Skólavarðan - 01.08.2006, Blaðsíða 6

Skólavarðan - 01.08.2006, Blaðsíða 6
6 GESTASKRIF sem ég hef unnið með í gegnum tíðina. Og ég skammast mín ekkert fyrir þetta. Íslenska er lifandi tungumál sem ekki má njörva of mikið niður … enda er það hreinlega ekki hægt. Ný tækni og breyttir lífshættir kalla stöðugt á nýyrði og tungumálið verður að vera svolítið sveigjanlegt. Annars staðnar það og deyr. Þess vegna verðum við að kyngja því að stöðugt spretti upp ný orð og önnur hverfi. Orð og orðatiltæki geta átt sín blómaskeið, komist í tísku (með tilheyrandi ofnotkun) og skömmu seinna þótt það púkalegasta af öllu púkalegu. Stundum breytist merking orðs líka frá einni kynslóð til annarrar og alls kyns misfagrar málfarskrúsidúllur verða til. Þessu verðum við bara að taka eins og hverju öðru hundsbiti, held ég. Við stöðvum ekki svona bylgjur fremur en snjóflóð eða aðrar náttúruhamfarir. Samt dáist ég að því baráttufólki sem reglulega skrifar í blöðin í tilraun til að beina þjóðinni inn á betri málfarsbraut. Þótt ég geri mér grein fyrir að tungumál verði að vera í stöðugri þróun er umburðarlyndi mitt alls ekki takmarkalaust. Síður en svo. Ýmislegt í nútímamáli fer gríðarlega í taugarnar á mér – svo ekki sé meira sagt. Það blossar t.d. upp í mér eldheit málverndarmanneskja þegar fólk segist hafa “verslað sér” föt, húsgögn eða annað. Hvenær hættum við að kaupa hluti? Ekki á ég heldur auðvelt með að umbera málfar á borð við þetta: „Ég er að spá í því … Ég fór erlendis … Hafðu góðan dag … Dinglaðu bjöllunni … Ég kem klukkan átta ef ég sé búin þá …“ Að mínu mati eru þetta hrein og klár málspjöll. En svona tala Íslendingar núorðið. Það liggur við að þágufallssýki sé orðin sjarmerandi í samanburði við þessi ósköp! Verst finnst mér þó þegar götumálfar slæðist inn í virta fjölmiðla – en því miður eru mýmörg dæmi um það. Oft eru aug- lýsingarnar verstar, bæði í prentmiðlum og ljósvakamiðlum. Eitt sinn taldi ég t.d. yfir tuttugu villur í heilsíðuauglýsingu frá húsgagnaverslun. (Og þá gat ég ekki á mér setið að hringja í búðina og kvarta. Algjör kverúlant!) Sorglegast er þó að heyra dagskrárgerðarfólk afbaka íslenska tungu … og styrkja þar með fjölda áheyrenda í þeirri trú að þetta sé rétt mál. Ennþá verður „enn þá“, smá biti verður „smábiti“ Breytingar á talmáli gerast úti á meðal fólksins. Reglur um ritmál breytast hins vegar einnig – en þar á almenningur ekki hlut að máli. Ég hef aldrei komist að því hverjir standa eiginlega fyrir þessari ritmálsuppstokkun. Einhver stofnun eða nefnd virðist þó hafa það hlutverk að endurskoða reglurnar af og til og koma fyrirskipunum sínum svo á framfæri við kennara og prófarkalesara … eftir leiðum sem mér eru sömuleiðis ókunnar. Er þetta örugglega löglegt? Á skóla- árum mínum hélt ég að boð og bönn um stafsetningu og greinarmerkjasetningu væru rist í stein. Þeim yrði aldrei haggað. Þó hefði ég átt að vita betur. Þegar faðir minn var ungur skrifaði hann „fjelag”, „sjer” og „jeg”. Einhvern tíma á 20. öldinni breyttist je síðan í é – en ekki veit ég hvort þau umskipti mættu mikilli mótspyrnu. (Því miður er orðið of seint að spyrja pabba um það.) Að lokinni skólagöngu upplifði ég þann sorgardag þegar zetan var gerð útlæg með einu pennastriki. Blessuð sé minning hennar. Á síðastliðnum tuttugu árum hafa mér síðan borist alls kyns tilskipanir frá hinum ósýnilegu stjórnendum íslensks ritmáls. Sjálfir hafa þeir þó aldrei haft samband við mig, persónulega og prívat. Skyndilega hef ég bara frétt af því … í gegnum íslenskufræðinga þeirra útgáfufyrirtækja sem ég hef unnið hjá … að það sem þótti gott og gilt í gær teljist núna rangt. Og hananú. Í gær var rétt að skrifa „ennþá“ í einu orði. Í dag er það rangt. Nú eigum við að skrifa „enn þá“. Í gær var ekkert athugavert við að fá sér „smá bita“. Í dag verður það að vera „smábiti“. Í gær var einn hlutur „jafn sætur“ og annar. Í dag er hann „jafnsætur“. Í gær mátti fólk líka halda „framhjá“ en nú er það harðbannað. (Eða gerði fólk það bara þrátt fyrir að það væri bannað?) Í dag er aðeins leyfilegt að halda „fram hjá“. Og allt í einu breyttust múslimar í múslíma. Svona mætti lengi telja. Kommur, zetur og ypsilon Þar sem ég er með eindæmum hlýðin manneskja reyni ég eftir fremsta megni að tileinka mér „réttan“ rithátt hverju sinni. Ja, svona innan ákveðinna marka. Ég verð hins vegar að viðurkenna að ég skil ekki hvers vegna verið er að hræra í þessu. Hvers vegna mátti „enn þá“ t.d. ekki halda áfram að vera „ennþá“? Í æsku las ég örugglega hundruð bóka þar sem enn þá var alltaf skrifað í einu orði … og ekki voru það prentvillur. Á þessum tíma taldist þetta réttur ritháttur. Gerðist eitthvað sem breytti því? Hvað í ósköpunum var það?! Æ, ég skil þetta ekki … og ég er eins og blessuð börnin. Mér gengur betur að fara eftir reglum ef ég skil tilgang þeirra. Mér nægja ekki svör eins og „af því bara“ eða „vegna þess að maðurinn segir það“. Það þurfa að vera góðar og gildar ástæður fyrir því að eitthvað sem var rétt klukkan sex á fimmtudegi sé orðið rangt klukkan sjö á föstudegi. Þess vegna er auðveldara að sætta sig við kommusetningarbyltinguna en ýmislegt annað. Það glittir a.m.k. í einhver rök á bak við hana. Margir áttu jú í miklum vandræðum með kommurnar sem í gær eða fyrradag áttu að vera á víð og dreif um allan texta. Þar að auki voru allar þessar kommur til lítillar prýði og gerðu takmarkað gagn við lestur. Þess vegna kyngdi ég því möglunarlaust þegar fyrirmæli bárust um að nú mætti aðeins sjást ein og ein komma á stangli. Gott mál. SKÓLAVARÐAN 5.TBL. 6. ÁRG. 2006 3 Jónína myndir-3 24.10.2003 11:19 Page 3 Í gær mátti fólk halda „framhjá“ en nú er það harðbannað. (Eða gerði fólk það bara þrátt fyrir að það væri bannað?) Í dag er aðeins leyfilegt að halda „fram hjá“. Og allt í einu breyttust múslimar í múslíma.

x

Skólavarðan

Beinir tenglar

Ef þú vilt tengja á þennan titil, vinsamlegast notaðu þessa tengla:

Tengja á þennan titil: Skólavarðan
https://timarit.is/publication/1179

Tengja á þetta tölublað:

Tengja á þessa síðu:

Tengja á þessa grein:

Vinsamlegast ekki tengja beint á myndir eða PDF skjöl á Tímarit.is þar sem slíkar slóðir geta breyst án fyrirvara. Notið slóðirnar hér fyrir ofan til að tengja á vefinn.