Dagblaðið Vísir - DV - 28.11.2012, Blaðsíða 22

Dagblaðið Vísir - DV - 28.11.2012, Blaðsíða 22
S törf Styrmis Gunnarssonar, fyrrverandi ritstjóra Morgun­ blaðsins, á blaðinu virðast hafa átt lítið skylt við blaðamennsku ef marka má frásögnina í nýrri bók hans, Sjálfstæðisflokkurinn: Átök og uppgjör. Styrmir var miklu frekar einhvers konar kommissar eða full­ trúi fyrir Sjálfstæðisflokkinn á blaðinu en blaðamaður. Bók hans, og raun­ ar fjölmargt annað sem tengist hans störfum sem af skiljanlegum ástæð­ um er ekki í bók hans, er leiðarvísir um það hvernig ritstjóri á dagblaði sem vill gæta hlutleysis, virða hlutlægni og leita sannleikans á ekki að vinna. Bókin fjallar um þau átök sem upp komu í Sjálfstæðisflokknum, eftir frá­ fall Bjarna Benediktssonar árið 1970, um hver ætti að leiða flokkinn og atburðina sem leiddu til þess að Geir Hallgrímsson, formaður flokksins, missti formannsstólinn til Þorsteins Pálssonar árið 1983. Þá fjallar Styrmir um átökin um ráðherraembætti sem tóku við þar á eftir sem enduðu á því að Geir lét af störfum sem utanríkisráð­ herra fyrr en hann ætlaði sér árið 1985. Styrmir fjallar einnig um formanns­ tíð Þorsteins og Davíðs Oddssonar og reynir að greina í stórum dráttum hvað fór úrskeiðis hjá Sjálfstæðisflokknum og að lokum hvert flokkurinn ætti að stefna í framtíðinni. Bókin er því bæði eins konar uppgjör Styrmis við sögu Sjálfstæðisflokksins síðastliðin 30 ár og jafnframt pólitískt manifestó þar sem hann lýsir því hvernig Sjálfstæðis­ flokkurinn eigi að vera. Skuggaráðherra Styrmir reyndi að miðla málum í Sjálf­ stæðisflokknum, stýra atburðarás, lægja öldur – til dæmis á milli Þor­ steins Pálssonar og Geirs Hallgríms­ sonar – á sama tíma og hann stýrði mest lesna blaði landsins þar sem hann meðal annars fjallaði valkvætt um gerjunina í þessum stærsta stjórn­ málaflokki landsins. Styrmir var eigin­ lega eins og einn af ráðherrum flokks­ ins og vissi oft og tíðum betur hvað var að gerast í ríkisstjórninni en ýms­ ir ráðherrar hennar, til dæmis Sverrir Hermannsson. Sá dans stjórnmála og blaðamennsku sem hann virðist hafa reynt að stíga var illmögulegur; fyrir vikið var Styrmir eiginlega hvorki blaðamaður né stjórnmálamaður heldur einhvers konar bræðingur af þessu tvennu. Styrmir virti ekki helstu prinsipp hlutlægrar blaðamennsku og stundaði hagsmunagæslu sem að mínum dómi var „ógeðsleg“, svo notuð séu fræg orð hans sjálfs um eðli íslensks sam­ félags úr skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis: „Ég er búinn að fylgjast með þessu þjóðfélagi í 50 ár. Þetta er ógeðslegt þjóðfélag, þetta er allt ógeðslegt. Það eru engin prinsipp, það eru engar hugsjónir, það er ekki neitt. Það er bara tækifærismennska, valdabarátta.“ Enda sýnir bók­ in hversu rígtengdur Styrmir var við marga ráðamenn í Sjálfstæðisflokkn­ um, og einnig aðra valdsmenn, að hann hefur átt erfitt með að gæta hlut­ lægni. Á nokkrum stöðum í bókinni talar Styrmir um það hversu erfitt hafi verið fyrir hann að fjalla með gagn­ rýnum hætti um ákveðna einstakl­ inga í Mogganum vegna persónulegra tengsla við þá, til dæmis baráttu Þor­ steins Pálssonar og Davíðs Oddssonar um formannsstól Sjálfstæðisflokksins sem hann og Matthías Johannessen báru „hlýjan hug“ til: „Allt reyndi þetta á tilfinningalíf okkar ritstjóra Morgun­ blaðsins.“ Hlýhugur Styrmis Hlýhugur Styrmis í garð Davíðs er raunar svo mikill að hann eingöngu lofar manninn og hans verk; gagn­ rýni um Davíð er ekki að finna í bók­ inni þó ærin tilefni séu fyrir hendi. Styrmir þykist til dæmis ekkert vita um aðkomu Davíðs að því að hverfa frá dreifðri eignaraðild að Landsbank­ anum með því að selja hlut ríkisins í bankanum til Björgólfsfeðga árið 2003 eða brotthvarf Steingríms Ara Ara­ sonar úr einkavæðingarnefnd vegna sama máls. Þess í stað talar Styrmir um að sú „tilgáta“ hafi verið sett fram að Davíð hafi viljað skapa „mótvægi gegn Baugi“ með því að selja feðgun­ um bankann og bætir við: „Sterk rök gátu verið fyrir slíkri viðleitni“. Pólitísk spilling og einkavinavæðing er sem sagt í lagi ef hún þjónar hagsmunum Sjálfstæðisflokksins og Davíðs í barátt­ unni við Baug. Styrmir segir ýmislegt í þessum dúr í bókinni án þess að átta sig á því hvað felst í orðum hans. Þó staða Baugs í íslensku viðskiptalífi hafi ver­ ið sterk í upphafi aldarinnar þá rétt­ lætti þessi styrkur ekki handstýrða spillingu í boði Davíðs og Sjálfstæðis­ flokksins. Styrmir virðist hins vegar vera á annarri skoðun um þetta atriði enda má líka segja að ýmislegt annað sem hann segir í bókinni bendi til þess að hann telji tilganginn helga með­ alið og að hagsmunir eigi að trompa prin sipp í pólitík. Þannig stillir hann til dæmis sjálfum sér upp sem and­ stæðu Geirs Hallgrímssonar þegar kemur að prinsippmennsku í hugsun um stjórnmál: „Ég hvatti til pólitískrar tækifæris mennsku. Hann [Geir, innsk. blm.] gat ekki hugsað sér slíkt.“ Styrmir víkur heldur ekki orði að þeim deilum sem komu upp á milli hans og Davíðs vegna skrifa Sverris Hermannssonar í Moggann og þegir einnig um þær hót­ anir úr Valhöll sem hann varð fyrir vegna þessara skrifa. Styrmir og Davíð ræddust vart við í fimm ár vegna þessa. Um Þorstein er aðra sögu að segja og bregður Styrmir upp þeirri mynd af honum að formaðurinn fyrrver­ andi hafi stungið Geir Hallgrímsson þannig í bakið þegar hann kom hon­ um út úr ríkisstjórninni 1985 að Geir hafi aldrei fyrirgefið honum það. Í ljósi þess hversu góður og heilsteypt­ ur maður Geir var, samkvæmt Styrmi, er Þorsteinn því óhjákvæmilega einn helsti skúrkur bókarinnar sem gerði á hlut vandaðs manns. Styrmir vísar í einkasamtal við Geir, sem átti sér stað skömmu áður en hann féll frá árið 1990, þar sem Geir sagðist ekki geta mælt með þátttöku í stjórnmálum í ljósi þess hvernig farið hefði verið að honum nokkrum árum áður. Þá eru nokkuð gagnrýnar lýsingar á persónu Þorsteins sem ekki er að finna um Davíð; að mati Styrmis var Þorsteinn erfiður í samskiptum þegar hann var forsætisráðherra, þrjóskur, stífur og neitaði að tala við samráð­ herra sína, meðal annars Jón Baldvin Hannibalsson. Þegar þessar lýsingar Styrmis á Þorsteini eru lesnar finnst lesanda bókarinnar því auðvitað ekk­ ert athugavert við það þegar Davíð kemur honum úr formannsstólnum árið 1991. Eiginlega finnst lesand­ anum visst réttlæti í því miðað við framkomu Þorsteins í garð Geirs sex árum áður og samstarfsörðugleika hans í ríkisstjórn árin á eftir sem skrif­ ast á persónu hans. Þó ég efist ekki um að þeir atburðir sem Styrmir lýsir, hvernig Þorsteinn fór á bak við Geir og hversu erfiður hann var í samstarfi, séu réttir þá er framsetning hans á þessum atburðum örugglega mjög valkvæð og til þess gerð að hygla Davíð Oddssyni og láta Þorstein líta illa út. Breyttist Mogginn eitthvað? Styrmir reynir í bókinni að halda því fram að undir lok áttunda ára­ tugarins hafi þeir ritstjórar Morgun­ blaðsins ákveðið að breyta um stefnu og „ galopna blaðið fyrir hvers konar umfjöllun og skoðanaskiptum“ en fram að þeim tíma hafði Mogginn verið eins konar flokksblað fyrir Sjálf­ stæðisflokkinn og meðal annars verið með „áheyrnarfulltrúa“ á þingflokks­ fundum flokksins. Þá segir Styrmir að Mogginn hafi stutt ríkisstjórn Geirs Hallgrímssonar í skrifum blaðsins á árunum 1974 til 1978 enda var Geir stjórnarformaður og einn af eigendum blaðsins. Í bókinni er einnig merkileg frásögn af því hvernig Morgunblaðið birti for­ síðufrétt um stefnuskrá Sjálfstæðis­ flokksins fyrir kosningarnar árið 1979 sem ekki hafi verið unnin á blaðinu heldur komið utan frá og ratað beint á forsíðuna. Styrmir vissi sjálfur ekki hver skrifaði forsíðufréttina um stefnu­ skrá flokksins þó grunur hefði leikið á að Þorsteinn Pálsson hefði komið að því – árið 2012 fékk Styrmir upplýs­ ingar um að Jónas Haralz hagfræðing­ ur hefði verið höfundurinn. Ég held að það sé næsta fáheyrt á dagblöðum sem vilja vernda grundvallarprinsipp þokkalegrar blaðamennsku að forsíð­ ufréttirnar séu skrifaðar af einhverj­ um óþekktum flokksmönnum úti í bæ. Styrmir kemur því með mörg dæmi um það að Mogginn hafi verið flokksblað og nánast stýrt af forystu Sjálfstæðis­ flokksins. Svo á þetta að hafa breyst í byrjun níunda áratugarins þegar blaðið hætti meðal annars að hafa áheyrnarfulltrúa á þingsflokksfundum og reyndi að slíta tengslin við flokkinn. Spurningin er hins vegar sú hvort þessi söguskoðun Styrmis sé rétt og þá að hversu miklu leyti þar sem ýmis mál benda til að Morgunblaðið hafi verið flokksblað allan þann tíma sem Styrmi stýrði því, allt til sumarsins 2008. Til dæmis má nefna að Baugsmálinu var að hluta til stýrt af skrifstofu Styrmis. Ef undan er skilin stutt ritstjóra­ tíð arftaka Styrmis, Ólafs Stephensen, frá því sumarið 2008 og fram á haustið 2009, fæ ég ekki séð að Morgunblaðið hafi síðustu áratugi virt grundvallar­ prinsipp blaðamennskunnar um hlut­ lægni og hlutleysi í umfjöllunum sín­ um um stjórnmál og viðskipti – sem dæmi má nefna að Moggi Ólafs fjallaði með mjög hvössum hætti um tvo sjálf­ stæðismenn og kunningja ritstjórans, Guðlaug Þór Þórðarson og Þór Sigfús­ son, fyrrverandi forstjóra Sjóvár. Þetta prinsipp má orða með þeim hætti að „dagblað eigi ekki að eiga neina vini“. Ég sá ekki flokkspólitíska slagsíðu á Mogga Ólafs áður en blaðið var eyði­ lagt. Nýir eigendur blaðsins vildu hins vegar ekki slíkan ritstjóra, sem þar að auki er Evrópusinni, og því var Ólafi gert erfitt um vik að sinna starfi sínu. Í staðinn var Davíð Oddsson ráðinn. Eitt af hans fyrstu verkum sem ritstjóri var að stinga undir stól frétt um að Baldur Guðlaugsson, ráðuneytisstjóri og vinur hans, væri til rannsóknar fyr­ ir innherjasvik. Forsendur Davíðs voru þær að hann hefði aðrar heimildir um málið og því væri ekki rétt að Baldur væri til rannsóknar. Stöð 2 birti frétt um rannsóknina viku síðar og Bald­ ur var svo dæmdur í tveggja ára fang­ elsi. Morgunblaðið hefur því lítið sem ekkert breyst að þessu leyti og má auð­ vitað segja að Davíð hafi gengið miklu lengra í því að brjóta grundvallar­ prinsipp hlutlægrar og hlutlausrar blaðamennsku en Styrmir og Matt hías gerðu nokkurn tímann. Stjörnur og fyrirvarar Bók Styrmis fær tvær stjörnur fyrir umfjöllunina um þau innanbúðarmál í Sjálfstæðisflokknum og á Morgun­ blaðinu sem hann segir frá og varpar ljósi á í bókinni. Styrmir tók þátt í þess­ um átökum og varð vitni að þeim sem innanbúðarmaður í flokknum og rit­ stjóri Moggans. Innsýn hans hefur því heimildagildi – að svo miklu leyti sem hún kann að vera rétt – og er þar að auki fróðleg – að svo miklu leyti sem hún kann að vera sönn – þó hún sé langt frá því að vera geðsleg. Bók­ in veitir lesendum því vissan aðgang að bakherbergjum Styrmis, Mogg­ ans og Sjálfstæðisflokksins þar sem hann vísar til eigin samtala, símtala og minnisblaða frá tímabilinu sem um ræðir. Þetta innlit er fágætt þó það sé valkvætt. Ég geri þessa fyrirvara við bók Styrmis því mér reynist afar erfitt að treysta Styrmi Gunnarssyni; hann er ekki heiðarlegur og sýn hans er svo lituð af alls kyns hagsmunum og persónuhygli að trúverðugleikinn er lítill: Styrmir er ekki maður sannleik­ ans heldur flokksins. Einn af fyrrver­ andi blaðamönnum Morgunblaðsins, Sindri Freysson, sagði til dæmis um hann á Facebook í síðustu viku, eftir að Styrmir hafði komið í Kastljós og rætt um þessa bók. „Styrmir kenndi mér ekkert – nema að hann væri einn af viljugum dátum kalda stríðsins og varðhundur flokksins og hagsmuna ákveðinna valda – og peningaklíku sem honum var þóknanleg og hann var þóknanlegur. Hann drap í því skyni allnokkrar fréttir sem ég skrif­ aði og gátu komið illa við þessa vini hans.“ Slík orð frá fyrrverandi blaða­ manni Morgunblaðsins um ritstjóra sinn eru ekkert annað en áfellisdóm­ ur. Fyrir vikið vakna spurningar um hversu margir fyrrverandi blaða­ menn á Morgunblaðinu hafi svipaða sögu að segja. Innsýn Styrmis er því einnig „ógeðsleg“ af því hún er svo lit­ uð af hagsmunagæslu og makki sem hann tók sjálfur þátt í: Styrmi er ekki treystandi þó hann þykist nú reyna að vera orðinn heiðarlegur. Eitt af þeim atriðum sem einnig nefna má í þessu sambandi varðandi trúðverðugleika Styrmis er að hann reynir að endurskrifa söguna þannig að ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur hafi „einkavætt“ Kaupþing og Glitni eftir hrunið 2009 af því kröfuhafar þessara banka munu eignast þá þegar þar að því kemur. Þessari „einkavæð­ ingu“ stillir hann upp við hliðina á einkavæðingu Landsbankans og Bún­ aðarbankans 2002 og 2003 og reynir að halda því fram að þær séu sambæri­ legar og að Jóhanna hafi ekkert lært af slælegri einkavæðingu Búnaðarbank­ ans og Landsbankans. Þetta er galið hjá Styrmi. Landsbankinn og Búnað­ arbankinn voru ríkisbankar sem tek­ in var ákvörðun um að selja til að­ ila sem voru tengdir Sjálfstæðisflokki og Framsóknarflokki; ríkisvaldið átti ekki bankana tvo sem stofnaðir voru á rústum Kaupþings og Glitnis og er­ lendir kröfuhafar þessara banka áttu kröfur í bú þeirra upp á hundruð millj­ arða króna sem breytt verður í hluta­ fé í nýju bönkunum. Sú staðreynd að þessir kröfuhafar munu eignast bank­ ana er því ekki „einkavæðing“ í sama skilningi og einkavæðing Lands­ banka og Búnaðarbanka og framtíðar­ eignarhald Arion banka og Íslands­ banka er auk þess ekki flokkspólitískt mál. Íslenska ríkið átti ekki kröfurnar á bankana heldur erlend fjármálafyrir­ tæki að mestu; ríkisvald getur ekki einkavætt eitthvað sem það á ekki. Styrmir stillir málum upp með þessum hætti til að koma höggi á nú­ verandi ríkisstjórn en það sem hann segir er ekki sannleikanum sam­ kvæmt. Mýmörg önnur sambærileg dæmi væri hægt að tína til úr bókinni. Orð Styrmis um íslenskt samfélag, sem vísað var til hér að framan, eiga því svo ljómandi vel við hann sjálfan að lokn­ um lestri á þessari bók hans. Firrt sýn Styrmis Í lok bókarinnar, í eftirmála sem er eins konar óður til Sjálfstæðisflokksins, segir Styrmir að Davíð Oddsson og Geir H. Haarde séu þeir menn sem búi yfir mestri þekkingu á þeim „veikleik­ um“ í íslensku samfélagi sem leiddu til hrunsins. Þjóðin á að gefa þeim Davíð og Geir „frið“ til að úttala sig um þessa veikleika svo hægt sé að vinna bug á þeim. Svörin við erfiðleikum Íslands í kjölfar hrunsins liggja því auðvitað hjá Davíð og Geir. Þá vitnar Styrmir til þeirra orða Davíðs Oddssonar að íslenska þjóðríkið sé „þannig vaxið“ að það sé „ekki hollt fyrir það að vera í höndunum á mjög fáum aðilum.“ Þessi orð vill Styrmir að Sjálfstæðis­ flokkurinn geri að sínum einkunnar­ orðum. Slagorð Sjálfstæðisflokksins á því að koma frá Davíð. Sannleikurinn er hins vegar sá að þeir stóreignamenn sem eiga Mogg­ ann og nota blaðið í hagsmuna­ gæslu fyrir kvótakerfið og áróður gegn Evrópusambandinu hafa aldrei verið eins valdamiklir og auðugir og um þessar mundir og keppast við að kaupa upp fyrirtæki sem komist hafa í rekstrarerfiðleika í kjölfar hruns­ ins. Íslenskt efnahagslíf hefur senni­ lega sjaldan verið í höndunum á eins fáum og einmitt nú og líklega mun þessi fákeppni bara aukast á næst­ unni eftir því sem bankarnir selja frá sér fleiri yfirteknar eignir. Útgerðarfé­ lögin sem eiga Moggann hafa síðustu misserin fært verulega út kvíarnar í útgerðinni og einnig fjárfest í annars konar og óskyldum rekstri, eins og til dæmis í Mogganum sjálfum, Olís og verktakageiranum. Sjálfstæðisflokk­ urinn er meðal annars flokkur þessara hagsmunaaðila og verður það áfram ef Davíð fær einhverju um það ráðið. Styrmir er ekki sestur í helgan stein og er ennþá firrtur þó hann sé hættur á Mogganum. Hann heldur áfram að reyna að móta sannleikann í þá mynd sem hann heldur að þjóni hagsmun­ um Sjálfstæðisflokksins. Honum er ennþá fyrirmunað að fjalla um flokk­ inn með hlutlausum og trúðverðugum hætti. n Ógeðsleg i nsýn Djúpstæð firring Söguskoðun Styrmis Gunnarssonar lýsir djúpstæðri firringu: Hann telur Davíð Oddsson og Geir H. Haarde vera þá menn sem búi yfir mestri þekkingu á veikleikum íslensks samfélags og að þjóðin eigi að gefa þeim „frið“ til að tala. Ingi Freyr Vilhjálmsson ingi@dv.is Bækur Sjálfstæðisflokkurinn: Átök og uppgjör Höfundur: Styrmir Gunnarsson Útgefandi: Veröld 280 blaðsíður 22 Menning 28. nóvember 2012 Miðvikudagur

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.