripina sína, þessar fáu skepnur,
sem voru öll þau auðæfi, sem þeim hafði hlotnazt í hinu nýja landi.
Og nú að síðustu, ástvinamissirinn, allsleysi, veikindi og algerð
örvænting. Og öldurnar lukust yfir höfði hennar og lokuðu úti hinn
síðasta geisla Guðs náðar. Og hinn síðasti neisti hennar eigin hug-
rekkis og sjálfsdáðar? Var hann líka að kulna og devja út nú, er
mest lá á? Henni syrti fyrir augum og ógurlegur niður þrengdi sér
inn að hlustum hennar og hún vissi ekki af sér. . . .
„Gráttu ekki Ástríður mín!“ Hún var þá komin heim til Islands;
það var Rannveig, móðir hennar, sem var að tala um fyrir henni,
með hinni sömu, blíðu ró, festu og trúnaðartrausti, sem hafði ein-
kennt liana alla daga og gert hana að bjargföstum verndarvætti
allra, sem bágt áttu í sveitinni. — „Gráttu ekki. íslenzk hetja leggur
ekki árar í bát þótt róðurinn gerist þungur. Með hverri aflraun vex
þróttur og manndómur þjóða og einstaklinga. Og gleymdu ekki,
Astríður mín, hvað það er, sem hefir veitt okkur íslendingum kjark
og þrek í baráttu lífsins: það er hin óbifanlega trú á Guð og hans
handleiðslu sem við vitum að aldrei bregzt.“
„Mamma. . . . mamma. Ég er svo þyrst!“ Ástríður hrökk upp
með andfælum og ætlaði að þjóta inn koldimm göngin. En áttáði
sig fljótt. Hún var ekki í göngunum heima í Lækjardal; það var
Rannveig litla sem var að kalla, og það var orðið aldimmt og kalt
inni.