Skagfirðingabók - 01.01.1990, Page 136
SKAGFIRÐINGABÓK
Ég hóaði sem mest ég mátti og allt í einu gekk ég fram á
kindahóp, sem hímdi þarna í þéttum hnapp undir barði. Þær
hristu af sér snjóinn og hlupu af stað upp með ánni, en í sama
bili heyrði ég skerandi jarm utan af krapanum, hreint neyðaróp.
Ég pírði augun og sá ekkert, þá heyrði ég jarmið aftur, og nú sá
ég hana gegnum snjókófið. Hún flaut á krapinu úti á miðri ánni
og lítið nema hausinn uppúr. Hvað átti ég nú að gera? Það var
ekki tími til að finna föður minn og fá hjálp, hún myndi sökkva
þá og þegar og drukkna. Það var bara ein leið til bjargar, ég varð,
ég varð. Ég fór að fikra mig út í krapið, það dýpkaði smám
saman, stígvélin fylltust og enn dýpkaði. Ég var kominn upp að
mitti þegar ég náði til hennar og nú þótti mér ráðlegast að halda
áfram yfir, þangað þurfti hún að komast hvort eð var. Ég tók
um hornin báðum höndum, óð afturábak og fleytti henni í slóð
mína; brátt fór að grynnka, og loks dró ég hana á þurrt. Hún
skjögraði nokkur skref upp í melbakkann, en gafst þá upp og
fékkst ekki til að reyna meira. Ég strauk klakabrynjuna af
hausnum á henni, þetta var fullorðin ær frá næsta bæ. Ég varð
að koma henni upp úr gilinu, og ég varð að hreyfa mig, mér var
að verða verulega kalt, og fötin byrjuðu að frjósa. Ég reyndi að
draga hana flata upp brattan gilbarminn en það var mér alveg
um megn, ég bara gat það ekki. Þá skorðaði ég hana þvert á hall-
ann fór niður fyrir hana stakk höfðinu undir kvið hennar og
velti henni á axlir mér. Nú blotnaði það litla sem enn var þurrt
af fötum mínum, en áfram skreið ég og saman duttum við upp
á gilbarminn, og nú var mér ekki lengur kalt. Og sem ég lá þarna
og kastaði mæðinni, reisti ærin hausinn og jarmaði. Ut úr hríð-
inni kom faðir minn með kindahópinn, sem ég hafði áður séð,
hafði komizt þurrum fótum yfir ána þar sem hún rann í þrengsl-
um og kom nú svona alveg mátulega. Mikið var ég feginn. Ærin
skjögraði á fætur og slóst í hópinn. „Nú þóknast þér að reyna
að ganga“ tautaði ég á eftir henni og brölti á fætur. Ekki vissi
faðir minn í hvaða hrakningum ég hafði lent, og ég nefndi það
ekki, enda lítið tóm til samræðna vegna veðurofsans. Hann
134