Dagblaðið Vísir - DV - 29.04.2014, Blaðsíða 31

Dagblaðið Vísir - DV - 29.04.2014, Blaðsíða 31
Vikublað 29. apríl–1. maí 2014 Sport 31 Úrvalslið unglinga n Bestu leikmennirnir í sínum stöðum 20 ára og yngri n Vefritið GiveMeSport tók saman Markmaður: Simone Scuffet Aldur: 17 ára Þjóðerni: Ítalskur Félag: Udinese n Eru Ítalir loksins búnir að finna verðugan arftaka Gianluigi Buffon? Það er aldrei að vita nema svarið við þeirri spurningu sé já. Simone Scuffet spilar með Udinese og hefur þrátt fyrir ungan aldur unnið sér inn sæti í liðinu. Eins dauði er annars brauð en Scuffet kom inn í liðið 1. febrúar síðastliðinn þegar aðalmarkvörð- urinn, Zeljko Brkic, meiddist og hefur hann haldið stöðu sinni síðan. Það er sjaldgæft að svo ungum markvörðum sé hent í djúpu laugina svo snemma en staðreyndin er sú að Scuffet hefur staðist áskorunina vel og á bara eftir að verða enn betri. Hægri bakvörður: Kurt Zouma Aldur: 19 ára Þjóðerni: Franskur Félag: St. Etienne (lánsmaður frá Chelsea) n Kurt Zoume hefur lengi verið talinn í hópi efnilegustu varnarmanna heims og getur þessi öflugi Frakki leyst nánast allar stöður í vörninni. Hann vakti athygli ekki alls fyrir löngu þegar hann fékk 10 leikja bann fyrir að fótbrjóta andstæðing í leik í frönsku deildinni. Mestu athyglina hefur hann þó fengið fyrir frammistöðu sína með St. Etienne, svo mikla að Chelsea festi kaup á honum í janúargluggan- um en lánaði hann aftur til franska félagsins. Líklegt verður að teljast að framherjar ensku úrvalsdeildarinnar muni þurfa að kljást við þennan stóra og stæðilega varnarmann næsta vetur. Miðvörður: Marquinhos Aldur: 19 ára Þjóðerni: Brasilíumaður Félag: Paris St. Germain n Marquinhos vakti mikla athygli hjá Roma á síðasta tímabili og var svo keyptur síðasta sumar til Paris St. Germain. Kaupverðið var 31,4 milljónir evra, eða 3,5 millj- arðar króna. Hann hefur þurft að gera sér að góðu að verma varamannabekkinn þó nokkuð á þessu tímabili, en enginn efast þó um hæfileika hans og tíminn er á hans bandi. Þá skemmir það ekki fyrir að landi hans, Thiago Silva, einn allra besti miðvörður heims, er samherji hans hjá PSG og varla hægt að finna betri lærimeistara en hann. Miðvörður: Aymeric Laporte Aldur: 19 ára Þjóðerni: Franskur Félag: Athletic Bilbao n Laporte er líklega ekki þekktasta nafnið í liðinu, en engu að síður hefur frammi- staða hans með Athletic Bilbao vakið mikla athygli. Laporte gekk í unglingaakademíu Bilbao árið 2010 en spilaði sinn fyrsta leik árið 2012. Á þessu tímabili hefur hann verið fastamaður í sterku liði Bilbao sem væntanlega verður í Meistaradeildinni næsta vetur. Laporte er hávaxinn, 1,89, og hefur leikið með öllum yngri landsliðum Frakklands. Athygli vekur að hann er aðeins annar Frakkinn til að spila með Bilbao, hinn er Bixente Lizarazu. Vinstri bakvörður: Luke Shaw Aldur: 18 ára Þjóðerni: Enskur Félag: Southampton n Luke Shaw hefur sýnt ótrúlega takta með Southampton undan- farnar tvær leiktíðir og engu líkara en hann eigi áralanga reynslu að baki í efstu deild. Staðreyndin er sú að Shaw er einungis 18 ára og af mörgum talinn efnilegasti vinstri bakvörður í heimi ásamt David Alaba hjá Bayern München. Öll stærstu félög Englands; Manchester United, Manchester City og Chelsea, eru sögð hafa áhuga á að kaupa leikmanninn í sumar og eru sögð reiðubúin að greiða 30 milljónir punda fyrir þjónustu hans. Hægri kantmaður: Raheem Sterling Aldur: 19 ára Þjóðerni: Enskur Félag: Liverpool n Við svindluðum aðeins hérna. Í úttekt GiveMeSport var Gerard Deu- lofeu á hægri kantinum en framganga Raheems Sterling með Liverpool að undanförnu tryggir honum sæti í liðinu. Deulofeu hefur átt fína leiktíð með Everton en bara ekki jafn góða og Sterling. Velgengni Liverpool eftir áramót, ef leikurinn gegn Chelsea er undanskilinn, hefur ekki síst verið frammistöðu Sterlings að þakka. Þessi 19 ára Englendingur skoraði frábært mark gegn Manchester City á dögunum og var besti maður vallarins í sigrinum gegn Norwich um þar síðustu helgi. Framtíðin er björt hjá Sterling. Sókndjarfur miðjumaður: Lucas Piazon Aldur: 20 ára Þjóðerni: Brasilíumaður Félag: Vitesse (á láni frá Chelsea) n Þessum unga Brasilíumanni hefur verið líkt við landa sinn, Kaka, enda þykir leikstíll þeirra svipaður. Piazon er samningsbundinn Chelsea en hefur farið frá félaginu á láni undanfarnar tvær leiktíðir; fyrst til Malaga og síðan til Vitesse í Hollandi þar sem hann hefur spilað óaðfinnanlega. Þessi tvítugi leikmaður hefur leikið 22 landsleiki fyrir yngri landslið Brasilíu og skorað í þeim 19 mörk. Piazon getur leikið sem framherji, vængmaður eða í holunni fyrir aftan framherjann sem er líklega hans besta staða. Vinstri vængmaður: Adnan Januzaj Aldur: 19 ára Þjóðerni: Belgi Félag: Manchester United n Adnan Januzaj hefur verið einn af fáum ljósum punktum í liði Manchester United í vetur. Hann hefur komið eins og stormsveipur inn í liðið og leikið vel. David Moyes, stjóri United, hefur þó farið vel með þennan gullmola og passað að hann fái næga hvíld milli leikja. Januzaj getur leikið í flestum stöðum á miðjunni en hefur að mestu verið notaður á vinstri vængnum í vetur hjá United. Hér er um virkilega spennandi leikmann að ræða sem væntanlega á bara eftir að verða betri og betri. Framherji: Aleksandar Mitrovic Aldur: 19 ára Þjóðerni: Serbi Félag: Anderlecht n Belgíska úrvalsdeildin telst jafnan ekki til sterkustu deilda Evrópu en reynslan hefur sýnt að þaðan koma margir af efnilegustu leikmönnum Evrópu. Aleksandar hefur skorað 15 mörk í 29 leikjum á sínu fyrsta tímabili í efstu deild með Anderlecht og skoraði sitt fyrsta landsliðsmark með aðalliði Serba gegn Króötum í undankeppni HM í september í fyrra. Fjölmörg stórlið fylgjast vel með þróun mála hjá þessum unga og stórefnilega framherja. Miðjumaður: Adrien Rabiot Aldur: 19 ára Þjóðerni: Franskur Félag: Paris St. Germain n Ólíkt liðsfélaga sínum, Marquinhos, hefur Adrien Rabiot ekki átt í miklum vandræðum með að festa sig í sessi hjá PSG. Þrátt fyrir að vera nýorðinn 19 ára hefur hann tekið þátt í 20 leikjum Parísarliðsins í deildinni í vetur og sex Meistara- deildarleikjum. Rabiot er nokkuð hávaxinn, 1,88 á hæð, og hefur leikið fyrir öll yngri landslið Frakk- lands. Merkilegt nokk var þessi efnilegi leikmaður í unglingaakademíu Manchester City um tíma en yfirgaf félagið eftir aðeins sex mánuði árið 2008. Djúpur miðjumaður Leon Goretzka Aldur: 19 ára Þjóðerni: Þýskur Félag: Schalke n Fjölmargir ungir og efnilegir leikmenn hafa komið úr akademíu Schalke á undanförnum árum. Helst ber að nefna Julian Draxler og Max Meyer en Leon Goretzka er ekki síðri leikmaður. Goretzka er djúpur miðjumaður og í umfjöllun Gazzetta dello Sport um efnilegustu leikmenn heimsfótboltans var Goretzka í 7. sæti á listanum, á undan bæði Draxler og Meyer. Hann hefur leikið með landsliði Þjóðverja skipuðu leikmönnum 21 árs og yngri en talið er að aðeins tímaspursmál sé hvenær hann kemst í aðallið Þjóðverja. Ef hann heldur vel á spöðunum gæti hann vel látið ljós sitt skína á EM 2016. einar@dv.is

x

Dagblaðið Vísir - DV

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Dagblaðið Vísir - DV
https://timarit.is/publication/255

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.