Skagfirðingabók - 01.01.1990, Blaðsíða 135
AÐ VERÐA FULLORÐINN
nema gegnum síma, og hann höfðum við ekki. Áreiðanlega
kom þetta mikla septemberáhlaup mörgum mjög í opna
skjöldu, en faðir minn var einstaklega veðurglöggur og aðgæt-
inn bóndi. Hann átti „baromet“, og undanfarna daga hafði það
staðið óvenju illa. Hann hafði strax um morguninn farið að hóa
saman fénu og hafði lokið því, er veðrið brast á, en ennþá vant-
aði nokkrar kindur. „Þær eru sjálfsagt utan við á“ sagði hann,
þar sem hann stóð í hríðarhempu sinni og var að leggja af stað
að leita.
Landslagi er þannig háttað, að um tveim kílómetrum norðan
bæjarins rennur Gljúfuráin, lítil spræna, í þröngu og djúpu
klettagili. Framan við gilið, nær vatninu, rennur áin á sléttum
eyrum og er engum farartálmi. Ætíð þurfti að hafa sérstaka
aðgát við Gljúfurárgilið ef áhlaup gerði. Ærnar sigu þá af stað
heimleiðis, en stoppuðu við ána, sem krapaði fljótt upp, og
hengjur mynduðust í gilbarminum. „Treystirðu þér að koma
með mér?“ spurði faðir minn. „Auðvitað“ svaraði ég. Nú var ég
elzti bróðirinn heima og fann til nokkurs stærilætis, en vissi þó
ekkert hverju ég var að játa. Eg borðaði eitthvað lítils háttar í
miklum flýti, móðir mín lét mig fá þurra vettlinga og lambhús-
hettu og síðan út.
Það var eins og högg að koma út í glórulausan bylinn, ég náði
varla andanum, gekk á eftir föður mínum og reyndi að missa
ekki sjónar á honum. Stundum gekk ég aftan á hann, er hann
stakk við fótum í hörðustu byljunum, en þetta var ekki nógu
karlmannlegt að ganga á eftir. Ég fikraði mig að hlið hans, og
samhliða strituðum við gegn verðurofsanum, hálfbognir með
hendur fyrir aftan bak. Við námum staðar í miðjum árfarvegin-
um, en hér var engin á. Hvernig gat þetta verið? Við vorum
áreiðanlega á réttum stað. „Krapastíflur uppfrá!“ kallaði faðir
minn í eyra mér og þverbeygði af leið upp í gilið. Þar var kyrr-
ara, en kófið þeim mun meira. Faðir minn gekk nú uppi í brekk-
unni undir slútandi hengjunni, en ég meðfram ánni, sem hér var
kyrrstæður krapaelgur og margfalt breiðari en hún átti að vera.
133