Tölvumál - 01.10.2012, Page 30
30
Hinn 9. júní 2012 lést í Reykjavík Jakob
Jóhannes Sigurðsson fyrrum forstöðu-
maður tölvudeilda Flugleiða og Slátur-
félags Suðurlands á 86 aldursári.
Jakob Sigurðsson var meðal
frumkvöðla í hagnýtingu tölvutækn innar
á Íslandi. Hann fæddist á Skaganum
18. júlí 1926, knatt spyrnuáhugamaður alla tíð, þátttakandi í þeirri
ágætu íþróttagrein á yngri árum en varð fyrir því óláni að fótbrotna á
æfingu með þeim afleiðingum að síðar þurfti af taka af honum annan
fótinn eftir að ítrekaðar tilraunir til lækninga hér og erlendis höfðu ekki
borið árangur.
Jakob hlaut almenna menntun meðal annars í Flensborgar-
skóla í Hafnarfirði. Hann stundaði síðan verslunarstörf m.a. hjá HB á
Akranesi og skipasmíðastöð Þorgeirs og Ellerts. Á stríðsárunum vann
hann mikið í herstöðinni í Hvalfirði og fékk þar ágæta skólun í enskri
tungu, sem nýttist vel síðar á lífsleiðinni. Eftir að skýrsluvinnsluvélar
komu til sögunnar hér á landi á 6. áratugnum fékk hann fljótt áhuga á
þessari nýju tækni og í framhaldinu réðist hann til Sláturfélags
Suðurlands á árinu 1964, er ákveðið var að nútímavæða skrifstofuhald
félagsins. Var honum falið að sjá um það verkefni.
Á þeim tíma hafði verið tekinn í notkun vélbúnaður af gerðinni
Unit record. Þessi vélbúnaður samanstóð af nokkrum vélum sem hver
um sig hafði ákveðið hlutverk. Ein vélin gat margfaldað og reiknað t.d.
söluskatt og skráð niðurstöðuna í 80 stafa gataspjald, önnur gat
samraðað spjöldum og sú þriðja raðað spjöldum í ákveðna röð, en sú
stærsta skrifaði á pappír. Forritin voru járnrammar með götum sem
vírar voru tengdir í og var þetta var forritið sem vélin vann eftir. Þessar
vélar voru teknar í notkun 1964 og gerbreyttu vinnslu á sölureikningum
og bókhaldi félagsins. Það var mjög áhugavert fyrir unga menn að
koma inn í þennan nýja heim og fá tækifæri að nema af Jakobi allt sem
hann kunni enda var hann framúrskarandi góður kennari.
Það var svo um haustið 1967 að fyrsta tölvan kom til
Sláturfélagsins. Hún var af gerðinni IBM System 360 með 256 kb í
minni. Hér var komin vél sem var notuð fram að því að deildin var
sameinuð tölvudeild Loftleiða síðar Flugleiða á seinni stigum. En áður
en það varð þá var minni stækkað í 512 kb. ásamt 5,4 MB diskum.
Þetta breytti miklu því nú var hægt að geyma upplýsingar á þessum
diskum í stað spjalda. Tveir diskar gátu verið í notkun samtímis. Til að
geta notað þessa vél urðu menn að læra RPG forritunarmálið undir
handleiðslu Jakobs, sem að dómi starfsmanna var afar fljótur að læra
sjálfur sem og að tileinka sér hlutina.
Á þessum árum var allur vélbúnaður leigður af IBM og var það
nokkuð kostnaðarsamt. Að undirlagi hins ráðdeildarsama Jakobs var
farið að taka að sér tölvuvinnslu fyrir önnur fyrirtækii til að hafa tekjur á
móti auknum kostnaði. Dæmi um fyrirtæki, sem byrjuðu sína
tölvuvinnslu hjá Sláturfélaginu eru Mjólkursamsalan, Eimskip,
Verslunarbanki Íslands, Flugfélag Íslands, Hekla, Nói Siríus, G.
Ólafsson, SPRON, Erfðafræðistofnun og Búreiknistofa landbúnaðarins.
Jakob var mjög duglegur að fá önnur fyrirtæki í viðskipti og
þurfti því að fjölga starfsmönnum og stækka húsnæði. Þegar ákveðið
var að sameina tölvudeild Sláturfélagsins tölvudeild Loftleiða þá voru
10 starfsmenn að störfum og 8 af þeim unnu vaktavinnu. Á þeim tíma
var unnin umfangsmikil tölvuvinna hjá Sláturfélaginu undir styrkri stjórn
Jakobs. Á þessu má sjá að Jakob var mikill brautryðjandi í tölvuvinnslu
á Íslandi og er vert að nafni hans sé haldið á lofti fyrir þær sakir.
Haustið 1973 voru tölvudeildir Loftleiða og Sláturfélags
Suðurlands endanlega sameinaðar og var þar lagður grunnurinn að
tölvudeild Flugleiða, sameinuðu félagi Loftleiða og Flugfélags Íslands,
sem tók til starfa snemma árs 1974. Maðurinn á bak við þessar
sameiningar var Jakob. Hann sá því snemma fyrir þá þróun í
tölvuheiminum, sem síðar varð, að ekki þarf vélbúnaðurinn að vera
staðsettur innan veggja hvers fyrirtækis til að góðum árangri verði náð.
Hinn sjálfmenntaði Jakob Sigurðsson fylgdist vel með þróun
tölvumála í heiminum. Þekkingu sína notaði hann í starfi sínu ekki síst
hjá Flugleiðum. Hann hafði góðan skilning á, að öflugur vélbúnaður
var forsenda góðs árangurs. Hins vegar taldi hann að sígandi lukka
væri best og varð því þróun í tölvubúnaði félagsins farsæl og án
stökkbreytinga. Hann lagði jafnan áherslu á, að ákvarðanir væru
kostnaðarlega réttlætanlegar og skiluðu fjárhagslegum árangri.
Eitt af því sem Jakob beitti sér fyrir hjá Flugleiðum var miðlæg
skráning upplýsinga. Á þeim tíma var skráning gagna yfir í véllesanlegt
form lykilatriði í nær öllum rekstri. Hjá Flugleiðum sáu tugir götunar-
stúlkna um þennan þátt og skiluðu góðu starfi. En Jakob sá fyrir sér
nýjar leiðir, sem voru meir í takt við nútímann, að skráning gagnanna
verði til við stofnun þeirra. Þess vegna beitti hann sér fyrir þeirri nýjung
að keypt var svonefnt Key to Disk skráningarkerfi af gerðinni CMC 5
frá Englandi. Þetta var í fyrsta skipti sem íslenskt fyrirtæki keypti
tölvubúnað frá öðrum en þeim, sem höfðu söluumboð hér á landi.
Reyndist þessi ákvörðun farsæl, í takt við nýja tíma og nýttist lengi. Er
þetta dæmi um hvernig Jakob fór ótroðnar slóðir í starfi sínu, sem
reyndust farsælar.
Jakobi var snemma ljóst, að til þess að eðlileg þróun gæti orðið
í tölvuvæðingu verkefna Flugleiða væri nauðsynlegt að koma þar upp
gagnagrunnskerfi. Aðeins væri spurning um hvaða kerfi yrði valið.
Öllum var ljóst og ekki síst honum, að vanda yrði til þeirrar ákvörðunar,
þar sem vinnsla margra komandi ára kæmi til með að byggja á henni.
Niðurstaða varð sú að ADABAS gagnagrunnskerfið ásamt forritunar-
málinu NATURAL frá Software AG í Þýskalandi varð fyrir valinu. Var
leitað eftir samvinnu allra þeirra stofnana og fyrirtækja, sem höfðu
viðeigandi vélbúnað að fá þessi hugbúnaðarkerfi til landsins. Ekki var
einhugur um þetta ráðslag á sínum tíma. Fór svo að þróun ADABAS
staðnaði. Er Jakob varð þess áskynja og endurbætt DB2 gagna-
grunnskerfi frá keppinautnum IBM kom á markað beitti Jakob sér fyrir
því sem fyrirtækinu var hagkvæmast. Í framhaldinu leysti DB2
ADABAS af hólmi.
Jakob var þannig alltaf maður raunveruleikans og víðsýninnar.
Hann var sveigjanlegur en jafnframt staðfastur og trúr sinni
sannfæringu. Hann var gagnrýninn en tók jafnan rökum. Hann horfði
til framtíðar og sat aldrei fastur í farinu. Þeim hjá IBM þótti hann
stundum erfiður en hann var alltaf til í að hlusta. Hann lét aldrei hlut
sinn nema góð rök væru fyrir hendi. Hann hugsaði jafnan um kostnað
og hagkvæmni og gerði sér grein fyrir því að dýrt gat verið að reisa sér
hurðarás um öxl og byggja skýjaborgir. Hagur vinnuveitenda hans var
honum ofarlega í huga. Hann var í miklu áliti meðal samstarfsmanna
og almennt í tölvutæknigreininni og oft leitað í hús til hans til ráða.
Kannski rís starfsferill Jakobs hæst með þróun og rekstri eigin
bókunarkerfis Flugleiða á áttunda áratugnum. Ásamt fáum góðum
samstarfsmönnum tókst að koma upp bókunarkerfi á litlum og
tiltölulega ódýrum móðurtölvubúnaði. Var talið ótrúlegt að þetta skyldi
takast með jafn litlum tilkostnaði, sem var brot af því, sem annars
staðar þekktist við hliðstæðar lausnir Byggðist þessi árangur á
yfirburðaþekkingu á tölvu- og fjarskiptatækni, sem samhentur hópur
starfamanna bjó yfir. Var þetta kerfi án efa langstærsta sívinnslukerfið
hérlendis á þessum tíma, þar sem þúsundir skjáa og vinnustöðva um
allan heim gátu haft sambandi við bókunarkerfi félasins um hið
háþróaða fjarskiptaneti SITA en Flugleiðir voru með leigulínu til
aðalstöðva SITA í London, fyrst íslenzkra fyrirtækja, sem voru með
slíka leigulínu til útlanda fyrir tölvugögn.
Spor frumkvöðlanna verða seint fullmetin af verðleikum.
Ástæða er til að halda á lofti þeim sporum, sem Jakob Sigurðsson
hefur markað. „Þekking er forsenda framfara“ eru orð sem höfð voru
eftir þessum sjálfmenntaða frumkvöðli í einhverju spjalli eftir að
starfsferlinum lauk. Megi minning hans lengi lifa.
Sverrir Ólafsson
Sigurjón Stefánsson
andlÁt
jakob siguRðsson