Skagfirðingabók - 01.01.1990, Side 9
SÉRA LÁRUS ARNÓRSSON Á MIKLABÆ
eftir MAGNÚS H. GÍSLASON á Frostastöbum
Þegar eg var að alast upp í Skagafirði, þá var prestastétt héraðs-
ins skipuð miklum merkis- og sómamönnum, þótt ólíkir væru
um margt. Og svo maður fylgi nú sólarganginum, þá sat séra
Guðmundur Benediktsson á Barði í Fljótum, séra Pálmi Þór-
oddsson í Hofsósi, séra Guðbrandur Björnsson í Viðvík, séra
Lárus Arnórsson á Miklabæ, séra Tryggvi H. Kvaran á Mæli-
felli, séra Hallgrímur Thorlacíus í Glaumbæ, séra Hálfdan
Guðjónsson á Sauðárkróki og séra Arnór Árnason í Hvammi í
Laxárdal. Allt voru þetta vinsælir og virtir kennimenn og raun-
ar hvorttveggja í senn: andlegir höfðingjar og veraldlegir.
Fæsta þessa menn þekkti eg raunar nema af afspurn; þeir
voru mér fjarlægir bæði í tíma og rúmi. Nokkrir þeirra voru,
þegar hér var komið sögu, allmjög við aldur, aðrir yngri, allir
gáfu- og gerðarmenn og sumir nokkuð sérlegir, svo sem latínu-
hesturinn séra Hallgrímur Thorlacíus í Glaumbæ, sem ekki
vildi láta slétta tún sitt, því að þá minnkaði yfirborðið og þar
með heyfengurinn, og mælsku- og félagsmálagarpurinn séra
Arnór Árnason í Hvammi, með sitt fannhvíta alskegg niður á
bringu, hið mikilfenglegasta sem fyrirfannst í Skagafirði á þess-
um árum. Af öllum þessum ágætu klerkum mætti segja mikla
sögu, en það verður ekki gert hér og nú. Hér verður aðeins eins
þeirra minnzt að nokkru, séra Lárusar Arnórssonar á Miklabæ
í Blönduhlíð, en hann þekkti eg þeirra bezt, enda var hann
prestur minn og sveitungi hátt á annan áratug. Hvorki ætla eg
mér þó þá dul, að rekja til fullrar hlítar æviferil og hina löngu og
7