Húnavaka - 01.05.1969, Side 147
HÚNAVAKA
145
hönd, en þótt inni væri þröngt var oft giatt á hjalla, að sögn. Hús-
freyja lét þá hugann reika suður yfir heiðar og minntist æsku sinn-
ar í höfuðstaðnum. Hún brá upp fyrir börnum sínum vmsum mynd-
um af lífinu í Reykjavík; þær voru eins og fögur ævintýri. Hún
taldi kjark í barnahópinn sinn og var rík í fátækt sinni. —
En Þuríður lifði það að sjá búskapinn blómgast á litlu jörðinni,
sem einu sinni var. Myndarlegar byggingar hafa risið þar og feikna-
mikil ræktun hefur verið framkvæmd á túni og engjum, svo óvíða
munu hafa orðið önnur eins umskipti á ekki stærri jörð. Það er
hverjum manni gleðiefni að sjá fagra drauma rætast. — Það kom að
því, að draumur Þuríðar rættist. Hún sá litlu jörðina verða stór-
býli og börnin 10 verða mesta myndar- og atgervisfólk.
Sigurður á Litlu-Giljá var talinn búhygginn maður og dáðust
margir að því, hvernig hann komst af með svo stórt heimili. En þar
hjálpuðust allir að. Húsfreyjan var dugleg til verka og verkhög og
svo voru börnin fús á að hjálpa til, strax og kraftar leyfðu; þar hjálp-
uðust allir að. — Sigurður var heilsulítill um langt árabil og andað-
ist vorið 1955. — Elzti sonurinn, Magnús, tók við bústjórn, þegar
heilsu Sigurðar hnignaði og býr hann nú stórbúi á föðurleifð sinni.
Þarf ekki annað en líta þar heim til að sjá hvernig honum hefur
farizt þar bústjórnin. — En hann hefur ekki verið einn; móðir hans
og yngsta barnið, Guðrún, hafa stutt hann dyggilega við búskapinn.
Reyndust þau, systkinin, móður sinni afar vel í löngum og erfiðum
veikindum. Sarna má segja um öll börnin, þau voru samhent um
að vilja létta móður sinni þungar sjúkdómsþrautir.
Ég heimsótti Þuríði síðasta sumarið, sem hún lifði. Þá hafði ég
ekki komið að Litlu-Giljá í nokkur ár. — Mikil var breytingin bæði
i'iti og inni. Þnríður var kát og hress, þó levndi sér ekki að hverju
fór. Hún sagðist bráðum fara suður til að hitta lækni, það varð
hennar síðasta suðurferð. En hún brá fyrir sig gamansemi og lét
sem ekkert væri að. Spjallaði um garðinn sinn, hvernig hún ætlaði
að breyta honum næsta vor og bæta í hann nýjum gróðri. Sýndi mér
handavinnuna sína, sem hún þyrfti að ljúka af fyrir jólin; það var
ekki að heyra neitt vonleysi. Hún fór suður, en kom norður aftur
helsjúk, og lézt á liðnu sumri eins og fyrr getur.
Jarðsett var á Þingeyrum þ. 26. júlí. Veður var kyrrt og hlýtt,
nokkrir hlýir dropar féllu úr lofti í lok húskveðjunnar í garðinum.
Það fór vel á því að kveðja hana í blómagarðinum; þangað hafði
10