Tölvumál - 01.10.2013, Blaðsíða 45

Tölvumál - 01.10.2013, Blaðsíða 45
45 sem unnin eru í tölvum. Þess vegna var lagt til að application program væri kallað verkforrit, application software kallaðist verkbúnaður og application language verkefnatengt mál. Með snjallsímum varð til nýtt fyrirbæri sem var gefið heiti með því að klippa framan af orðinu application og búa til orðið app. Þar sem ekki hefur tekist að finna heppilegt orð fyrir application var úr vöndu að ráða. Tvær lausnir eru hugsanlegar. Sú fyrri er að reyna að finna heppilegt íslenskt orð. Orðanefndin gerði margar atlögur að því verkefni. Ýmsar tillögur voru settar fram. Ein tillagan var um orðið notra sem maður gæti haldið að væri vel nothæft en tölvunotendur bitu ekki á það agn. Eftir miklar vangaveltur ákvað orðanefndin að leggja til orðið stefja. Orðið stefja hefur að vísu einnig verið notað um það sem á ensku heitir procedure eða subroutine og hefur líka verið kallað undirforrit á íslensku. En nefndin taldi ekki að þetta myndi valda ruglingi. Í 5. útgáfu orðasafnsins voru líka orðin snjallforrit og stubbur fyrir app. Af þessum orðum er orðið snjallforrit mest notað. Ég hef einnig séð orðið smáforrit notað um þetta fyrirbæri. Lausleg könnun á lýðnetinu leiddi í ljós að orðið snjallforrit er algengara en orðið smáforrit. Önnur lausn er að taka orðið app í sátt og laga það að íslensku. Orðið gæti þá beygst eins og orðið happ. Fólk virðist ekki eiga í erfiðleikum með það. En þessi könnun hefur minnt mig á það að margir Íslendingar fá óbragð í munninn við að nota slettur, hvort sem er í ræðu eða riti. Þess vegna er oft mikill þrýstingur á orðanefndina og fleiri aðila um að finna heppileg íslensk heiti og þess vegna eru orðin snjallforrit og smáforrit nokkuð notuð fyrir app. Frá árinu 1983 þegar fyrsta útgáfa Tölvuorðasafnsins kom út hefur kjarninn í þeim orðaforða sem nú er notaður um tölvur birst í Tölvuorðasafninu. Nægir í því sambandi að benda á orðin vista (e. save), vistfang (e. address), gjörvi (e. processor), örgjörvi (e. microprocessor), stafrænn (e. digital) og geisladiskur (e. CD). Gaman er að geta þess að orðið geisladiskur var myndað vegna áhrifa frá færeysku. Einnig mætti benda á nafnorðin rekill (e. driver), beinir (e. router), þjarki (e. robot) og sögnina að þysja (e. zoom). Af orðum sem birtust í fyrsta skipti í 5. útgáfu orðasafnsins langar mig til þess að benda á orðin storkudrif (e. solid-state drive) og storkuminni (e. solid-state memory) en þau eru mynduð fyrir áhrif frá eðlisfræðingum sem kalla solid state physics storkufræði. Einnig má benda á orðið blágeisladiskur fyrir Blu-ray Disk. Ekki má heldur gleyma sjálfu orðinu tölva sem Sigurður Nordal varpaði fram um 1965 og er myndað af orðinu tala með u-hljóðvarpi á svipaðan hátt og völva er myndað með u-hljóðvarpi af orðinu vala. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur ritaði fyrst um tilurð orðsins tölva í Tölvumál árið 1982 (Þorsteinn Sæmundsson 1982) en undirrituð ritaði einnig pistil í sama tímarit 1993 (Sigrún Helgadóttir 1993). Baldur Jónsson ritaði síðar ítarlega grein um málið árið 1994 (Baldur Jónsson 1994). Fyrst minnst var á færeysku hér að ofan má geta þess að Færeyingar nota orðið telda um tölvu. Efni Tölvuorðasafnsins er hugsað fyrir sérfræðinga og almenning og er ætlað til þess að gera Íslendingum kleift að tala og rita um tölvu- og upplýsingatækni á íslensku. Það er von nefndarmanna að efni þess gagnist sem flestum. Með 5. útgáfu Tölvuorðasafnsins lýkur störfum sá hópur sem hefur myndað orðanefndina undanfarin 35 ár. Fyrrverandi formaður mun þó hafa umsjón með vefsetri orðasafnsins og leitast við að svara fyrirspurnum þangað til nýtt fyrirkomulag hefur verið sett á laggirnar. Orðanefndin vill nota þetta tækifæri til þess að þakka öllum þeim óteljandi sérfræðingum í tölvutækni sem hafa aðstoðað nefndina undanfarin 35 ár. Einnig viljum við þakka öllum sem hafa styrkt starfið fjárhagslega og sérstaklega stjórn Skýrslutæknifélagsins fyrir að standa við bakið á nefndinni. Heimildir Baldur Jónsson. 1994. Um orðið tölva. Sagnaþing helgað Jónasi Kristjánssyni sjötugum 10. apríl 1994. Bls. 33–44. Hið íslenska bókmenntafélag. Reykjavík. Sigrún Helgadóttir. 1993. Um uppruna orðsins tölva. Tölvumál 18,4:28– 29. https://notendur.hi.is/~sigruhel/vefskrar/um_tolva_ tolvumal_1993.pdf Sigrún Helgadóttir. 2013. Máltækni á Íslandi. Vefútgáfa Tölvumála 29.8.2013 (http://sky.is/index.php/item/1669-m%C3%A1lt%C3%A6kni- %C3%A1-%C3%ADslandi). Þorsteinn Sæmundsson. 1982. Um vikur ársins, almanök og orðið „tölva„. Tölvumál 7,5:9–12. http://www.internet.is/halo/um_vikur.html LIFANDI LAUSNIR

x

Tölvumál

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Tölvumál
https://timarit.is/publication/239

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.