Skagfirðingabók - 01.01.1990, Page 105
SKAGFIRSKIR HÓRKARLAR
OG BARNSMÆÐUR ÞEIRRA
Á FYRRI HLUTA 19. ALDAR
eftir MÁ JÓNSSON
Gamall bóndi og vinur minn, Leó Jónasson á Svanavatni í
Hegranesi, sagði mér nýverið sögu af löngu dauðum karli í
sveitinni, sem var giftur góðri konu, en hélt við vinnukonuna og
eignaðist börn með báðum svona sitt á hvað. Hvorugri líkaði
illa og yfirvöld létu sig þetta fyrirkomulag litlu skipta. Vegna
rannsókna minna á ástum utan hjónabands á Islandi árabilið
1550-1850 þótti mér sagan merkileg, og af því Skagafjörður
hefur lengi verið mér kær, ákvað ég að kanna skagfirska hór-
karla sérstaklega. Að mínum dómi er hórkarl sá karlmaður sem
heldur framhjá eiginkonu sinni.
I greininni er þó aðeins tekinn fyrir einn hópur hórkarla,
nefnilega karlar sem lögðu svo mikla ást á barnsmæður sínar, að
þeir vildu fyrir alla muni ganga að eiga þær. Ekki var auðhlaup-
ið að því, og fyrir vikið eru skjöl til um málin á Þjóðskjalasafni
Islands í Reykjavík. Áður en lengra er haldið er rétt að taka
fram, að hórkarlar í Skagafirði voru hvorki fleiri né færri, betri
né verri, en hórkarlar í öðrum sýslum, heldur voru þeir ósköp
svipaðir og líklega alveg eins. Þess vegna verða líka tekin dæmi
úr öðrum sýslum, en þó aðeins hrökkvi Skagfirðingar ekki til.
Athugunin ætti því ekki aðeins að segja sitthvað um Skagafjörð,
heldur varpar hún ljósi á samskipti kynjanna um gervallt landið
á fyrri hluta 19. aldar.
103