Skagfirðingabók - 01.01.1990, Blaðsíða 164
HEIM í JÓLALEYFI 1925 OG 1934
eftir PÁL SIGURÐSSON frá Lundi
Haustið 1925 gerðist ég nemandi í Bændaskólanum á Hólum.
Fastur liður í skólastarfinu, og ekki sá ómerkasti, voru jólaleyf-
in. Til þeirra hlökkuðu flestir kennarar, nemendur og annað
heimafólk. Kennarar fengu hvíld frá ítroðslu hinna ýmsu fræða,
sem ærið oft var tekið misjafnlega á móti og árangur eftir því. Þó
mun tilhlökkun nemenda hafa átt öllu dýpri rætur, að komast
heim og halda heilög jól með sínum nánustu. Flestir reyndu að
komast til síns heima, ef nokkur tök voru á. Um nútíma farar-
tæki var ekki að ræða, þá áttu menn „fótum fjör að launa“. Veð-
ur og færi réðu miklu um, hversu fljótt og vel gekk.
Sumir þurftu skamman veg með byggðum og áttu að jafnaði
létta ferð fyrir höndum. En leiðin gat líka verið örðug þó fylgt
væri bæjum og ekki þyrfti yfir fjallvegi að fara. Til voru og þeir,
og ekki svo fáir, sem héldu sín jól á Hólastað, vegna þess hversu
langt var til vina og vandamanna. Margir lögðu þó á heiðar og
fjöll, þar sem veður eru oft válynd, færi verra og kennileiti og
vegvísar notast illa í dimmviðri. Enda kom fyrir, að nemendur
lentu í vandræðum, fóru villir vegar á fjöllum uppi, og dæmi
eru til um að stundum var teflt á tæpasta vað. Það voru einkum
Svarfdælingar, Eyfirðingar og Suður-Þingeyingar, sem áttu á
brattann að sækja. Oftast fóru þeir Heljardalsheiði, yfir hana lá
sími og var hann hinn bezti vegvísir. Stórum hættulegri leið var
yfir Héðinsskörð og Hjaltadalsheiði, en þær freistuðu Eyfirð-
inga og Þingeyinga vegna þess að þeir voru fljótari heim til sín,
ef vel gekk.
162