Skagfirðingabók - 01.01.1990, Side 27
SÉRA LÁRUS ARNÓRSSON Á MIKLABÆ
um því að sjaldan lét hann sig vanta á prestastefnu og eng-
um öðrum var hann líkur. Hann var óspar á að leggja til
mála, kvikur og ör í viðbrögðum, glettinn stundum og
orðskár og engan veginn ófús að leika þá list mælskunnar,
sem var einn hinna ríku þátta í fjölbreyttu og auðugu
gáfnafari. Sjaldan brást hann um það að láta einhver leiftur
snjallra hugmynda, samlíkinga og hnyttiyrða ganga um
salinn. Ræðumann í kirkju hygg eg hann hafa verið einn
hinn tilþrifamesta, þegar hann naut sín bezt. Yfir svip
hans og fasi var alltaf eitthvað ungt, ekki ráðið, a.m.k. án
slíks jafnvægis, sem fylgir stöðnun. Blikið í augum hans,
þegar hann var hrifinn og þar með sannastur, var
ógleymanlega bjart og tært. Miklibær er minni eftir fráfall
hans, Skagafjörðurinn fagri snauðari, yfirbragð stéttar
vorrar fáskrúðugra. Blessuð sé minning hans.
Smámunir
Stundvísi þótti ekki beinlínis hin sterka hlið séra Lárusar. Mun
það alloft hafa hent, að hann mætti ekki á kirkjustað fyrr en
nokkru eftir boðaðan messutíma. Þetta kom þó sjaldan að sök.
Kirkjugestir töldu sig geta gengið að þessu nokkuð vísu og hög-
uðu sér eftir því. Ekki hygg eg þó, að þessu hafi ráðið nein eðlis-
læg óstundvísi. Ollu fremur hitt, að þótt séra Lárusi væri létt
um mál og gæti verið fljótur að orða hugsanir sínar, þá vandaði
hann ræður sínar mjög. En prestur í sveit, sem jafnframt rekur
umfangsmikinn búskap og vill fylgjast með öllum daglegum
störfum heima fyrir, hefur í ýmis horn að líta. Því má vera, að
séra Lárus hafi stundum ekki byrjað að semja ræður sínar fyrr
en mjög var dregið að þeim degi, er þær skyldu fluttar. Auk þess
var hann að breyta þeim og bæta fram á síðustu stund, jafnvel
eftir að hann var kominn á kirkjustaðinn, en það vissi eg að við
bar. Er trúlegt, að hann hafi þá verið að hugleiða ræðuna á leið-
25