Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.1990, Page 247
Jakob Jónsson, Kímni og skop t Nýja testamentinu
Bókaútgáfa Menningarsjóðs, Reykjavík 1990. 334s
Á síðastliðnu vori kom út íslensk þýðing doktorsritgerðar séra Jakobs
Jónssonar en upphaflega kom hún út á ensku á vegum Menningarsjóðs
árið 1965 og nefndist Humour and lrony in the New Testament,
Illuminated by Parallels in Talmud and Midrash. Síðari enska útgáfan
kom út á vegum bókaforlagsins Brill í Leiden í Hollandi árið 1985. Séra
Jakob þýddi sjálfur bókina en dóttir hans frú Svava Jakobsdóttir
rithöfundur og fyrrv. alþingismaður þýddi formála fyrir annarri prentun
eftir Krister Stendahl Stokkhólmsbiskup. í eftirmála við íslensku
útgáfuna er greinin „Hví ekki kímni í Nýja testamentinu?“ sem birtist í
ritinu Saga og kirkja, afmælisriti Magnúsar Más Lárussonar f.v. rektors
Háskóla íslands. Sonur höfundar dr. Þór Jakobsson veðurfræðingur
samdi skrár í íslensku útgáfuna yfir tilvitnanir í Biblíuna og bókmenntir
rabbía. Mér sýnist í alla staði vel hafa tekist til með frágang bókarinnar.
Séra Jakob varð bráðkvaddur á Djúpavogi hinn 17. júní 1989. Hann var
ekki aðeins vel þekktur kennimaður og guðfræðingur hér á landi heldur
einnig erlendis. Bók hans um kímni og skop vakti talsverða athygli og
birtust ritdómar um hana í flestum helstu guðfræðitímaritum heims og í
hana er vitnað í fjölmörgum fræðibókum. Séra Jakob var meðlimur í
hinu virta félagi SNTS (Studiorum Novi Testamenti Societas) og sótti
ráðstefnur þess nær árlega um nær tveggja áratuga skeið, en í þeim
félagsskap eiga þeir einir félagsréttindi sem gefið hafa út frumsamdar
fræðibækur á sviði Nýja testamentisfræða. Séra Jakob tók virkan þátt í
þessum ráðstefnum og var óragur við að leggja orð í belg. Hann var
mjög frjór og uppörvandi maður og var ætíð hressandi að heyra rödd
hans í síma þegar hann var að ræða einhver guðfræðileg vandamál eða
segja frá einhverju athyglisverðum athugunum sem hann hafði gert
sjálfur eða heyrt um. Dr Þórir Kr. Þórðarson lýsir honum afar vel í
minningargrein um hann látinn í Morgunblaðinu þar sem hann dregur
upp raunsannar myndir af honum. Hann segir:
Séra Jakob var að eðlisfari glettinn og gamansamur í alvörunni, en háð og neikvæð
umfjöllun var honum víðs fjarri. Hann var óvenjulegur maður, en einhvernveginn fór
það svo að prestar sýndu honum aldrei verðskuldaða virðingu, skildu hann kannske
ekki, sumir hverjir. Honum sámaði oft deyfð hins andlega og fræðilega lífs, en
athygli vakti hann með þjóðinni sjálfri og telst enda til hennar fremst sona.
Efni doktorsritgerðarinnar var nokkuð framandi guðfræðingum þegar
hún var í fyrstu lögð fram. Áherslubreytingar í guðfræði einkum í
biblíufræðum hafa sýnt og sannað að hann fylgdist með tímanum og vel
má segja að hann hafi átt sinn þátt í að móta þessi nýju viðhorf þar sem
bókmenntaleg sjónarhom ráða og aukin athygli beinist að hinum
245