Húnavaka - 01.05.1974, Side 67
HÚNAVAKA
63
bókfell, með fornum fræðum og meðal þeirra ýmsar spásagnir Þór-
dísar.
Fyrir dauða sinn lét Þórdís kistu sína inn í mitt klettabelti Spá-
konufellsborgar, kórónu fjallsins, vestanmegin.
Gulllykill stendur í skránni. Lét Þórdís svo um mælt, að hver sá
ættingi sinn er klifið gæti klettabeltið skyldi eignast kistuna og allt,
sem í henni er. Tilskilið er að maður sá megi engin hjálpartæki
hafa, aðeins neyta lianda og fóta.
Og eftir að lifað hefðu 33 ættliðir frá spákonunni, og enginn leyst
þrautina, áttu fyrirheitin að falla úr gildi og kistan hverfa. Þrautin
mun enn óleyst, og þegar verður hver síðastur.
SPÁKONUFELLSBORG
Kórónu berðu kletts með dýrðar gliti,
kvöldsins roða, hafs við sólar-bál.
Kistuna geymir trútt, með völvu-viti,
vísdóm feðra, gullið tungumál.
Drottning ert fjallanna, fögur og tigin,
Fjallanna björg eru sterkustu vígin.
Er sunna rís af sæng, frá Ægis-barmi,
og sonur Dellings bjarmar himininn.
Dísir vorsins fagna í fjalla-armi,
og fuglahjörðin, hljómar söngurinn.
Þá sáldrar gulli, sól á krónu þína.
Á svellandi brjóstum daggarperlur skína.
Er fornmenn sigldu, í sókn á ystu miðin,
settu þeir mark á Fell og Leynidal.
Þar blómastóð og bjarkir áttu griðin,
en blómálfarnir gistu hamra-sal.
Þitt letrað nafn í sögu og sögufræðin,
er sveipað fornri vizku, tengt við græðinn.