Skagfirðingabók - 01.01.1990, Side 195
AF SJÓ OG LANDI - MINNINGAR
hefir orðið. Eg hefi komizt yfir öll vandræði í lífi mínu með
guðs hjálp, enda alltaf haft hann með í verki. Eg bað bónda að
koma með mér ofan að ánni, en hann vildi það ekki. Sagði hann,
að áin hefði rutt sig skömmu eftir að eg fór yfir hana, og hefði
hundur minn vitað hvað í vændum var og viljað hafa mig sem
fyrst í burtu frá ánni, svo eg lenti ekki í ruðningnum.
Eg naut alls góðs af fólkinu í Saurbæ. Það vildi, að mér liði
sem bezt. Sérstaklega var Sofía mér góð. Bar eg síðan yl í brjósti
til hennar. Annað hefir það ekki átt að vera. Eg hefi alltaf haldið
spurnum fyrir henni, og vissi æði lengi hvað henni leið. Eina
dóttur mína lét eg heita í höfuð á henni.11
Eftir tveggja daga dvöl í Saurbæ, bjó eg mig til ferðar þaðan.
Voru föt mín öll hrein og þurr. Mér var hálfilla við að hafa pen-
ingana í vasa mínum. Þess gat eg við Sofíu. Hún fékk sér því
spotta og nál og saumaði punginn innan í skyrtur mínar þar sem
lítið bar á honum. Þótti mér þetta heillaráð, og við því hreyfði
eg ekki fyrr en heima. Kvaddi eg svo Sofíu og annað heimafólk
í Saurbæ með virktum og hélt að Myrkárdal, en þar átti eg að
taka peninga. Kristján [Arngrímsson] hét bóndi þar. Hann
kvaðst ekki hafa peningana til, en þyrfti að skjótast ofan að
Bægisá til síra Arnljóts.12 Bað hann mig að bíða og láta sauði
sína inn í kvöld ef hann yrði ekki kominn, þegar þess þyrfti. Eg
gerði eins og hann bað. Ekki vissi eg, hvað sauðirnir voru
margir, en inn lét eg 30. Um kvöldið kom bóndi og spurði mig
strax, hvort eg hefði látið inn sauðina. Eg kvaðst hafa látið inn
30 sauði. Hann varð glaður í bragði og sagði, að þá hefði ekki
marga vantað.
11 Soffía Guðmundsdóttir (1827-77) frá Staðartungu var 36 ára, þegar þessir
atburðir gerðust. Hún hlýtur því að hafa verið mjög ungleg. Skv. sóknar-
mannatali er hún ekki í Saurbæ þennan vetur, 1863-64, en hún gæti vel hafa
verið þar um tíma. Hún giftist skömmu síðar Jónasi Jónssyni (1842-1908),
og bjuggu þau á ýmsum jörðum í Hörgárdal. Að sögn Eiðs Guðmundsson-
ar á Þúfnavöllum þótti Soffía að öllu leyti fremst sinna systkina.
12 Arnljótur Olafsson prestur og alþingismaður (1823-1904).
13* Skagfirðingabók
193