Málfregnir - 01.12.2001, Blaðsíða 12
ritara og annarra starfsmanna í hugbúnaðar-
iðnaði. Skemmst er frá því að segja að
reynsla mín er að þeir leggja flestir metnað
sinn í að tala og skrifa góða íslensku. Eg tel
mig geta fullyrt að í þessari atvinnugrein sé
alls ekki meira um erlendar slettur en
dæmin, sem ég nefndi að ofan, gefa til
kynna að verið hafi um miðja síðustu öld.
Það er að vísu rétt að þegar nýjungar koma
fram í tækninni á erlendum vettvangi er að
sjálfsögðu ekki til neitt orð á íslensku til að lýsa
nýjunginni og þá geta menn lítið annað gert en
að nota erlenda orðið eða einhverja íslenskaða
mynd af því. En það líður sjaldnast langur tími
þar til íslensk orð fýrir fyrirbærið skjóta upp
kollinum. I því efni eiga orðanefndir hinna
ýmsu fagfélaga mikinn heiður skilið en einnig
er áhugi starfsmanna á viðkomandi sviði oftast
mikill. Eg tel ekki leika neinn vafa á því að
langflestir tæknimenn, eins og aðrir íslend-
ingar, vilja tala góða íslensku og nota íslensku
í daglegum störfum sínum.
Eg er því þeirrar skoðunar að það að
menn sækja þekkingu til annarra landa og
upplýsingar í erlend tungumál muni alls
ekki verða hættulegt íslenskunni. Svo lengi
sem almenningur, þar með talið tæknifólk, á
þess kost að nota íslensku í daglegu lífi
muni það gera það.
Starfsfólk við hugbúnaðargerð hefur allt
frá upphafi þeirrar greinar hér á landi þurft
að notast við hugbúnaðarverkfæri sem oft-
ast eru skrifuð á ensku. Hér á ég við hug-
búnað sem notaður er við að búa annan hug-
búnað til. Eins og ég sagði áðan sýnist mér
að þetta hafi ekki komið að sök.
Nær allur hugbúnaður, sem framleiddur
hefur verið hér á landi, er hins vegar á ís-
lensku. T.d. hefur það ekki hvarflað að
mönnum að skrifa bókhaldshugbúnað á
öðru máli en íslensku og öll erlend bók-
haldskerfi, sem náð hafa umtalsverðri út-
breiðslu hér á landi, hafa verið þýdd á ís-
lensku, að minnsta kosti sá hluti þeirra sem
almennir notendur hafa aðgang að. Sömu
sögu er að segja um flestan þann hugbúnað
sem er í almennri notkun.
Það er kostnaðarsamt að þýða erlendan
hugbúnað á íslensku og hugbúnaður er mjög
misjafnlega vel fallinn til þýðinga. Stundum
er allur texti geymdur í sérstökum töflum og
þá er aðgengilegt að þýða enda þótt um tals-
verða vinnu geti verið að ræða. I öðrum
tilvikum er texta ekki haldið þannig til haga
og þá er að öllu leyti erfiðara um vik.
A síðustu misserum hafa komið upp raddir
um að réttast væri að Islendingar hætti að
standa í þýðingum og tileinki sér frekar að
vinna á ensku. Sem betur fer held ég að þetta
sjónarmið eigi ekki miklu fylgi að fagna og ég
trúi því að það sé sett fram af aðilum sem eru
að selja erlendan hugbúnað sem er illa
skrifaður með tilliti til þýðingar. Engu að síður
er þetta sjónarmið komið fram og ég held að
það sé full ástæða til að vera vel á varðbergi.
Þá hefur það einnig heyrst að íslenskur
hugbúnaðariðnaður byggi nú meir og meir á
útflutningi og sé því að verða svo alþjóðleg-
ur að ekki taki því að skrifa íslenska útgáfu
hugbúnaðar og að réttast sé að skrifa hann á
ensku. Eg hef ekki mikla trú á þessari rök-
semdafærslu.
Markaðsmenn segja mér að það sé næsta
fátítt að fyrirtæki nái góðum árangri á er-
lendum markaði hafi það ekki góða fótfestu
á heimamarkaði sínum enda tel ég að nær
allur sá hugbúnaður, sem nú er fluttur út,
hafi upphaflega verið þróaður fyrir innlend-
an markað. Þá er þess líka að gæta að enska
er alls ekki það alþjóðlega tungumál sem
menn vilja vera láta. Eg er hræddur um að
menn komist ekki langt með að markaðs-
setja hugbúnað, sem er ætlaður almenningi,
á ensku, til dæmis í Danmörku.
Eg held að svar íslenskra hugbúnaðar-
framleiðenda verði að vera að skrifa hug-
búnað með þeim hætti að auðvelt sé að þýða
hann á hin ýmsu tungumál.
Þessi misserin eru að verða miklar breyt-
ingar á sambúð tungumála og tækni. Það er
að verða æ algengara að ýmis tæki, svo sem
heimilistæki, bílar og hljómflutningstæki,
gefi notendum upplýsingar á rituðu máli í
stað þess að nota til dæmis vísi á mæli.
12