Skagfirðingabók - 01.01.1975, Page 105
ÚR SKÚFFUHORNI
21.
Meðal margra gamalla vísna úr Skagafirði, sem nú hafa
týnt höfundi sínum og tildrögum, er ein á þessa lund:
Léleg vist í Litlu-Gröf
lítið trúi’ ég batni.
Kannast ég við kaffigjöf
úr korni, rót og vatni.
22.
Árið 1929 dó öldruð kona á Reykjavöllum í Lýtings-
staðahreppi, Guðrún Jóhannesdóttir, sem þar bjó lengi, fyrst með
manni sínum, Andrési Björnssyni á Starrastöðum Björnssonar, en
síðan ekkja eftir hann frá árinu 1905—1918. Hún var mesti
forkur að dugnaði og sögð skynsöm, „en leit stundum sérstæðum
augum á suma hluti“.
Einn dag litlu eftir aldamótin kom Guðrún á Reykjavöllum
að næsta bæ, Skíðastöðum. Þar var þá nýbúið að kaupa fisk. Hún
undraðist það og sagði: „Ég fyrirbýð Andrési mínum að kaupa
fisk.“ Einhver spurði hvers vegna: „Ég bý sjálf til fisk,“ anzaði
Guðrún. „Hvernig ferðu að því?“ var svarað. „Ég sýð drafla,“
sagði hún, „og það er sama og fiskur.“
Þegar Pálmi Hannesson, síðar rektor, var stráklingur að alast upp
á Skíðastöðum, kom hann einhverju sinni sem oftar í Reykjavelli
og lenti þá í ryskingum við Jóhannes, son Guðrúnar, og hafði
hann undir. Þeir strákarnir voru á líku reki, Jóhannes þó heldur
eldri. Guðrún kvartaði undan þessari heimsókn við séra Sigfús á
Mælifelli. „Pálmi slengdi Jóa ofan í þúfu,“ sagði hún, „en undar-
legt var það, séra Sigfús, að upp úr þeirri þúfu spratt kúmen.“
Lárus hét einn sonur Guðrúnar, kallaður Lalli. Árið 1912
barst það í tal milli gesta á Reykjavöllum, hvenær kóngurinn,
Friðrik áttundi, hefði dáið, mundi enginn dagsetninguna nákvæm-
lega. Þá kallaði Guðrún upp álengdar: „Það var daginn, sem Lalli
fann spóaeggin.“
103