Skólavarðan - 01.08.2005, Blaðsíða 20

Skólavarðan - 01.08.2005, Blaðsíða 20
20 Þó að kennslubækur virðist bæði sak- leysislegar og mikilvægar fyrir skóla- göngu ungs fólks hafa þær undanfarið verið undirrót óróa í Asíu og snarprar umræðu í Evrópu. Nýlegar japanskar sögubækur hafa valdið ókyrrð, eyði- leggingu eigna og ofbeldi í Kína og Suður-Kóreu. Þá umdeildustu af þessum nýju bókum skrifuðu meðlimir Félags um endurbættar sögubækur, hóps japanskra sagnfræð- inga, og er sú bók endurskoðuð útgáfa bókar sem japönsk stjórnvöld létu breyta 124 atriðum í þegar hún kom fyrst út árið 2001. Fjölmenn mótmæli í Suður-Kóreu og Kína og gagnkvæm mótmæli í Japan komust í heimsfréttirnar nýlega þegar því var haldið fram að bækurnar gerðu lítið úr ofbeldi og kúgun Japana á hernumdum svæðum í Kína og Kóreu frá lokum 4. ára- tugarins til 1945. Sú ofbeldisfulla atburðarás sem fylgdi í kjölfarið sýnir hversu mikilvæg námsgrein saga er og hversu auðvelt er að misnota hana ef hún er meðhöndluð án gagnrýnnar hugsunar. Svo vildi til að á sama tíma og þessir atburðir áttu sér stað í Asíu stóð yfir í Ríga í Lettlandi stór ráðstefna EUROCLIO, Evrópusamtaka sögukennara, þar sem full- trúar 46 landa höfðu rökrætt um jafnvægi í sögukennslu og hlutverk kennslubóka. Eitt af markmiðum EUROCLIO er einmitt að hvetja til aðferða og leiða í kennslu sem örva gagnrýna skoðun á umdeildri fortíð, að litið sé á viðfangsefnin frá ólíkum sjón- arhornum og að beitt sé almennri nálgun fremur en menningarbundinni svo að auka megi líkur á sátt, gagnkvæmum skilningi og trausti manna á milli. Þátttakendur á ráðstefnu EUROCLIO vildu lýsa stuðningi við sögukennara í öllum þeim Asíulöndum sem hlut áttu að máli og benda á að baráttan fyrir því að fagmennska kennara sé metin að verð- leikum, að fortíðinni sé lýst á hlutlægan hátt og ungu fólki kenndar aðferðir í því skyni, sem og lýðræðisleg gildi, er sam- eiginleg kennurum um heim allan. Á síðustu áratugum hafa meðlimir EUROCLIO unnið mikið starf á þessum vett- vangi, ekki síst á svæðum þar sem sagan er sérstakt ágreiningsefni. Þar hefur reynst vel að bjóða kennurum endurmenntun, að horfast í augu við staðreyndir og skoðanir á heiðarlegan og opinskáan hátt og að búa saman til nýtt kennsluefni af ýmsu tagi. Ráðstefnugestir lögðu megináherslu á að söguna skyldi aldrei nota til að espa fólk hvert gegn öðru heldur til að ýta undir gagnkvæman skilning. Á ráðstefnu EUROCLIO í Ríga var samþykkt að hvetja til þess að í öllum löndum yrði ritun sögu- kennslubóka falin fagfólki á sviði mennt- unar en ekki þeim sem sæju hag í að nýta þær í pólitísku skyni. Margrét Gestsdóttir, Höfundur er sögukennari Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Sjá nánar: http://www.eurocliohistory.org Umdeild fortíð - kennarar kalla eftir jafnvægi EUROCLIO • er félagsskapur meira en 40.000 sögukennara og annarra sem að sagnfræðimenntun standa í meira en 50 löndum • er evrópsk regnhlífasamtök fyrir félög sögukennara og önnur samtök sem standa að sagnfræðimenntun • vill vera sterk rödd fyrir sagnfræðimenntun • hvetur til alþjóðlegra samskipta, samvinnu og tengslamyndunar • hvetur til og styður þróun sögukennslu svo að hún megi efla frið, stöðugleika, lýðræði og gagnrýna hugsun • er sjálfstæð og óháð samtök • lýtur sjö manna fjölþjóðlegri stjórn en um þessar mundir eru meðlimir hennar frá Englandi, Hollandi, Íslandi, Kýpur, Lettlandi, Portúgal og Slóveníu • rekur skrifstofu í Haag sem stjórnar og rekur margskonar starfsemi og verkefni SKÓLAVARÐAN 5.TBL. 5. ÁRG. 2005 Félag um menntarannsóknir (FUM) er vettvangur fræðimanna og fagfólks á sviði skóla-, uppeldis- og menntamála. Stefna félagsins er að halda fagráð- stefnu um menntarannsóknir annað hvert ár og gefa út tímarit. Formaður FUM er Guðný Guðbjörnsdóttir pró- fessor við Háskóla Íslands. Tímarit um menntarannsóknir er heiti nýs tímarits sem hóf göngu sína í lok síð- asta árs. Í ritinu eru nítján greinar en þær byggja á erindum sem flutt voru á fyrstu ráðstefnu FUM sem var haldin í nóvember 2003. Höfundar eru uppeldisfræðingar, Félag og tímarit um menntarannsóknir menntunarfræðingar, sálfræðingar, kennslufræðingar, mannfræðingar og félagsfræðingar sem eru kennarar við fjóra íslenska háskóla eða fræðimenn á öðrum stofnunum. Efnið er allt tengt rannsóknum á þessum fræðasviðum og er mjög fjöl- breytt. Sem dæmi má nefna: Aðferðir og stöðu menntarannsókna, starfskenningar kennara, sjálfsmynd og þjóðarvitund ungs fólks, börn með sérþarfir, gildismat skóla- stjóra eftir kynferði, kennslu við erfiðan skóla, matsrannsóknir, gildi menntunar fyrir fullorðna, upplýsinga- og samskipta- tækni í skólastarfi, erlend börn í íslenskum skólum og markvissa málörvun. Stefnt er að því að tímaritið komi út einu sinni á ári og er það von félagsins að ritið geti orðið til þess að efla rannsóknir á sviði menntamála og verði uppspretta hugmynda og umræðuvettvangur fyrir alla sem áhuga hafa á menntamálum. Þeir sem stunda menntarannsóknir eru hvattir til að senda ritinu greinar og rannsóknar- niðurstöður. Tímarit um menntarannsóknir má finna á bókasöfnum og fæst í bókabúðum eða hjá Hafþóri Guðjónssyni, lektor í KHÍ haft- hor@khi.is. Nánari upplýsingar má finna á heima- síðu félagsins: www.fum.is

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.