Húnavaka - 01.05.1991, Síða 130
128
HÚNAVAKA
Var langt liðið á kvöld er þeir komu í skálann, kaldir og þreyttir,
en ánægðir yfir að hafa fundið Flekku. Höfðu þeir verið sjö
klukkutíma á leiðinni ofan úr Svörtukvíslarupptökum, og þótti vel
gert hjá þeirri flekkóttu og syni hennar að þau skyldu ganga alla
þessa leið í einum áfanga, við slíkar aðstæður.
Menn höfðu hægt um sig þetta kvöld, enda þreyttir eftir erfiði
dagsins. Ekki hafði hcilsa mín batnað þennan dag, bættist nú við
svo mögnuð magaveiki að lílið eða ekkert þýddi fyrir mig að neyta
matar, og hélst það svo þann tíma sem eftir var af þessari ferð.
Næsta morgun var mánudagur 6. október, þá var stillt og bjart
veður en talsvert frost og kalt. Þann dag leituðum við út að Galtará
og gekk það vel. Vorum við komnir þangað um kaffileytið án þess
að verða varir við nokkra skepnu. Þangað komu tveir mótmenn,
þeir Þorleifur í Hvammi og Friðrik í Austurhlíð. Miðluðu þeir okk-
ur fréttum um kvöldið úr byggðinni, ogvið sögðum þeim í staðinn
af okkar ferðalagi.
Næsta morgun, sem var þriðjudagur 7. október, var komin suð-
læg átt. Frost var fyrst um morguninn, en svo þiðnaði og var farið
að rigna áður en við komum ofan að Fossum. Er skemmst frá því
að segja að þennan dag gerði góða hláku og hélst blíðutíð næstu
vikur á eftir.
Okkur gekk vel ofan að Fossum og fundum við bæði fé og hross
á þeirri leið. Vitað var um eitt lamb sem varð eftir á Blöndugili og
var það sótt nokkrum dögum síðar. Við komum að Fossum um há-
degisbilið, og fengum þar góðar móttökur. Oft hef ég komið á
þann bæ, bæði fyrr og síðar, en sennilega aldrei gert veitingum
þar eins lítil skil. Enda var þá svo af mér dregið að ég var mikið að
hugsa um að gefast upp, og kveið mikið fyrir að sitja á klárunum
út dalinn. Það mál leystist þegar til kom farsællega. Þegar við kom-
um í Fossa hafði Markús hringt heim til sín og beðið dóttur sína
að koma á bíl með kerru og sækja sig og hestana. Vildi hann endi-
lega að ég sæti í bílnum hjá þeim út dalinn og þáði ég það með
þökkum. Sleppti ég hestunum og lét þá skokka á undan bílnum út
dalinn. Voru klárarnir ósköp fegnir að komast heim, engu síður
en ég.
Lengi var ég að jafna mig eftir þessa ferð og minnist þess varla að
hafa fengið aðra eins pest. Eitthvað urðu ferðafélagar mínir varir
við hana líka, minnsta kost hefur Ingólfur á Bollastöðum sagt mér