Skólavarðan - 01.08.2005, Blaðsíða 29

Skólavarðan - 01.08.2005, Blaðsíða 29
29 FRÉTTIR OG TILKYNNINGAR Úthlutun úr Rannsóknarsjóði leikskóla Úthlutað hefur verið úr Rannsóknarsjóði leikskóla fyrir árið 2005 og hafa eftirtaldir aðilar og verkefni hlotið styrk úr sjóðnum: Bryndís Garðarsdóttir, Hrönn Pálmadóttir og Kristín Karlsdóttir Verkefnið: Orðræða um uppeldi og menntun í leikskóla í íslenskum fjölmiðlum. Elfa Lilja Gísladóttir Verkefnið: Hring eftir hring, undirbúningur og vinna við gerð námsefnis í tónlist og hreyfingu fyrir leikskóla. Þetta er meistaraverkefni umsækjanda. Heiðrún Sverrisdóttir og Sigurlaug Einarsdóttir Verkefnið: Erum við of fá – erum við of mörg? Rannsókn á áhrifum hópastærðar á gæði leikskólastarfs. Rannsóknarsjóður leikskóla var stofnaður af Félagi leikskólakennara til minningar um Selmu Dóru Þorsteinsdóttur fyrrum formann félagsins. Hann er fjármagnaður með eftirfarandi hætti: Ávöxtun stofnfjár, ágóða af fyrirlestrum sem styrkþegar halda fyrir leikskólakennara, fjárframlögum Félags leikskólakennara, gjöfum sem sjóðnum berast við hátíðleg tækifæri, t.d. á útskriftarafmælum, og síðast en ekki síst með ágóða af minningarkortum sjóðsins sem afgreidd eru á skrifstofu KÍ. Stjórn sjóðsins skipa: Jónína Konráðsdóttir leikskólastjóri, formaður, Guðrún Alda Harðardóttir lektor og Þórdís Þórðardóttir lektor. Nýútskrifaðir leikskóla- kennarar boðnir velkomnir Félag leikskólakennara efndi til hófs 13. maí sl. á Akureyri og í Reykjavík til að bjóða nýja leikskólakennara velkomna í hópinn. Þetta er í annað skiptið sem félagið býður nýliða velkomna með þessum hætti. Á Akureyri tók formaður svæðadeildar FL á Norðurlandi eystra, Björg Sigurvinsdóttir, á móti hópnum í Rauðakrosshúsinu ásamt Snjólaugu Brjánsdóttur úr stjórn FL. Í Reykjavík var hópnum boðið til móttöku í Kennarahúsinu og þáði léttar veitingar. Björg Bjarnadóttir formaður FL ávarpaði hópinn. Báðar móttökurnar voru vel sóttar og mæltust vel fyrir. Þröstur Brynjarsson Íslensk kennsluforrit þýdd og gefin til kennslu, m.a. í Afríkulöndum Sérkennsluverkefni á vegum UNESCO sem nefnist Ný tækifæri fyrir börn og ungmenni með sérþarfir fær á næstunni til notkunar fimmtán kennsluforrit frá Námsgagnastofnun sem þróuð hafa verið fyrir íslenska nemendur til að stuðla að einstaklingsmiðaðri kennslu. Höfundar, hönnuðir og aðrir þeir sem unnið hafa að gerð forritanna hafa samþykkt að fella niður greiðslur sem þeir eiga rétt á. Forritin verða þýdd á nokkur tungumál, s.s. arabísku, ensku, frönsku og swahili, í samstarfi Námsgagnastofnunar og UNESCO. Tveir starfsmenn UNESCO dveljast á Íslandi í tíu daga í maí til að fylgjast með verkefninu og aðstoða við þýðingar. Tölvum hefur fjölgað í skólum í Afríku og ýmsum arabískumælandi löndum á síðustu árum fyrir tilstuðlan ýmissa átaksverkefna, en tölvurnar hafa ekki nýst sem skyldi í kennslu þar sem skólarnir hafa ekki ráð á að kaupa kennsluforrit. UNESCO verkefnið miðar að því að auka aðgengi að kennsluforritum. Kennsluforritin fimmtán frá Námsgagnastofnun verða þýdd á fyrrgreind tungumál og sett á geisladisk ásamt kennsluleiðbeiningum og verður þeim dreift ókeypis til skóla frá janúar 2006. Stefnt er að því að kynna geisladiskinn á alþjóðlegum leiðtogafundi sem haldinn verður í Túnis í nóvember nk. Á vefsíðu menntamálaráðuneytisins segir að það fagni þessu framlagi Námsgagnastofnunar til þróunarsamvinnu og að vonandi verði framhald á samstarfi Námsgagnastofnunar og UNESCO á sviði kennslumála. Þetta verkefni er sprottið upp úr áralöngu samstarfi Norðurlandanna á sviði kennsluforrita. Þess má geta að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hefur sent tölvur m.a. til Kenýa. SKÓLAVARÐAN 5.TBL. 5. ÁRG. 2005 Félag leikskólakennara bauð í vor nýútskrifuðum leikskólakennurum til hófs í Kennarahúsinu við Laufásveg. Ljósmynd Skólavarðan Uppeldi og menntun Út er komið fyrsta hefti fjórtánda árgangs tímaritsins Uppeldi og menntun. Þar með hefst nýr kafli í sögu ritsins en það er nú í fyrsta sinn gefið út af Rannsóknarstofnun Kennaraháskóla Íslands í samvinnu við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Útlit ritsins hefur verið endurhannað, stefnt er að því að það komi út tvisvar á ári og haustheftið verði að jafnaði helgað ákveðnu málefni. Næsta tölublað verður helgað málefnum grunnskólans. Í ritinu eru rannsóknargreinar á sviði menntunar en einnig er stefnt að því að tímaritið verði vettvangur umræðu og skoðanaskipta um álitaefni er varða starfshætti og stefnumótun fyrir mennta- og uppeldisstofnanir. Jóhanna Einarsdóttir, dósent í menntunarfræði við KHÍ, er ritstjóri. Með henni í ritstjórn eru Börkur Hansen, prófessor í stjórnsýslufræðum við KHÍ, Guðrún Geirsdóttir, lektor í uppeldis- og menntunarfræði við HÍ, og Trausti Þorsteinsson, forstöðumaður skólaþróunarsviðs HA.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.