Skagfirðingabók - 01.01.1990, Page 108
SKAGFIRÐINGABÓK
1823 ef þær fyrirgáfu eiginmanni sínum af heilum hug.4 Margar
féllust líka á að taka barnið að sér. Barnsmóðirin var að minnsta
kosti úr sögunni, enda samband hennar og bónda ef til vill að-
eins tilviljun eða stundargaman af hans hálfu. Bændur sváfu
margir hjá vinnukonum sínum af einskærri girnd, en kærðu sig
ekki hætishót um þær á eftir. Þeir gengust við barninu og
greiddu meðlag, en þóttust síðan lausir allra mála.
Atburðarás varð flóknari ef bóndi lagði hug á stúlkuna eftir
sem áður. Þá kom til greina, að reynt væri að halda henni á
heimilinu án þess að yfirvöld tækju eftir því, oft í trássi við hús-
freyju, en hugsanlega með samþykki hennar. Það var þó aldrei
til langframa vegna nálægðar prests og hreppstjóra og áhuga
þeirra á öllu, sem varðaði lög og reglu í sveitinni. Samt kemur til
greina, að efnaðir og áhrifamiklir bændur hafi átt auðveldara
með að halda hjákonur heima fyrir eða á nálægum bæ, saman-
ber Jón Höskuldsson hér á eftir. Þegar litið var til lengri tíma,
kom aðeins tvennt til greina, ef bóndi vildi halda áfram samför-
um við barnsmóður sína: andlát eiginkonu eða skilnaður að
lögum.
Elli eiginkonu: andlát kom sér vel
Umsókn Eilífs Jónssonar bónda á Heggsstöðum í Borgarfirði
um giftingarleyfi 24. janúar 1832 er ein örfárra, sem eru á
íslensku. Því er rétt að birta hana í heild, þótt ekki sé hún úr
Skagafirði:
Ég undirskrifaður hefi nú búið hér í Andakílshrepp innan
Borgarfjarðarsýslu í 14 ár, en þar mér vildi til það hlutfall
4 Sjá grein mína „Konur fyrirgefa körlum hór“ í Nýrri sögu 1987, bls. 70-78.
Því miður er nánast ekkert til af slíkum umsóknum úr Skagafirði vegna þess
að bústaður amtmanns Norður- og Austuramts á Möðruvöllum brann árin
1826 og 1874, og skjalasafnið með.
106