Húnavaka - 01.05.1974, Page 21
HÚNAVAKA
17
ORSAKIR LANDNÁMSINS
Því er mjög á lofti haldið — einkum í skálaræðum og á þjóðhá-
tíðardögum — að landnámsmenn hafi flúið Noreg undan ofríki
Haralds liárfagra og' numið ísland til að geta haldið þar frelsi sínu.
Ýmislegt er við þetta að athuga. Að vísu er þess getið um suma land-
námsmenn, að þeir hafi fjandskapast við Harald konung, en margir
voru taldir vinir hans, t. d. Ingimundur gamli. Nokkrir flúðu undan
fjandskap einhverra voldugra höfðingja annarra en konungsins og
einhverjir hafa farið af ævintýraþrá, eða einfaldlega vegna land-
þrengsla heimafyrir. Um fæsta landnámsmenn er þess raunar getið,
af hvaða orsökum þeir fluttust til íslands.
Sögur um ofríki Haralds hárfagra munu mjög orðum auknar, því
hann hefur einfaldlega ekki haft bolmagn til neinna verulegra stór-
virkja. Til þess var konungsvaldið of veikt. Konungsvald í Noregi
fór ekki að eflast að rnarki fyrr en á 12. og 13. öld. Annað mál er það,
að innanlands ófriður hefur verið nokkur í Noregi á þessum tímum.
Styrjaldir ættbálka og stétta, og óöld, sem fylgt hefur víkingaferð-
unum, ásamt baráttu hins unga konungsvalds hafa gefið bardaga-
mönnum ærin verkefni.
Þessi átök má að einhverju leyti rekja til vaxandi fólksfjölda og
landþrengsla. Byggðasagan sýnir fram á mikla nýbyggð á Norður-
löndunum á víkingaöld og víkingaferðirnar orsakast að einhverju
leyti vegna þrengsla heimafyrir. Fjöldi norrænna manna settist að í
löndum þeim, sem víkingar herjuðu og gerðust þar friðsamir bænd-
ur. Mörg lönd máttu teljast norræn langa hríð: Orkneyjar, Hjalt-
land, Norður-Skotland, Norðymbraland o. fl. Landnám íslands verð-
ur þá eðlilegur hluti af nýbyggingu, landnámi og víkingu norrænna
þjóða.
Um 1000 linnir útþenslu norrænu þjóðanna að mestu. Kannski
hefur þá dregið úr fólksfjölgun, en aðrar orsakir eru einnig hugsan-
legar, t. d. breytingar á þjóðfélagsháttum og harðari mótspyrnu
kristinna þjóða sunnar í álfunni.