Bændablaðið - 27.08.2015, Blaðsíða 6

Bændablaðið - 27.08.2015, Blaðsíða 6
6 Bændablaðið | Fimmtudagur 27. ágúst 2015 Málgagn bænda og landsbyggðar Bændablaðið kemur út hálfsmánaðarlega. Því er dreift til allra bænda landsins og fjöl margra annarra er tengjast land búnaði. Bændablaðinu er dreift ókeypis til þeirra er stunda búskap en þéttbýlisbúar geta gerst áskrifendur að blaðinu. Árgangurinn kostar kr. 7.500 en sjötugir og eldri og lífeyrisþegar greiða kr. 3.750. Bændablaðið er í eigu Bændasamtaka Íslands. Bændablaðið, Bændahöll við Hagatorg, 107 Reykjavík. Sími: 563 0300 – Fax: 562 3058 – Kt: 631294–2279 Ritstjóri: Hörður Kristjánsson (ábm.) hk@bondi.is Sími: 563 0339 − Rekstur og markaðsmál: Tjörvi Bjarnason tjorvi@bondi.is Blaðamenn: Margrét Þ. Þórsdóttir mth@bondi.is – Sigurður Már Harðarson smh@bondi.is – Vilmundur Hansen vilmundur@bondi.is Auglýsingastjóri: Auður Laila Jónasdóttir audur@bondi.is – Sími: 563 0303 – Frágangur fyrir prentun: Prentsnið Netfang blaðsins (fréttir og annað efni) er bbl@bondi.is Netfang auglýsinga er augl@bondi.is Vefsíða blaðsins er www.bbl.is Prentun: Landsprent ehf. – Upplag: sjá forsíðu – Landsprent og Íslandspóstur annast dreifingu blaðsins. ISSN 1025-5621 LEIÐARINN Það er sannarlega þörf á að vera vakandi í umferðinni, ekki síst ef umferðaryfirvöld virðast ekki fylgja eftir þeim reglum sem hér eiga að gilda. Oft heyrir maður gagnrýnt að bændur séu að þvælast á dráttarvélum sínum úti í umferðinni einmitt þegar þéttbýlisbúar eru mest á ferðinni yfir sumartímann í sínum sumarleyfum. Þá virðast menn lítt taka tillit til þess að grasið sprettur bara á sumrin og heyskapur kallar á umferð dráttarvéla á milli túna. Undirritaður veit þó ekki betur en bændur forðist eins og hægt er að ferja vinnuvélar á milli svæða yfir hádaginn, heldur nýti fremur kvöld og nætur til þess. Eiga þeir upp til hópa sannarlega heiður skilið fyrir tillitssemina. Það er aftur á móti annað mál sem varðar öryggi vegfarenda sem stingur í augu og varðar kannski enn frekar þéttbýlisbúa og aðra þar sem umferðin er mest. Þar er um að ræða dagsljósabúnað ökutækja. Evrópuvaktin tilkynnti það með viðhöfn í ágúst 2011 að nýir bílar og litlir flutningabílar, sem smíðaðir eru hjá evrópskum framleiðendum, verða með sjálfvirkum dagsljósabúnaði frá og með mánudegi 7. febrúar sama ár. Var þetta sagt liður í aðgerðum framkvæmdastjórnar ESB til að auka umferðaröryggi. Vitnað var í Antonio Tajani, iðnaðarmálastjóra ESB, sem sagði að þetta yrði ekki aðeins til að auka öryggi heldur einnig til að draga úr orkunotkun ökutækja og CO2 útblæstri. Virðist sem síðan hafi ríkt algjört sinnuleysi hjá íslenskum umferðaryfirvöldum varðandi þennan búnað, enda allt sem frá ESB kemur væntanlega Guði þóknanlegt. Nú eru í umferðinni fjöldinn allur af nýjum og nýlegum bílum sem eru með svokallaðan dagsljósabúnað. Gallinn er bara sá að hann kveikir einungis á stöðuljósum framan á bíl- unum, en ekki að aftan. Stöðuljós eru eðli samkvæmt dauf ljós og virka því alls ekki til að vekja athygli á bílnum úti á vegum í dagsbirtu. Er þetta sér- lega bagalegt á malarvegum þar sem rykmökkur liggur yfir í mikilli umferð. Fólk treystir á sjálfvirknina, en áttar sig ekki á hvað stöðuljósin eru dauf. Þá áttar það sig heldur ekki á að aftan á bílunum eru engin ljós og í myrkri skapar þetta stórkostlega hættu. Dagsljósabúnaðurinn sem nú er á mörgum nýjum bílum virðist hugs- unarlaust samþykktur af íslenskum umferðaryfirvöldum þótt hann uppfylli alls ekki þær kröfur sem gerðar voru af sömu yfirvöldum fyrir mörgum árum. Þess í stað er lögð mikil áhersla á, m.a. af skoðunarstöðvum, að ýmis- legt annað sé í fullkomnu lagi, eins og númeraljós aftan á bílum. Er ekki kominn tími til að tekið sé á þessu máli áður en stórslys hljótast af? /HKr. LOKAORÐIN Nýjar leiðir? Undanfarna mánuði hefur verð á mjólkur- afurðum á heimsmarkaði lækkað mjög mikið, í sumum tilvikum um helming. Það hefur valdið miklum erfiðleikum hjá kúabændum víða um heim þar sem verðið sem þeim stendur til boða dugir ekki fyrir framleiðslukostnaði. Ástæður þessa eru einkum þríþættar. Í fyrsta lagi hefur hægt talsvert á hagvexti í Kína. Afleiðingar þess eru meðal annars að dregið hefur úr eftirspurn eftir mjólkurvörum þar í landi, en hún hefur verið í stöðugum og hröðum vexti undanfarin ár. Í öðru lagi eru það aðgerðir Rússa gegn innflutningi á matvælum. Eins og fram hefur komið hafa Rússar lagt bann við innflutningi á matvælum frá flestum löndum Evrópu, þar með talið Íslandi. Það hefur þýtt að vörur sem ætlunin var að flytja þangað hafa leitað annað, með þeim afleiðingum að verð hefur lækkað á flestum mörkuðum. Í þriðja lagi er um að ræða afnám Evrópusambandsins á framleiðslu- stýringu á mjólk. Það hefur þýtt aukna samkeppni sem hefur enn frekar ýtt undir verðlækkanir. Bændur í Evrópu ósáttir Bændur eru eðlilega ósáttir við þetta ástand og hafa mótmælt víða í Evrópu, m.a. í Bretlandi og fyrirhugaðar eru umfangsmiklar mótmælaaðgerðir í Brussel í næsta mánuði. Þessi staða er vitanlega ósjálfbær. Fái bændur ekki fyrir framleiðslukostn- aði þýðir það auðvitað ekki annað en gjaldþrot á endanum. Það sér allt sanngjarnt fólk, bæði neyt- endur, stjórnmálamenn og aðrir sem málið snertir. Flestum þykir líka vænt um sinn landbúnað og vilja standa vörð um hann. Staðan hefur líka orðið umhugsunarefni m.a. hjá frændum vorum Dönum, sem hafa um árabil rekið mjög útflutn- ings- og markaðsdrifinn landbúnað og lagt áherslu á stækkun búa. Þrátt fyrir þessa aðferðafræði hefur það ekki leitt til þess að afkoma greinarinnar hafi verið ásættanleg og núverandi ástand hjálpar sannarlega ekki til. Það er athyglisvert að í Bretlandi og Danmörku hefur verslunin gripið inn í. Stórmarkaðir í þessum löndum hafa í sumum tilvikum hækkað verð á mjólk, með því skilyrði að hækkunin renni öll til bænda. Norska verslunarkeðjan REMA 1000, sem starfar í Danmörku og öðrum löndum, hækkaði t.d. mjólkurverð um 50 danska aura fyrir nokkrum dögum með þessum skilmálum og breska keðjan ASDA gerði slíkt hið sama. Líklegt má telja að fleiri sigli í kjölfarið. Neytendur eru að öllu jöfnu ekki hrifnir af verðhækkunum en í þessum tilvik- um hafa þeir tekið hækkunum vel. Þeir vilja passa upp á sinn landbúnað. Önnur staða á Íslandi Hér á Íslandi er staðan nokkuð önnur. Um síðustu mánaðamót fengu kúabændur smávægilega hækk- un á mjólkurverði eftir að það hafði verið óbreytt frá því í október 2013. Margir telja þá hækkun of litla og vel er hægt að rökstyðja að svo sé, en eftir sem áður var þetta hækkun, en ekki verðfall eins og erlendir mjólkurframleiðendur hafa mátt þola. Eins og fram hefur komið þá er verð til bænda á mjólk og heildsöluverð ákveðið af verðlagsnefnd búvöru og miðað við greiningar á því fyrirkomu- lagi hefur það skilað sér í lægra verði til neytenda en á flestum öðrum neysluvörum. Verðlag á kjöti hérlendis er hins vegar frjálst á öllum stigum. Sauðfjárbændur eru til dæmis afar ósáttir þessa dagana enda er útlit fyrir að afurðaverð til þeirra í komandi sláturtíð standi í stað eða lækki frá fyrra ári. Svínabændur hafa einnig vakið athygli á því að verð til þeirra fer nú lækkandi á sama tíma og smásöluverð hækkar. Afkoman í kjötframleiðslu er í mörgum tilvikum fjarri því að vera nægilega góð. Sauðfjárbændur hafa vakið athygli á að skipting kökunnar sé ekki sanngjörn. Það er að vísu nokkuð erfitt að meta skiptinguna þar sem kjötskrokkar nýtast í framleiðslu á mörgum vörum sem allar eru verðlagðar með sjálfstæðum hætti. Skiptingin verður aldrei að fullu ljós nema að afurðastöðvarn- ar gefi upp á hvaða meðalverði þeir selja skrokkinn frá sér. Það hafa þær ekki viljað gera hingað til og bera fyrir sig samkeppnissjónarmið. Það er skiljanlegt en það þýðir líka að notast er við gögn sem geta ekki sagt alla söguna. Allt að einu er það sanngjarnt að vekja máls á skiptingu kökunnar og fjalla um hvort að það sé rétt gefið. Hlutarnir eru bara fjórir – bóndinn, afurðastöðin, smásalan og ríkið. Hvað er að því að það sé allt uppi á borðinu? Íslenskur landbúnaður mikilvægur En það er líka þannig hér á Íslandi að margir vilja standa vörð um landbúnaðinn. Það hefur ítrekað komið fram í könnunum að mikill meirihluti almennings telur mikilvægt að hér sé stundaður landbúnaður. Greinin á því marga stuðningsmenn meðal neytenda. Verslunin hefur líka stundum talað hlýlega til bænda – þó að þar sé nú reynd- ar oft gert upp á milli þeirra eftir búgreinum. En myndi íslensk verslun til dæmis gera sam- bærilega hluti og nú eru að gerast erlendis – að hjálpa bændum að ná hærra afurðaverði? Það væri forvitnilegt að vita. Það væru sannarlega nýjar leiðir. /SSS Falskt öryggi Aðalfundur NBC í Noregi: Norrænir bændur kenna á viðskiptabanni Rússa Viðskipti með búvörur og brothætt efnahagsástand í heiminum voru meðal þeirra mála sem norrænir bændur þinguðu um á aðalfundi samtaka bænda á Norðurlöndum (NBC) sem haldinn var dagana 23. til 25. ágúst sl. í Þrándheimi í Noregi. Þjóðir sem í ríkara mæli hafa treyst á útflutning á sínum framleiðsluvörum stíga nú ölduna í kjölfar viðskiptabanns Rússa. Forystumenn danskra bænda telja að gjaldþrot bíði margra svína- og kúabænda þar í landi á komandi ári vegna uppnáms á mörkuðum og lágs afurðaverðs. Vandinn er ekki síður tilkominn vegna slæmr- ar skuldastöðu stórbúa sem eiga erfitt með að mæta sveiflum sem fylgja óróa á mörkuðum. Á dagskrá fundarins var rætt um uppgang öfgaafla í stjórnmál- um og þá sem komast áfram með því að beita popúlisma. Sums stað- ar á Norðurlöndunum hafa flokkar komist til áhrifa sem berjast gegn innflytjendum og leggja áherslu á öfgakennda þjóðernishyggju. Þessir flokkar hafa sumir hverjir hvatt til róttækra breytinga í landbúnaði, m.a. með minnkandi ríkisstuðningi og niðurfellingu á tollum. Í Noregi hefur bændahreyfingin staðið í ströngu í samskiptum við nýja ríkisstjórn sem hefur það á stefnuskrá sinni að lækka stuðning umtalsvert og orðið nokkuð ágengt. Á meðal þess sem bændur ræddu á fundinum var samskipti við þessa flokka, hvort það ætti að leiða þá hjá sér eða stofna til samtals. Viðskipti og regluverk Þróun á vettvangi Alþjóðaviðskipta- stofnunarinnar (WTO) var til umræðu á fundinum. Í umræðum um aukin viðskipti á milli landa með búvörur hafa norrænir bændur einkum lagt áherslu á að tekið sé tillit til gæða og munar á framleiðsluaðferðum. Ólíkar aðferðir í landbúnaði, t.d. hvað varðar lyfjagjöf, dýravelferð og gæðavitund í matvælaframleiðslu eru óneitanlega fyrir hendi á milli landa í heiminum og skekkja samkeppnis- stöðu verulega. Fundurinn sendi frá sér sameigin- lega ályktun er varðaði eignarrétt á landi og auðlindum sem nýttar eru í matvælaframleiðslu. Strangari kröfur og íþyngjandi regluverk hefur gert bændum erfitt fyrir á ýmsum sviðum á síðustu árum, t.d. er varðar landnýt- ingu. Í ályktun NBC var lögð áhersla á mikilvægi þess að framleiða mat og samfélagslegt hlutverk bænda í því tilliti. Vegna þess að tekjur í land- búnaði séu almennt lágar og arðsemi lítil hafi bændur minna svigrúm en stórfyrirtæki til þess að mæta ýmsum kröfum sem gerðar eru, t.d. er varðar mengunarskatta. Þá verði í sumum tilvikum að bæta bændum upp þann skaða sem þeir verða fyrir vegna íþyngjandi regluverks. Norðmenn hafa farið með forystu í NBC síðustu tvö árin en á fundinum tóku Finnar við formennskunni. Það er því Juha Marttila, formaður MTK, sem fer fyrir samtökum norrænna bænda næstu tvö árin. Formenn norrænna bændasamtaka. Frá vinstri: Lars Petter Bartnes (Noregi), Sindri Sigurgeirsson, formaður BÍ, Helena Jonsson (Svíþjóð), Juha Marttila (Finnland) og Martin Merrild (Danmörku). Mynd / TB

x

Bændablaðið

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Bændablaðið
https://timarit.is/publication/906

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.