Tölvumál - 01.10.2012, Qupperneq 21

Tölvumál - 01.10.2012, Qupperneq 21
21 Einn af athyglisverðustu vaxtarsprotum íslensks atvinnulífs undanfarin ár hefur verið leikjaiðnaðurinn. Undir þeim hatti eru allnokkur fyrirtæki, allt frá þekktum og burðugum fyrirtækjum á borð við CCP og Betware niður í örsmá sprotafyrirtæki. Möguleikar leikjaiðnaðarins eru miklir í nettengdum heimi nútímans, enda er flutningskostnaður á afurðinni, tölvuleiknum, hverfandi miðað við flestan annan iðnað á Íslandi. Það hefur ítrekað komið fram í fréttum að eitt af því sem háir þessum fyrirtækjum hvað mest í starfsemi þeirra er skortur á tækni menntuðu fólki, og þá einkum fólki með menntun á sviði upplýsingatækni. Það er því sérstaklega mikilvægt að verðandi tölvunarfræðingar hafi tækifæri til að afla sér menntunar sem er góð undirstaða fyrir störf í leikjaiðnaðinum. Háskólinn í Reykjavík (HR) er stærsti tækniháskóli Íslands og hefur útskrifað bróðurpartinn af tölvunarfræðingum landsins undanfarinn áratug, auk þess að vera öflugasta rannsóknarstofnunin á sviði upplýsingatækni. Í stefnu Háskólans í Reykjavík (http://www.ru.is/ haskolinn/stefna/) segir meðal annars: HR tekur virkan þátt í mótun og uppbyggingu atvinnulífs og samfélags og leggur áherslu á að mæta þörf fyrir sérfræðiþekkingu með menntun, rannsóknum, nýsköpun, þróun og þátttöku í samfélags­ umræðu. Það var í þessum anda sem fulltrúar samtaka leikjaframleiðenda, IGI (Icelandic gaming industry) og HR undirrituðu samning á vormánuðum 2010 til að þróa samstarf um kennslu og rannsóknir á sviði þróunar tölvuleikja. Í þessari grein verður lýst helstu atriðum þessa samnings og hvaða framtíðarmöguleika hann gefur leikja iðnaðinum á Íslandi. RannsóknaRsamstaRF Umtalsvert rannsóknarsamstarf hefur verið með Háskólanum í Reykjavík og IGI undanfarin ár og eitt af lykilmarkmiðum samnings HR og IGI var að efla rannsóknarsamstarfið enn frekar og festa það í sessi. Rannsóknarsetrið CADIA (Gervigreindarsetur HR) var stofnfélagi í IGI og vísindamenn CADIA hafa unnið að fjölmörgum verkefnum með fyrirtækjum úr leikjaiðnaði. Nemendur hafa einnig unnið lokaverkefni sem tengjast einstökum tölvuleikjum og rannsóknar hópar hafa unnið að rannsóknum og þróun á nýrri tækni sem hagnýta má við tölvuleiki. Stærsta samstarfsverkefnið hingað til er HASGE verkefnið (Humanoid Agents in Social Game Environ ments), sem var leitt af vísindamönnum við CADIA, í samstarfi við CCP, Universite Paris 8 og ISI stofnunina í Bandaríkjunum, en niðurstöðum þessa verkefnis er lýst í annarri grein í þessu blaði. Það er trú okkar sem störfum við HR að efling rannsóknar samstarfsins sé mikilvægur þáttur í eflingu íslenska leikjaiðnaðarins. Leikjaiðnaðurinn getur sagt vísindamönnunum frá þeim vandamálum sem fyrirtækin standa frammi fyrir. Vísindamennirnir geta nýtt sér samstarfið til að jarðtengja rannsóknir sínar, með því að þróa aðferðir sem leysa raunveruleg vandamál og gefa þeim þannig aukið vægi. Þannig geta báðir aðilar eflst af slíku samstarfi. Með eflingu rannsóknarsamstarfs að markmiði, þá kveður samstarfssamningur HR og IGI meðal annars á um samráðsfundi sem halda skal reglulega til að koma á umræðu um þarfir leikjaiðnaðarins og möguleg samstarfsverkefni í rannsóknum. Fyrsti samráðsfundurinn var haldinn síðasta vor og ljóst er að í þessu samstarfi eru fólgin fjöldamörg sóknarfæri. ÁHeRslusviðið “þRóun tölvuleikja” Hin lykilstoðin í samstarfssamningi HR og IGI var stofnsetning áherslusviðs um þróun tölvuleikja í BSc námi í tölvunarfræði og síðar tölvunarstærðfræði við HR. Þetta áherslusvið felst í að nemendur ljúka (að minnsta kosti) fimm valnámskeiðum sem tengjast þróun tölvuleikja. Af þessum námskeiðum eru fjögur námskeið í kjarna áherslusviðsins, en fimmta námskeiðið má velja úr hópi skyldra námskeiða. Við val á námskeiðum fyrir áherslusviðið var sérstaklega horft til þarfa leikjaiðnaðarins eins og forsvarsmenn fyrirtækjanna lýstu þeim. Kjarnanámskeiðin fjögur eru flest tiltölulega hefðbundin og gagnleg valnámskeið í tölvunarfræðinámi, en með því að tengja þau við áherslulínuna fá þau aukið vægi í hugum nemenda. Þar er um að ræða i) eitt framhaldsnámskeið í forritun, annað hvort Hlutbundin forritun í C++ eða Verkefnalausnir og áhrifarík forritun, þar sem nemendur eru þjálfaðir í áhrifaríkri forritunartækni, ii) námskeiðið Línuleg algebra, sem er mikilvæg undirstaða fyrir tölvugrafík, iii) námskeið um Tölvugrafík, og iv) námskeið um Högun leikjavéla, en þetta er nýtt námskeið sem þróað var sérstaklega fyrir áherslu sviðið. Meðal valnámskeiða áherslusviðsins má nefna námskeiðin Gervigreind, Afköst gagnasafnskerfa, og Samskipti manns og tölvu. Til að efla áherslusviðið mun IGI bjóða upp á valnámskeið fyrir áherslusviðið sem fjalla um þau tæknilegu og samfélagslegu viðfangsefni sem leikjaiðnaðurinn glímir við og telur mikilvægt að framtíðarstarfsmenn fyrirtækjanna kynnist. Þessi námskeið eru skipulögð og kennd af sérfræðingum leikjaiðnaðarins, sem gefur nemendum einstakt tækifæri til að fá innsýn í leikjaheiminn strax í náminu. Þetta áherslusvið hefur vakið mikla athygli og áhuga meðal nemenda og fyrstu tölvunarfræðingarnir með áherslusvið í þróun tölvuleikja útskrifuðust frá HR síðasta vor. samstaRF til FRamtíðaR Háskólinn í Reykjavík hefur það að markmiði að efla íslenskt atvinnulíf, með menntun og rannsóknum sem byggja upp sérþekkingu sem styður við framþróun atvinnulífsins. Það samstarf sem HR og IGI lögðu upp í vorið 2010 er mikilvægt skref í átt að þessu markmiði. Samstarfið hefur þegar skilað góðum árangri á stuttum tíma og við væntum enn meiri ávinnings fyrir íslenskt samfélag á komandi árum. menntun og RannsókniR Á sviði tölvuleikja: samstaRF HR og igi Björn Þór Jónsson, forseti tölvunarfræðideildar HR

x

Tölvumál

Direct Links

Hvis du vil linke til denne avis/magasin, skal du bruge disse links:

Link til denne avis/magasin: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Link til dette eksemplar:

Link til denne side:

Link til denne artikel:

Venligst ikke link direkte til billeder eller PDfs på Timarit.is, da sådanne webadresser kan ændres uden advarsel. Brug venligst de angivne webadresser for at linke til sitet.