Skagfirðingabók - 01.01.1990, Blaðsíða 204
SKAGFIRÐINGABÓK
Óslandskrók, en öllu frekar að Sauðárkrók. Var þá farið í beitu-
túra þangað. Höfðu menn þá línuna með sér og beittu þar á
staðnum og fóru í róður. Þetta þótti snjallræði, því snúnings-
samir þóttu þessir beitutúrar og tímafrekir, menn sátu þá ekki
iðjulausir í bátnum og létu vélarnar knýja bátinn áfram eins og
nú. Nei, þá var hamast á árunum og þótt menn teldu ekki eftir
sér að róa, var alltaf reynt að komast hjá að róa lengur eða meir
en þurfti. Því var siður margra að setjast að þar sem stytzt var í
fiskinn, t.d. héldu margir bátar út í Drangey meðan fiskur var
ekki kominn vel inn á fjörðinn, en fluttu sig svo til lands, þegar
styttist að róa í fisk þaðan.
Fyrir mér og öðrum bændum hér, sem einyrkjar vorum, var
fiskveiðin íhlaupsverk á meðan að stóð á allranauðsynlegustu
vorverkum. En þegar kom fram á túnaslátt, hættu bændur að
róa, nema rétt til að ná til matar. Eg reytti oft talsvert yfir vorið.
Atti eg oftast bátinn sjálfur og veiðarfæri, hirti þau vel og hafði
yfir höfuð lítinn tilkostnað. Það var oft þó drjúgur fiskur, sem
eg fékk og studdi að því, að eg verzlaði alla mína tíð skuldlaust.
Eg þótti verka vel bæði fisk og ull, og sóttust kaupmenn eftir
vörum mínum. Af því eg var skuldlaus, var eg ekki bundinn
neinum kaupmanni, lagði því vöru mína inn þar sem bezt
bauðst verðið. Oft greiddi eg vinnu í fiski, og til var, að eg
greiddi vinnulaun í kartöflum, og þótti það nýstárlegt í þá daga.
Kartöflurækt
I mínu ungdæmi sáust aldrei kartöflur, það var heldur aldrei um
þær talað og engum þá dottið í hug að rækta þær. Fyrir kom, að
kartöflur voru fluttar inn, en fátítt mun það hafa verið hér um
slóðir. Mig minnir, að eg væri kominn fast að þrítugu, þegar eg
bragðaði fyrst kartöflur. Fyrstu árin mín í Mýrakoti gerði eg til-
raun með að rækta kartöflur og tókst svo vel, að eg hélt því
áfram alla mína búskapartíð. Maðurinn, sem kom mér til þess
202