Ægir - 01.08.2014, Page 100
96
„Við erum framhaldsskóli í stóru og rót-
grónu sjávarútvegsplássi og starfsemi
skólans tekur talsvert mið af því. Sjávar-
útvegurinn þarf á mjög fjölbreyttu starfs-
fólki að halda og við komum til móts við
þarfir greinarinnar með bæði almennu
bóknámi og vélstjórnarnámi,“ segir
Helga Kristín Kolbeins, skólameistari
Framhaldsskólans í Vestmannaeyjum.
Skólinn var stofnaður árið 1979 og eru
nemendur á haustmisseri um 260 tals-
ins.
Útskrifast með A og B réttindi
Helga Kristín segir marga af nemendum
skólans starfa í sjávarútvegi að námi
loknu. Sjávarútvegsfyrirtækin eru
stærstu atvinnurekendurnir í Eyjum og
flest atvinnutækifærin í Eyjum tengjast
sjávarútvegi. Nemar í vélstjórn fara alla
jafna beint til starfa í greininni að loknu
námi í skólanum og margir nemendur í
bóknámi nýta sér námið sem grunn fyrir
frekara og sérhæfðara nám sem leiðir
gjarnan til starfa á sjávarútvegssviðinu.
„Vélstjórnarbrautin okkar er stór og
við útskrifum nemendur með bæði A og
B réttindi. Nemendur öðlast því með
námi hjá okkur réttindi til að gegna starfi
1. vélstjóra á skipum en auk námsins hjá
okkur þurfa þeir að sjálfsögðu að ljúka
siglinga- og starfstíma áður en þeir fá
réttindin. Við bjóðum einnig með reglu-
legu millibili upp á grunnnám rafiðna en
á því sviði vitum við að er mikil þörf fyrir
starfsfólk hjá sjávarútvegsfyrirtækjunum,
sem við eigum gott samstarf við. Það
eru að mínu mati mikil tækifæri fyrir ungt
fólk að mennta sig á sjávarútvegs-
sviðinu og fá áhugaverð störf í grein-
inni,“ segir Helga Kristín.
Starfsreynslan fæst metin
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum
hefur boðið upp á nám í skipstjórn en
Helga Kristín segir ásókn í það nám
mjög litla og hefur skólinn ekki útskrifað
skipstjórnarmenn síðan 2009 en þá út-
skrifuðust 5 skipstjórnarmenn frá skól-
anum. Mun meiri áhugi er á vélstjórninni
og skólinn er vel í stakk búinn til að
mennta fólk á því sviði, bæði hvað varð-
ar tækjabúnað og kennara. Í heild eru
nú um 40 manns í vélstjórnarnámi við
skólann.
„Nemendur okkar í vélstjórn eru
blandaður hópur hvað aldur snertir.
Sumir hafa reynslu úr greininni og geta
þá nýtt sér raunfærnimat til að fá sína
þekkingu metna og stytt þannig námstí-
mann. Þó ekki sé um verulega styttingu
náms að ræða er raunfærnimatið
ákveðin hvatning fyrir nemendur að fara
aftur í skóla og ljúka réttindanámi,“ segir
Helga Kristín.
Jafnframt staðnáminu er það stefna
Framhaldsskólinn í Vestmannaeyjum að
bjóða upp á valda áfanga vélstjórnar-
námsins í fjar- og dreifnámi. Helga Krist-
ín segir þann valkost ekki hvað síst nýt-
ast starfandi sjómönnum.
Vélstjórn líka áhugaverð fyrir konur
Meirihluti nemenda í vélstjórn í Fram-
haldsskólanum í Vestmannaeyjum kem-
ur úr Eyjum og þar á meðal er ein kona.
„Konum mun vonandi fara fjölgandi í
þessum greinum samhliða sífellt batn-
andi aðbúnaði um borð með tilkomu
nýrra skipa. Þrátt fyrir að vélstjórnarnám
opni mikil tækifæri á atvinnumarkaði
virðast flestir stefna að námi loknu út á
sjó enda í boði góð laun á skipaflotan-
um eins og er,“ segir Helga Kristín Kol-
beins skólameistari.
Nemendur á vélstjórnarbraut í Framhaldsskólanum í Vestmannaeyjum í smíðaáfanga í véla-
sal skólans.
Ásókn í nám
í vélstjórn
fiv.is
Framhaldsskólinn í
Vestmannaeyjum
Dalavegi 2, Vestmannaeyjum
skrifstofa@fiv.is