Tölvumál - 01.10.2012, Síða 15
15
lengur og meira sem leikið er aukast möguleikarnir á að verða betri
spilari eða leikmaður. Það hefur auðvitað áhrif á fjölda þeirra
stunda sem strákar eyða í leiknum og gæti leitt til þess að
einstaklingar sitji við leikinn marga tíma á dag. Það hefur verið
sannað að slík ofnotkun gæti haft neikvæð áhrif á margvíslega
þætti eins og samband við foreldra, skapsveiflur og sjálfsmynd.
Rannsóknir okkar sýndu að um 45% unglinga telja sig eyða of
miklum tíma í tölvunni. Við teljum það gefa til kynna að unglingarnir
sjálfir séu meðvitaðir um of mikla tölvunotkun sína. Á móti eru
aðeins 12% unglinga, eða 1 af hverjum 10, sem segjast alls ekki
eyða of miklum tíma í tölvunni sem að okkar mati er verulega lág
tala og í raun sláandi niðurstöður.
Í könnuninni spurðum við þátttakendur hvort þeir fyndu reglulega
fyrir þörf eða löngun til að vera í tölvunni og hvort þeim fannst þeir
þurfa að fara í tölvuna á hverjum degi. Að okkar mati voru
niðurstöður þeirra spurningar verulega merkilegar en um 53%
unglinga sögðust mjög oft eða oft finna fyrir reglulegri þörf eða
löngun til að fara í tölvuna. Þá sögðust 54% unglinga þurfa að fara
í tölvuna á hverjum degi eða alltaf þegar þeir höfðu tækifæri til og
21% sagðist líða betur en aðeins 25% sögðust alls ekki þurfa að
fara í tölvuna á hverjum degi sem er aðeins um fjórðungur unglinga.
Slíkar niðurstöður gefa til kynna að unglingar séu að einhverju leyti
háðir tölvunni og þeim afþreyingarmöguleikum sem hún hefur upp
á að bjóða. Þetta þykir okkur slæm þróun sem gæti haft afdrifaríkar
afleiðingar fyrir unglingana seinna meir því samkvæmt rannsóknum
eru unglingar sem eyða óhóflega miklum tíma í tölvunni einu og
hálfu sinni líklegri til að þróa með sér einkenni þunglyndis, vilja
síður hitta vini sína, taka síður þátt í reglubundnu fjölskyldulífi og
hitta síður foreldra sína, systkini eða aðra ættingja. Þegar unglingar
voru spurðir hvort þeir gætu tekið sér vikufrí (sjö daga) frá tölvu
sögðust 70% unglinga pottþétt eða líklega geta gert það. Þær
niðurstöður eru nokkuð jákvæðar miðað við niðurstöður hér að
ofan um allt of mikla þörf unglinga til að vera í tölvunni. En á móti
kemur að 30% unglinga telja sig ekki geta verið frá tölvu í eina viku
sem er of hátt hlutfall.
Of mikil tölvunotkun getur aukið hættuna á ýmsum líkamlegum
eymslum sem rekja má til of mikillar kyrrstöðu og óæskilegrar
setstöðu. Niðurstöður könnunarinnar sýndu að rúm 18% unglinga
hafi fundið mjög oft eða oft til verkja í skrokknum, til dæmis í öxlum,
baki eða hálsi, sem má rekja til tölvunotkunar þeirra. Okkur finnst
það vera neikvæðar niðurstöður, þegar litið er á aldur þátttakenda,
að nánast 1 af hverjum 5 hafi fundið til slíkra verkja.
Hjá stórum hluta unglinga hefur tölvan áhrif á það hvenær þeir fara
að sofa en um 39% unglinga í könnun okkar segja að tölvan hafi
mjög oft eða oft haft slík áhrif. Eflaust eru unglingar mikið í tölvunni
á kvöldin þegar útivistartíma þeirra er lokið og þeir mega ekki vera
lengur úti og vera meðal vina. Unglingar nota þá hinar ýmsu
samskiptasíður sem netið hefur upp á að bjóða til að spjalla lengur
saman. Hins vegar vilja unglingar síður viðurkenna það að tölvan
hafi áhrif á hversu þreyttir þeir eru daginn eftir. Niðurstöður
rannsóknar okkar sýna að rúmlega 81% unglinga segja að tölvan
hafi sjaldan, mjög sjaldan eða aldrei áhrif á það hvort þeir séu
þreyttir daginn eftir. Það er einkar áhugavert að bera þessar
niðurstöður saman, það er að tölvan hafi áhrif á það hvenær þau
fari að sofa en hún hafi ekki áhrif á það hversu þreytt þau eru
daginn eftir. Því getum við enn velt fyrir okkur hvort unglingar vilji
ekki viðurkenna slæmu áhrifin sem tölvan geti valdið eða séu
einfaldlega ekki meðvitaðir um þau.
Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að stór hluti unglinga
eyðir töluverðum tíma í tölvunni, verður að komast í tölvu reglulega
og getur ekki verið marga daga í einu frá henni. Það bendir til að
hluti unglinga á Íslandi gæti talist með væga tölvufíkn sem getur
orðið að alvarlegu vandamáli ef ekkert verður gert í málunum. Þá
sýndu niðurstöður að tölvunotkun hefur áhrif á heilbrigði unglinga,
það er sumir glíma við líkamleg eymsli, hreyfingarleysi og
óreglulegar svefnvenjur. Einnig hefur tölvunotkun, að mati unglinga,
dregið úr námsárangri og haft áhrif á það hvort unglingar ljúki
heimalærdómi.
Greinilega er mikilvægt að fræða unglinga enn frekar um skaðsemi
tölvunnar og þau neikvæðu áhrif sem of mikil tölvunotkun getur
valdið. Niðurstöður rannsóknar okkar voru eins og við höfðum
búist við en engu að síður er það nokkuð athyglisvert og í raun
slæmt að sjá hversu hátt hlutfall þátttakenda taldi tölvunotkun hafa
áhrif á bæði heilbrigði og námsárangur sinn.
Þá sýndu niðurstöður að tölvunotkun hefur áhrif á heilbrigði
unglinga, það er sumir glíma við líkamleg eymsli,
hreyfingarleysi og óreglulegar svefnvenjur.