Skagfirðingabók - 01.01.1990, Síða 165
HEIM í JÓLALEYFI 1925 OG 1934
Ég hygg, að jólaleyfin hafi venjulega byrjað um 20. desember
og staðið fram um þrettánda eða rúman hálfan mánuð. En til var
að þeir, sem langt áttu heim, vildu gjarnan grípa gott veður og
færi, og fengu að fara einum til tveim dögum fyrr en jólaleyfið
hófst. Oftast var gengið seint til rekkju nóttina fyrir brottför af
ýmsum ástæðum, og stundum var dansað. Það voru því oft
svefnvana drengir, sem lögðu land undir fót. Var svo enn í þetta
sinn. Ekki var að jafnaði beðið birtu, en dagurinn tekinn
snemma og lagt kapp á að komast sem lengst hinn fyrsta dag.
Við vorum átta, sem héldum frá Hólum í áttina til Heljardals-
heiðar, Svarfdælingarnir Einar Sigurhjartarson frá Skeiði, Ingi-
mar Guttormsson frá Hæringsstöðum, Björn Björnsson frá
Göngustaðakoti og Stefán Björnsson frá Klaufabrekknakoti.
Eyfirðingarnir Marinó Þorsteinsson frá Litlu-Hámundarstöð-
um á Arskógsströnd, Kristinn Jónsson frá Syðra-Laugalandi og
Ólafur Magnússon frá Hóli; áttundi Páll Sigurðsson frá Lundi
í Stíflu, sem hér segir frá.
Það var ætlun mín að verða þeim félögum samferða fram um
Kambagil á Heljardal, skilja þar við þá og taka stefnu í norður-
átt, til Hákamba, en svo heitir fjallsröðullinn á milli Svarfaðar-
dals að austan og Deildardals og Unadals að vestan. Ekki hafði
ég farið þessa leið áður, en vissi að hún er auðrötuð í björtu
veðri. I góðu veðri og færi mun vera 4-5 klst. gangur milli
Skriðulands í Kolbeinsdal og Mjóafells í Stíflu.
Við lögðum upp frá Hólum fyrir dögun, trúlega um sjö leyt-
ið, borðuðum vel, vorum skjóllega klæddir, með pokaskjatta á
baki og brauðsneiðar í nesti. Allir voru á skíðum. Sumir voru
svo vitrir að koma með sín skíði um haustið, aðrir fengu þau
lánuð á Hólum. Ég held, að skólinn hafi átt tvenn eða þrenn pör
af skíðum. Ég átti allgóð skíði heima, eins og sönnum Stíflu-
manni bar, en hafði þau ekki með mér til Hóla. Sigurður Sig-
urðsson (Siggi búi), starfsmaður á Hólum, lánaði mér skíði og
lítinn broddstaf. Skíðin voru létt og efnislítil, en gerðu sitt gagn.
Síðustu daga hafði snjóað allmikið í logni, en hjarn var undir.
163