Jökull


Jökull - 01.12.1961, Page 24

Jökull - 01.12.1961, Page 24
FJALLAMENN Jóhannes Áskelsson t jarðfræðingur Hann andaðst snögglega 16. janúar 1961 að heimili sínu, Sólvallagötu 22 í Reykjavík. Þar eigum við enn á bak að sjá mætum manni úr hópi íslenzkra náttúrufræðinga. Jóhannes var fæddur í Austari-Krókum í Fnjóskadal 3. ágúst 1902, lauk stúdentsprófi í stærðfræðideild Menntaskólans í Rvk 1925 og lagði því næst stund á jarðfræði og skyldar námsgreinir um sex ára skeið við háskólann í Kaupmannahöfn. Að því búnu tókst hann á hendur kennslustörf í náttúrufræði við Mennta- skólann og var þar yfirkennari frá 1950. Við fleiri skóla kenndi hann jafnframt og hafði oft- ast ótrúlega langan vinnudag. Jafnframt vann hann öllum stundum að jarðfræðirannsóknum, einkum móbergi og steingervingum. „Öll hans vísindastörf bera einkenni þeirrar natni, vand- virkni og samvizkusemi, sem ætíð var hans aðal“, segir dr. S. Þórarinsson í minningargrein um hann látinn. Á námsárunum fór J. Á. í rannsóknaferðir til Islands 1 sumarleyfum, stundum í samfloti við erlenda fræðimenn, og á þeim árum vandist hann erfiðum ferðalögum og fjallgöngum. I þessu riti og í hópi jöklamanna verður J. Á. einkum minnzt vegna rannsóknaferða hans um Vatnajökul á árunum 1934—1945. Þegar eld- gos hófst í Grímsvötnum í marzlok 1934, brugðu þeir við Jóhannes og Guðmundur frá Miðdal og brutust þangað við mjög erfiðar aðstæður, meðan gosið stóð sem hæst. Tveir sænskir menn höfðu fundið Grímsvötn 15 árum áður. Þeir J. Á. og G. E. urðu fyrstir Islendinga þangað. Þegar Jóhannes kom úr þeirri för, hitti hann dr. Niels Nielsen frá Kmhöfn, sem hafði tekið sig upp til að skoða Grímsvatnagosið. Hann þurfti mjög á leiðsögumanni að halda, og réðst J. Á. þegar til ferðar með honum. Sumarið eftir fór J. Á. tvær ferðir til Grímsvatna, fyrst með dr. Trausta Einarssyni, og lögðu þeir leið sína upp eftir Skeiðarárjökli. I þeirri ferð gerði Trausti ágætan uppdrátt af Grímsvötnum og 22 nágrenni. Síðari ferðina fór J. Á. ásamt Kr. Ó. Skagfjörð og Tryggva Magnússyni. Þeir lögðu upp frá Hoffelli, gengu til Kverkfjalla og þaðan um Grímsvötn suður í Fljótshverfi. Athuganir sínar á Grímsvatnagosinu og Skeið- arárhlaupi birti J. Á. í sérstöku riti: On the Last Eruptions in Vatnajökull. Soc. Sci. Is- landica 18. Sumarið 1945 hljóp Skeiðará. Þá um haustið lagði J. Á. enn upp til Grímsvatna til að at- huga verksummerki. Hefur hann ritað skemmti- lega og fróðlega frásögn af þeirri ferð í næst- síðasta hefti Jökuls (1959), og vísast til liennar. Jóhannes Áskelsson var þvi merkur brautryðj- andi í rannsóknum á Vatnajökli. Nokkur ör- nefni þar eru frá honum runnin, t. d. Þórðar- hyrna (til minningar um Þórð Vídalín skóla- meistara), Geirvörtur, Háabunga, og í raun og veru staðsettu þeir Guðmundur frá Miðdal Grímsvatna-nafnið þar, sem það átti heima, því að áður hafði það jafnvel verið sett við Græna- lón, og Svíarnir, sem komu til Grímsvatna 1918, vildu kalla staðinn Svíagíg. Jóhannes var kvæntur Dagmar Eyvindsdótt- ur Árnasonar, og lifir hún mann sinn ásamt stálpuðum syni, Erni að nafni. J. Ey.

x

Jökull

Direct Links

If you want to link to this newspaper/magazine, please use these links:

Link to this newspaper/magazine: Jökull
https://timarit.is/publication/1155

Link to this issue:

Link to this page:

Link to this article:

Please do not link directly to images or PDFs on Timarit.is as such URLs may change without warning. Please use the URLs provided above for linking to the website.