Tölvumál - 01.10.2013, Blaðsíða 41

Tölvumál - 01.10.2013, Blaðsíða 41
41 Hugmyndafræði MenntaMiðju Menntamiðja byggist á hugmyndafræði Etienne Wenger um starfssamfélög og sérstaklega hugmyndum hans um hvernig aðkoma ólíkra aðila að slíku samstarfi stuðlar að nýbreytni og þekkingarsköpun. Lykilhugtakið í hugmyndafræði Wengers í þessu samhengi er „tvívirkjun„ (e. duality). Í því felst að aðkoma ólíkra aðila að samstarfi skapar togstreitu sem hvetur til mótunar nýrra lausna á þeim viðfangsefnum sem við er að etja. Með því að virkja ólíka hópa, miðla upplýsingum og þekkingu á milli þeirra, og skapa tækifæri til margvíslegs samstarfs stuðlar MenntaMiðja að tvívirkjun og nýbreytni innan starfssamfélaga. Markmið Mennta Miðju er því að virkja hópa sem hafa þekkingu, áhuga og erindi í margbreytilega orðræðu um þróun menntunar og skólamála, s.s. kennarar, skólastjórnendur, fræðimenn, stefnumótendur og ekki síst nemendur í menntunarfræði deildum háskólanna – þ.e. nýliðana, sem eru oft öflug uppspretta frjórra hugmynda. Í bók Wengers, White og Smith, Digital Habitats: Stewarding Technology for Communities, er fjallað um starfssamfélög á netinu og skilyrði fyrir því að virkja slík samfélög. Þar er sérstaklega þrennt sem hefur haft áhrif á mótun MenntaMiðju: 1. Einstök starfssamfélög eru ólík – jafnvel gjörólík. Það er ekki hægt að alhæfa um eðli starfssamfélaga og skipa í eitt mót. Þess vegna skiptir máli að starfssamfélög eru sjálfsprottin og fá að móta sig sjálf til að sinna sem best þörfum þeirra hópa sem starfseminni er ætlað að ná til. 2. Til að ná fram markmiðum sínum nota einstök starfssamfélög mismunandi aðferðir, sem geta falið í sér mjög fastmótaðar og formlegar samskiptaaðferðir, óformleg samskipti í opnu umhverfi, og allt þar á milli. Þeir sem leiða starfssamfélög þurfa að vera meðvitaðir um viðeigandi samskiptahætti og sníða umhverfið í samræmi við þá. 3. Upplýsingatækni hefur bein áhrif á uppbyggingu og viðhald starfssamfélaga og skiptir því máli að markmið og markhópur hvers samfélags ráði því hvaða tækni er notuð og hvernig. Starfssamfélögin sem tengjast MenntaMiðju eru sjálfsprottin grasrótar- samfélög sem eru sérsniðin að þörfum einstakra hópa. MenntaMiðja hefur lítið komið að myndun einstakra starfssamfélaga heldur er frekar unnið með starfsfélögum sem þegar hafa eða eru að myndast. Þannig eru tvö nýjustu samstarfstorg MenntaMiðju, Heimspekitorg og Upplýsingatækni-Torg (UT-Torg), byggð á starfssamfélögum sem hafa mótast yfir nokkuð langan tíma. Heimspekitorg Félags heimspekikennara er t.d. sérlega öflugur vettvangur þar sem um árabil hefur verið markvisst unnið að því að efla heimspekikennslu í íslenskum skólum. UT-Torg er annars eðlis. Þar er um að ræða torg sem byggir á reynslu fjölda starfs- samfélaga sem eiga sér mislanga sögu auk fagfélags upplýsinga- tæknikennara, 3F. Mörg þessi samfélög hafa verið mótuð í kringum afmörkuð viðfangsefni, t.d. notkun spjaldtölva í námi og kennslu, meðan önnur eru víðtækari og fást við almenna notkun upplýsingatækni í skólastarfi . Með myndun UT-torgs sem vinnur með öllum þessum samfélögum er stuðlað að auknu upplýsinga flæði meðal einstakra hópa þannig að reynsla og þekking sem er til staðar nýtist sem best. Eitt lykilhlutverk MenntaMiðju er að veita ráðgjöf um uppbyggingu starfssamfélaga og sérstaklega um notkun upplýsingatækni í því sambandi. Í kringum MenntaMiðju hefur myndast samfélag verkefnisstjóra einstakra torga og aðila innan fræðasamfélags háskólanna og ber þar hæst samstarf við Rannsóknarstofu í upplýsingatækni og miðlun (RANNUM) sem býr yfir mikilli þekkingu á notkun upplýsingatækni í námsumhverfi. Reynsla þessara aðila hefur sýnt að það skiptir miklu máli fyrir virkni starfssamfélaga hvaða tækni er notuð. Sérstaklega er mikilvægt að tæknin sé aðgengileg, auðveld í notkun og að hún krefjist sem minnstar fyrirhafnar af hálfu notenda. Þannig hefur t.d. gefið mun betri raun að notast við samfélagsmiðla sem sem eru þegar þekktir og mikið notaðir, e.o. Facebook, Pinterest og YouTube, en að byggja upp samskipta- og samstarfsmöguleika á vefsvæðum einstakra torga. Þessu fylgja bæði kostir og gallar. Helstu kostirnir við að nota þekkta samfélagsmiðla eru að margir þeirra, sem verið er að reyna að ná til, eru þegar virkir notendur á þessum miðlum. Þar af leiðandi þurfa einstaklingar ekki að skrá sig á nýjan vef og læra á hann til að kynnast samfélaginu og taka þátt í starfseminni sem þar fer fram. Helsti gallinn á mörgum samfélagsmiðlum sem eru notaðir í dag er að margt af því sem fer fram innan samfélaganna varðveitist illa. Þessir miðlar, og sérstaklega þeir sem njóta mestra vinsælda eins og Facebook og Twitter, eru ekki hannaðir með starfs samfélög, eins og þau sem tengjast MenntaMiðju, í huga. Þeir eru mjög kvikir þannig að áherslur og umræðuefni breytast ört. Eldri samskiptum og því sem hefur áunnist með þeim er þá skipt út fyrir nýrri spjallþræði og verða fljótt ósýnileg nýjum notendum og eru endurtekningar á spurningum og umræðuefnum því algengar. Styrkur þeirra er hins vegar að þar er hægt að fá skjót svör við einföldum spurningum, finna einstaklinga með sameiginleg áhugamál og dreifa efni til margra aðila á einfaldan hátt. Það er ljóst að þeir samfélagsmiðlar sem mest eru notaðir í dag fullnægja ekki öllum þörfum starfssamfélaga. Þeir gagnast þó vel til að brúa fjarlægðir og skapa samkennd milli aðila með sameiginleg áhugamál og markmið og er þá fyrsta, og jafnvel mikilvægasta, skrefið stigið. Fyrir kennara, sem starfa oft að miklu leyti sjálfstætt, hafa starfssamfélög á netinu komið í stað samstarfs félagans sem margir á öðrum vinnustöðum hafa greiðan aðgang að. Starfsemi torganna sem tengjast MenntaMiðju hefur sýnt að í nútíma starfsumhverfi skólafólks er það ekki staðbundna nálægðin við samstarfsfólk sem skiptir máli, eins og Michael Milken hélt fram fyrir 15 árum, heldur er það félagslega nálægðin og greiður aðgangur að upplýsingum. Upplýsingatæknin, og sér í lagi samfélagsmiðlar, eru öflug leið til að skapa og viðhalda þeirri nálægð. SímennTun fyrir Skóla á 21. öld Í báðum útskriftarræðum sínum á árinu hefur Kristín Ingólfsdóttir, rektor Háskóla Íslands, fjallað sérstaklega um áhrif sífellt örari tæknibreytinga á menntastofnanir. Tækniþróun undanfarinna ára hefur ekki aðeins leitt af sér smærri og öflugri tæki heldur hefur upplýsingaflæði einnig stóraukist. Nýjar hugmyndir um skóla og kennsluhætti spretta viðstöðulaust fram og hvetja sumar þeirra okkur til að taka þekkingarstoðir sem skólahald byggir á til gagngerrar endurskoðunar. Gott dæmi eru hugmyndir um s.k. vendikennslu (e. flipped classroom) sem hafa verið mikið til umræðu meðal skólafólks undanfarna mánuði, en þá gera kennarar innlögn fyrir nýtt námsefni (þ.e. fyrirlestrar og önnur „hefðbundin kennsla„) aðgengilega á netinu og nota skólatímann í verkefnavinnu. Annað dæmi eru umræður skólafólks um hvernig best skuli nota spjaldtölvur í námi og kennslu með tilliti til almennra möguleika og þess aragrúa smáforrita sem gefin eru út á hverjum degi. Við höfum getað fylgst náið með því á MenntaMiðju og torgunum hvernig starfssamfélög á netinu bregðast við breytingum af þessu tagi og gagnsemi þeirra er augljós. Má draga þá ályktun að starfssamfélög og samfélagsmiðlar munu gegna mikilvægu hlutverki í símenntun og starfsþróun skólafólks, sem og annarra stétta. MenntaMiðja stefnir að því að styrkja tengslin milli fræðasamfélags háskólanna og vettvangsins sem því er ætlað að þjóna. Með virkri þátttöku í mótun starfssamfélaga skólafólks opnast ýmsir möguleikar fyrir fræðasamfélagið að miðla þekkingu og reynslu til skólafólks um leið og það verður meðvitaðra um starfsemi og þekkingarþarfir vettvangsins. Þannig munu fræðasamfélagið og skólafólk vinna saman að því að byggja upp möguleika skólafólks á því að afla sér nauðsynlegrar símenntunnar í samræmi við nýjar og breytilegar þarfir skóla á 21. öld.

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.