Skagfirðingabók - 01.01.1990, Síða 36
SKAGFIRÐINGABÓK
það auðvitað ljóst, að því fleiri flötum, sem upp var velt á
umræðuefninu, þeim mun meiri líkur voru á að ná skynsam-
legri niðurstöðu.
En að sjálfsögðu var þetta ekki alltaf þannig. Auðvitað átti
séra Lárus einnig sín áhugamál, sem hann barðist fyrir af heitri
og heilli sannfæringu. Við séra Lárus vorum engan veginn alltaf
á einu máli, og við fáa menn var skemmtilegra að eiga orðastað
á fundum. Og eg sé það betur nú, eftir á, að stundum var hann
langsýnni þeim, sem hann deildi við - og höfðu sitt fram. Eg
hygg, að í deilugirni séra Lárusar sé að leita skýringanna á því,
hversu torsótt honum reyndist leiðin til þeirra félagslegu met-
orða í sveit og héraði, sem hugur hans stóð til og hæfileikar
leyfðu. Og svo fjarstætt sem það kann í fljótu bragði að virðast,
þá voru það flokksbræður hans, sem oftast urðu honum þar
þyngstir í skauti. Kannski hafa þeir óttast, að öldurnar kynnu
stundum að verða of krappar, þegar séra Lárus var annars vegar.
Sú „hætta“ vill gjarnan stafa af þeim, sem tamara er að troða eig-
in slóðir en annarra. Og séra Lárus var ekki í neinum vafa um
það, að stundum gæti friðurinn — svo góður sem hann annars
alla jafna er - verið keyptur of dýru verði.
Að sjálfsögðu fór því fjarri, að séra Lárus leiddi þjóðmálin hjá
sér. Hann var þvert á móti mjög pólitískur og braut oft upp á
þeim málum við viðmælendur sína. Hann dáði mjög frænda
sinn Jón Þorláksson og fylgdi Ihaldsflokknum fast að málum,
meðan hann var og hét. Hann var óánægður með nafnbreyting-
una á flokknum. „Það þarf enginn að skammast sín fyrir að vera
íhaldsmaður,“ sagði hann. Og íhaldsmaður var hann, þessi ann-
ars breytinga- og jafnvel uppreisnargjarni maður — íhaldsmaður
í beztu merkingu þess orðs. Hann var í góðu vinfengi við þáver-
andi þingmenn Skagfirðinga, Magnús Guðmundsson og Jón á
Reynistað, og dró hvergi af sér við fylgisöflun fyrir þá við
alþingiskosningar. En þó hygg eg, að nánustu vini sína og sálu-
félaga - fyrir utan fjölskyldu og venzlafólk — hafi hann átt í hópi
pólitískra andstæðinga. Það var eins og hann fyndi frekar til
34