Skagfirðingabók - 01.01.1990, Side 19
SÉRA LÁRUS ARNÓRSSON Á MIKLABÆ
Séra Lárus vandaði ræður sínar mjög og átti það til að breyta
þeim fram á síðustu stund. Strikaði þá gjarnan út heilu kaflana
og skrifaði nýja inn á spássíur eða á milli lína og þá eðlilega oft
með smárri og ógreinilegri stafagerð. En sjálfur flutti séra Lárus
ræður sínar eins og hann væri að lesa prentað mál og rak aldrei
í vörðurnar. Hygg eg raunar, að hann hafi kunnað þær nokkurn
veginn utanað.
Úr útfararrœdum
Gaman væri að geta birt hér svo sem eina útfararræðu séra Lár-
usar, en til þess er að sjálfsögðu ekki rúm. En þegar maður hefur
undir höndum nokkrar ræður eftir séra Lárus og hyggst velja úr
þeim kafla, þá fer manni líkt og séra Matthíasi þegar hann leit
yfir Skagafjörð og spurði: „Hvar skal byrja, hvar skal standa?"
Og sannast sagna hlýtur nánast hending ein að ráða því, hvað
fyrir valinu verður. Eg gríp hér niður í ræðu, sem séra Lárus
flutti, er hann jarðsöng nafna sinn, Lárus Lárusson, mann, sem
með nokkrum hætti mátti kalla olnbogabarn, sé miðað við það
hlutskipti og líf, sem menn yfirleitt kjósa sér:
Þó að Lárus, þessi sem hér er kvaddur, ætti um ýmislegt
nokkra sérstöðu í því umhverfi, þar sem hann lifði og dó,
þá var hann þó líkur bæði mér og þér - hann var maður,
eins og við. Hann var jarðarbarn, sem bæði þráði „sígræn
sólarlönd“ og „nóttlausa voraldarveröld". Hann var jarð-
arbarn, með öllum þeim helztu sæluþrám, sem jarðlífið
þekkir, eins og eg og þú. Og hann var fátækt vonbrigða-
barn, sem oft varð að láta sér lynda að una við langar og
dimmar nætur og föl og visin strá í stað sólaryls og
útsprunginna rósa, engu síður en eg og þú. I einu orði:
Hann var maður, sem átti þá þrá að vera maður með
mönnum.
En lífið er oft naumgjöfult við börnin sín á jörðu hér.
2 Skagfirdingabók
17