Lögmannablaðið - 01.12.2003, Page 18
18 4 / 2 0 0 3
Af Merði lögmanni
Mörður gekk út úr dómshúsinu. Var það málið, var það hann eða var það kannski dómarinn? Það er erfitt
að vera í þessari stöðu sem lögmaðurinn er í, það að eiga ekki síðasta orðið hugsaði Mörður. Sérstaklega
þegar maður er búinn að tapa máli og Merði fannst eins að það kæmi óþarflega oft fyrir hann. Hvað
mundi nú gerast ef Mörður kæmi sínum sjónarmiðum, ja, altso umbjóðandans, á framfæri utan dómssala? Í
þessu sambandi leiddi Mörður hugann að fjölmiðlum. Margir kollegarnir lögðu mikið uppúr því að láta
ljós sitt skína í þeim hugsaði Mörður en hann hafði aldrei rekið mál þar og alltaf talið það sér til tekna.
Merði er yfirleitt skemmt þegar hann fylgist með oft farsakenndum og jafnvel á tíðum grátbroslegum
uppákomum í þjóðfélaginu sem fjölmiðlamenn gera skil. Jafnvel þótt honum hafi alltaf fundist þeir gera
töluvert meira úr eigin ágæti og mikilvægi en efni og ástæður standa til. Innblásnir og upptjúnaðir af eigin
ágæti, af sjálfstæði og mikilvægi stéttar sinnar, sem þeir nefna oft fjórða valdið á árshátíðum, höfðu þeir
nú samt skyndilega áhyggjur af því hvaðan hýran kæmi næstu mánaðarmót og hver áhrif þess hugsanlega
yrðu á sitt sjálfskipaða mikilvægi og ágæti ef fjölmiðlamógúlar væru að rísa upp hér á landi.
„Segðu satt og rétt frá drengur“ er setning, eignuð skörulegum lögmanni hér í bæ, setning sem Mörður
þreytist seint á að nota. Það er líka setning sem kona Marðar er löngu orðin þreytt á að heyra. Mörður
hefur í áraraðir haft þann vana að hvæsa á sjónvarpið þegar hann horfir á fréttir og viðtalsþætti, hvæs
sem sprottið er af framkomu og fasi og aðallega málflutningi, eða oftast málflutningsskorti þess fólks sem
tíðast er í viðtækinu, fréttafólks, en öðru hvoru var það nú vegna málflutnings stjórnmálamanna
viðurkenndi Mörður fyrir sér.
Mörður velti því fyrir sér hvort fjölmiðlafælni og gagnrýni hans mætti rekja til þess að hann er hógvær
maður mjög. Þó svo að hann hafi gengið í eina almennilega menntaskóla landsins og síðar stundað nám
við þá deild háskólans, þess eina sem um þarf að geta, sem af öðrum ber, og eftir útskrift nú lengstum
tilheyrt úrvals liði þeirrar stéttar sem þaðan kemur, þrátt fyrir þetta allt hefur Mörður aldrei slegið sér á
brjóst, mært sig og sína stétt eða talið hana öðrum fremri að siðferðisþreki eða mikilvægi heldur komið
fram af þeirri hógværð og lítillæti sem einkennir stétt lögmanna alla...... eða hvað?
Tveir barnungir frændur Marðar eru löglærðir fulltrúar, á einni af þessum stóru og gljáfægðu
lögfræðistofum sem bera eitthvað latínunafn. Merði líkar vel við þessa frændur sína sem merkjanlega hafa
frá því þeir komust til vits og ára litið upp til Marðar og hans starfa. Mörður vill þeim frændum allt hið
besta og gladdist því þegar fína latínustofan ákvað að fjármagna hið nú lögbundna inntökuferli fulltrúanna
inn í stétt lögmanna. Það sem í því ferli fólst líkaði frændunum víst misvel að sögn, þóttust jafnvel þekkja
og kunna stærstan hluta þess sem þar fór fram. Mörður hefur yfirleitt talið að það sem er þess virði að
segja einu sinni megi eins vel segja tvisvar og jafnvel oftar. Mörður hefur einnig rekið sig á það að suma
hluti dugar ekki að segja einu sinni heldur verður að endurtaka þá. Það hvarflar að Merði þegar honum
verður hugsað til klósettsetunnar á baðherbergi þeirra hjóna að jafnvel sífelldar endurtekningar dugi ekki
til. Eitt merkti þó Mörður í fasi frænda sinna, fulltrúanna, þegar þeir námu fræði lögmanna og síðar
innvígðust í stétt þeirra, en það var hversu vel þeir virtust meðtaka og tileinka sér í orði og á borði það
sem þar kom fram um hið mikla og merkilega hlutverk lögmannastéttarinnar í samfélagi mannanna. Fas
þessara áður hógværu og lítillátu ungmenna, sem áður höfðu jafnan setið full aðdáunar og eftirvæntingar
er Mörður útskýrði og rakti í smáatriðum frækilega framkomu sína í snerru sem hann átti við lögmann
þola í síðasta fjárnámi eða snilldarlegan snúning á fulltrúa fyrsta veðréttar á síðasta uppboði, tók
umtalsverðum breytingum við þá fræðslu sem fengin hafði verið. Nú er svo komið að Mörður situr eftir
ásamt yngsta fjölskyldumeðlimnum, fjögurra ára, þegar sagan er öll.
Mörður er kominn til sýslumanns vegna fjárnámsfyrirtöku. Nú jæja, hugsar Mörður, þar fóru tveir síðustu
áheyrendurnir og nú fer í hönd hin árlega fjölskylduboðavertíð....þá er bara að eta og drekka meira......nú
svo er það þessi fjögurra ára, það er víst aldrei of snemmt, því það læra börnin sem fyrir þeim er haft.